Hefði líka viljað sjá afnám rányrkju og forystu um sjálfbæra þróun.

Landsvirkjun var og er eitt mikilvægasta fyrirtæki landsins og stofnun hennar fyrir hálfri öld var mikið framfaraskref. Enda bjó þjóðin þá í landi með aðeins einn útflutningsatvinnuveg, án boðlegra vega og það skorti meira rafmagn. 

Með stóriðju í Straumsvík og stórvirkjun Þjórsár við Búrfell voru slegnar tvær flugur í einu höggi, skotið nýrri stoð undir gjaldeyrisöflun og virkjað á hagkvæmari og öflugri hátt en ella hefði verið gert.

Fleiri virkjanir fylgdu í kjölfarið og með Blönduvirkjun var farið út fyrir virkjanasvæði Þjórsár og Tungnaár til að vera ekki með öll virkjanaeggin í sömu körfu.

Allt var þetta gott og blessað. En nú eru liðin 50 ár og aðstæðurnar gerbreyttar.  

Stórvirkjunin 1970 var 200 megavött og álbræðslan í Straumsvík 33 þúsund tonna framleiðsla á ári en nú hafa þessar tölur margfaldast, rafmagnsframleiðslan tólffaldast upp í 2400 megavött og stóriðjan meira en tuttugufaldast. 

Við framleiðum fimm sinnum meira rafmagn en við þurfum til íslenskra fyrirtækja og heimila og samt er talað um að tvöfalda þetta, þannig að við framleiðum tíu sinnum meira rafmagn en við þurfum til eigin nota.

Orkufyrirtækin ógna tilvist einstæðrar íslenskrar náttúru, en þessi náttúra hefur búið til atvinnuveg sem gefur meira en tvöfalt meiri virðisauka inn í þjóðarbúið en stóriðjan og skapar margfalt fleiri störf en hún.

Það er gott mál að stofna sérstakan orkuauðlindasjóð til að búa til varsjóð fyrir framtíðina.

Meira væri þú um vert ef orkufyrirtækin breyttu um stefnu í nýtingu jarðvarmans og að hluta til vatnsaflsins, en nýting gufuaflsins til raforkuframleiðslu byggist að mestu leyti á hreinni rányrkju gagnvart komandi kynslóðum með því að láta það viðgangast að einu kröfurnar sem gerðar eru um endinguna eru 50 ár.

Á sama tíma er sungin síbylja um forystu í sjálfbærri þróun nýtingar hreinna og endurnýjanlegrar orku. 

Þótt fræðimenn greini á um hve mikið þurfi að minnka aðgangshörkuna gagnvart háhitasvæðunum hafa verið færðar vísindalegar líkur að því að hægt sé að gera gufuaflið sjálfbært. 

Ég hefði viljað sjá það gert opinbert á 50 ára afmæli Landsvirkjunar að það ætlaði hún að gera framvegis, og víkja af braut rányrkju, því að með því yrði komandi kynslóðum fært miklu meira af þeim verðmætum, sem framtíð landsins og jafnrétti kynslóðanna krefst, heldur en með varasjóðnum sem stofna á. 


mbl.is Bjarni vill stofna varasjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband