"Megi sá betri vinna!"

Sumir dómararar segja ofanskráða setningu áður en bardagi hefst ásamt nokkrum öðrum vel völdum orðum.

Þetta var í hnotskurn það sem gerðist i bardaga Floyd Mayweathers og Manny Paquiaos í nótt.

Pacquiao gerði þau mistök að halda að hann hefði betur meðan á bardaganaum stóð.

Það kanna að þykja einkennilegt en hefur margoft komið fyrir í bardögum, þar sem margra mánaða yfirgengilega erfið þjálfun hefur innbyggt í menn þá hugsun að þeir geti ekki annað en verið betri en andstæðingurinn. Því það stekkur enginn lengra en hann hugsar var einhvern tíma sagt.

Þjálfara Muhammads Ali fannst Ali hafa unnið fyrsta bardaga hans við Joe Frazier þótt allir sæu, að Frazier hafði unnið og það nokkuð stórt.

Frazier fannst sjálfum að hann hefði unnið bardaga númer tvö þótt sigur Alis í honum blasti við öllum. Og í þriðja bardaganum trúði Frazier því að hann hefði haft yfir á stigum þegar þjálfari hans lét stöðva bardagann eftir 14. lotu vegna þess að Frazier væri ekki aðeins búinn að tapa honum á stigum heldur væri í hættu á að hljóta varanlegan skaða með því að taka áfram þá barsmíð sem Ali veitti honum.

Bardaginn í nótt var um margt óvenjulegur. Mayweather hefði átt að vera á heimavelli í sínu heimalandi gegn manni frá Kyrrahafsþjóð, en það var öfugt. Baulkór troðfullrar hallar gagnvart Flyod  og hvatningarhróp til Mannys sýndu andlegan þroska áhorfenda og var dæmi um þetta sérkennilega fyrirbæri,"meistari fólksins", sem Muhammad Ali tókst að fága á svo magnaðan hátt á sínum ferli.

Stærri, betri og handleggjalengri hnefaleikarinn vann. 13 sentimetra mismunur á faðmlengd skilaði sér og var nýtt til hins ítrasta, auk meistaralegrar varnar, hraða, sveigjanleika og hreyfanleika, - að ekki sé minnst á vörnina frægu þar sem eina ferðina enn var nóg að nota annan hanskann og "axlarvörnina" frægu ("rolling shoulder") sem grunn og vinstri stungur og hægri króka og yfirhandar "krossa" til þess að verjast leiftursnöggt, sækja enn hraðar og hörfa jafn hratt. 

Hinir bardagarnir tveir sem sýndir voru hér, stóðu fyrir sínu. Ný og þráð stjarna, Vasyl Lomachenco frá Úkraínu sýndi flottustu hnefaleika sem sést hafa í áratugi og hinn bardaginn bauð upp á svipað og Rocky I þar sem bráð rísandi hnefaleikara neitaði að leika fallbyssufóður sem lyti í striga eftir örfáar lotur, heldur barðist af einstakri hetjulund út bardagann.

Mayweather hefur nú náð tölunni 48-0, 48 sigrar í atvinnumannahnefaleikumm og ekkert tap, sömu tölu og Larry Holmes náði áður en hann barðist við Michael Spinks til þess að jafna met Rocky Marcianos, 49-0.

Holmes tapaði í 49. bardaganum, en Floyd Mayweather ætlar sér að vinna í síðasta bardaga sínum í haust og jafna met Rockys.  


mbl.is Mayweather sigraði Pacquiao
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

Yfirburðir Mayweather í þessum bardaga voru augljósir og Manny
brjóstumkennanlegur í síðustu þremur lotunum.

Þó var það Manny sem veitti það högg sem helst kvað að
í fyrstu lotunum.

Þetta var ævintýr sem endaði: 112-116, 112-116, 110 - 118.
Hygg að flestir hafi séð það þannig nema þá helst Manny!!

Húsari. (IP-tala skráð) 3.5.2015 kl. 14:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband