Einu sinni var stjórnvitringur. Hann hét Bjarni Benediktsson.

Einu sinni var stjórnvitringur. Hann hét Bjarni Benediktsson og var forsætisráðherra frá 1963 til 1970. 

Áður en hann varð forsætisráðherra fór misjöfnum sögum af stjórnmálastörfum hans eins og gengur.

Hann var einn af helstu lögspekingum landsins og átti stóran þátt í lýðveldisstofnuninni og í utanríkisstefnu Íslendinga.

Sem borgarstjóri í Reykjavík til 1947 lagði hann grunn að þeirri félagslegu þjónustu í borginni sem tryggði Sjálfstæðisflokknum meirihluta borgarstjórnar langt fram eftir öldinni.

Í stóli ritstjóra Morgunblaðsins 1956-1960 var hann harðskeyttur svo að mörgum þótti nóg um.

Þegar hann tók við embætti forsætisráðherra 1963 voru blikur á lofti í kjaramálum.

Í hörðu verkfalli 1961 höfðu laun verið hækkuð um 13% og strax í kjölfarið felldi ríkisstjórnin gengi krónunnar um 13% og af stað fóru víxlhækkanir launa og verðlags.

Bjarni sá, að við svo búið mátti ekki standa og nýtti sér alla stjórnvisku sína, kænsku og áunna lipurð til að koma á það góðu trúnaðarsambandi og persónulegum samskiptum milli ríkisstjórnar og verkalýðshreyfingar að verkföllum var afstýrt 1964 með svonefndu júnísamkomulagi og síðan aftur með nýju júnísamkomulagi árið eftir.

Bjarna tókst að stýra þjóðarskútunni í gegnum gríðarleg áföll á árunum 1967-70 af lagni og stjórnvisku.

Við hörmulegt fráfall hans 10. júlí 1970 skynjaði þjóðin sterkt, að hún hafði misst einn af mikilhæfustu stjórnmálamönnum aldarinnar, mann sem hafði komist í stöðu landsföður.

Nú er uppi válegt ástand í kjaramálum. Annar Bjarni, Benediktsson eins og frændi hans, er í raun límið í ríkisstjórninni og heldur henni saman. Hann á möguleika til að komast í svipaða stöðu og nafni hans forðum.

En tími hans er ekki kominn og enginn veit enn hvort hann hefur það sem þarf, til þess að endurtaka leikinn frá 1964. Staða hans er önnur og umhverfið annað en var hjá frænda hans 1963-1970.

Ekkert trúnaðartraust ríkir milli ríkisstjórnar og launþegahreyfinganna og ringulreið er á vinnumarkaði.

Hvorki hillir undir júnísamkomulag né nýja Þjóðarsátt líka þeirri, sem menn afrekuðu að ná fram 1990. Ríkisstjórnin og valdaöflin, sem að henni standa, hafa storkað almenningi með því að nota endurheimt vald til að hygla þeim sem mest hafa, oft upp í opið geðið á alþýðu manna.

Einu sinni var talsmaður svipaðra afla sem hét Bjarni Benediktsson. En hann var stjórnvitringur.   


mbl.is Verkföllin bíta marga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er ekki bara það að ríkisstjórnin og valdaöflin, sem að henni standa, hafa storkað almenningi með því að nota endurheimt vald til að hygla þeim sem mest hafa, verkalýðshreifingin hefur einnig verið upptekin nokkur síðustu ár við að hækka lægstu laun á kostnað hinna umbjóðenda sinna. Stórir hópar sjá sig nú á verkamannalaunum með sama og engan ávinning af menntun og starfsreynslu og vilja sína leiðréttingu.

Davíð12 (IP-tala skráð) 28.4.2015 kl. 10:20

2 identicon

Bjarni Benediktsson var algjör risi í íslenskum stjórnmálum. Ég sé ekki neinn núlifandi Íslendinga feta í sporin hans.

Ragnar Tómasson (IP-tala skráð) 28.4.2015 kl. 11:28

3 identicon

Sæll Ómar!

Stóð í þeirri trú að Sumargleðin hefði hætt
fyrir nokkrum árum. (...áunna lipurð...)

Húsari. (IP-tala skráð) 28.4.2015 kl. 11:58

4 identicon

Hárbeitt og hárrétt ádeila.

Jónas Kristjánsson: Varla líður sá dagur.

"Varla líður sá virki dagur, að enginn ráðherra eða stjórnarþingmaður verði frægur af spillingu, heimsku eða fólsku. Hanna Birna er snúin aftur. Illugi er á framfæri orkuvíkings. Sigurður Ingi stelur makrílnum af þjóðinni. Blöndal vill gera láglaunafólk bótaskylt fyrir verðsamráð fyrirtækja. Páll Jóhann Pálsson segist ekki vanhæfur. Evrópuráðið sendir kvörtunarbréf út af séríslenzkri spillingu. Furðulegt er að horfa á þetta litla Ísland, þar sem kjósendur eru svona skakkir af meðvirkni og þrælslund. Að illa innrættir og illa heimskir bófar skuli geta rænt og ruplað öllu, sem þeir koma höndum yfir. Flýið íslenzkt ógeð til Noregs."

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 28.4.2015 kl. 13:18

5 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Bjarni Benediktsson mátti sitja undir einum hrikalegasta óhróðri vinstrimanna sem ég man eftir.

Gott að álit manna hefur breyst í seinni tíð.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 28.4.2015 kl. 14:21

6 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Þetta er reyndar mikil einföldun Ómar minn kæri, verkalýðshreyfingin var að sigla út úr gríðarlegum átökum þar sem Ólafur nokkur Thors var við stýrið á hinum vængnum.

Þótt Ólafur hafi verið að mörgum fannst gríðarlegur tækifærissini að þá var hann það ekki á öllum sviðum. Hann var fyrrum leiðtogi togaraútgerðar-manna og var það í raun einnig sem ráðherra, í öllum þessum 5 ráðuneytum sem var í lengstum forsætisráðherra.Hann beitti gengisfellingum miskunnar-laust og öll kjarabarátta tók af þessu.

Atvinnurekendur komust upp með það ár eftir ár að haldi niðri launum verkafólks. Við launamenn vorum lengstum í verkföllum á hverju einasta ári, við tókum aldrei sumarfrí og þetta var endalaus barátta á milli þessara afla. Hægri maðurinn Bjarni tók við þessu búi og sem betur fer sá hann að eitthvað varð að gera. Verkalýðsbaráttan var réttlát.

Hann fór í það verkefni að gerast í raun sáttasemjari, þannig að mæst var á miðri leið og ríkisstjórnin gaf loforð um að fella ekki gengið. Það varð kaupmáttaraukning.

En ekki má gleyma því, að það varð ríkisbankahrun á hans valdatíma eftir að síldin hvarf af miðunum og verðfalla varð á þorski. Á rúmu ári var gengi krónunnar fellt í tvö skipti og það fært nánast niður úr öllu valdi og hún nánast verðlaus.

Síðar tókst þessum ágæta manna að setja launamannaskattinn á til að bjarga þessum bönkum. Þetta voru kölluð lífeyrissjóðagjöld sem í dag eru milli 14 - 16% af öllum launum. Flatur skattur. ASÍ gerði aldrei kröfur um lífeyrissjóð, heldum um að verkafólk fengi eftirlaun eins og opinberir starfsmenn og launamenn á norðurlöndum.

Así klofnaði í þessu máli og það var rifist heiftarlega um þetta mál í nær 7 ár. En er umræðan heit.   

Kristbjörn Árnason, 28.4.2015 kl. 14:49

7 Smámynd: Hörður B Hjartarson

    Einu sinni var maður sem hét Bjarni Benediktsson , og símar margra íslendinga voru hleraðir , hver kom því til leiðar ?

   Einu sinni var flokkur sem hét Sjálfstæðisflokkur , en nú er öldin önnur , nú heitir hann FL-fokkur og ber nafn sitt með hinni mestu prýði .

   Nýjustu fréttir herma , að það sé búið að fynna eitthvað góðkynja í fokknum (ekki flokknum) og er það góðs viti . 

Hörður B Hjartarson, 28.4.2015 kl. 18:01

8 identicon

Ég hef líka oft hugsað um þetta. Alþjóð virðist raunar telja að Bjarni yngri beri ekkert skynbragð á lífskjör almennings. Hann hreyfir ekki litla fingur til að amast við því að hátekjumenn raski stöðugleikanum. Heldur engin merki um að hann sjái stóra samhengið yfirleitt.

Þorsteinn Vilhjálmsson (IP-tala skráð) 28.4.2015 kl. 22:50

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mér dettur ekki hug að halda því fram að Bjarni eldri Benediktsson hafi verið gallalaus fremur en aðrir stjórnmálamenn. 

Ólafi Thors blöskraði þær illskeyttu aðferðir sem Bjarni notaði við að nota Morgunblaðið til þess að koma vinstri stjórninni 1956-58 á kné. 

Í fyrstu skemmtidagskrá minni í árslok ´58 pota ég í Bjarna í einum bragnum fyrir það hvernig hann notaði einhver minnisblöð úr starfi nefndar um úrræði í húsnæðismálum til þess að blása upp fyrirbæri, sem fékk nafnið Gula bókin og átti að sanna að ríkisstjórnin ætlaði að ráðast gegn eignarétti fólks á húsnæði og fella allt hér í kommúniskt sovéskt far.

Þessu dembdi hann inn í umræðuna svo skömmu fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 1958, að málið varð að svo stórri kosningabombu, að engum vörnum varð við komið og Sjálfstæðismenn unnu einstæðan kosningasigur en Alþýðuflokkur galt slíkt afhroð, að það átti sennilega stóran þátt í því að stjórnarsamstarfið sprakk.

Skömmu eftir kosningarnar var Gula bókin öllum gleymd, og þess vegna setti ég í árslok þessar hendingar um Bjarna í grínbrag um stjórnmálaleiðtogana: "..sá hann fyrir utan Sorpeyðingarstöðina. /  Hann var að fara með gömlu góðu Gulu bókina."

Símhleranir þessa tíma voru Bjarna ekki til sóma og hann áttaði sig ekki á því í lok valdatíma Viðreisnarstjórnarinnar að stefna hennar í landhelgismálinu var úrelt og röng og myndi verða öðru fremur til að fella hana.

Eftir stendur að mínu mati að stærstu kostir Bjarna voru svo miklu stærri en gallarnir að hann var einn af allra merkustu stjórnmálamönnum okkar á síðustu öld.  

Ómar Ragnarsson, 28.4.2015 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband