"Hraðinn drepur" helst.

Í heila öld hafa reiðhjól verið við lýði hér á landi án þess að nein sérstök tíðni alvarlegra slysa hafi fylgt notkun þeirra. 

Ég minnist til dæmis ekki banaslyss á reiðhjóli, ekki heldur þau ár sem notkun þeirra var ekki takmörkuð að neinu leyti. 

Hins vegar hafa orðið banaslys á hestum og fjöldi alvarlegra slysa á þeim. 

Ástæðan er vafalítið sú að hraðinn er lítill á reiðhjólunum. Ei

Sem betur fór varð það ekki úr að settar yrðu reglur um skráningarskyldu og tryggingarskyldu á léttum vélknúnum hjólum, sem komast ekki hraðar en 25 km/klst heldur látið gilda svipað um þau og venjuleg reiðhjól.

Ein rökin fyrir því að troða þessum hjólum inn í dýrt og flókið kerfi, flestum til ama, voru þau að þessi hægfara létthjól (ranglega kölluð vespur, en Vespa er heitið á einni gerð þeirra) væru svo miklu þyngri en venjuleg reiðhjól, jafnvel margfalt þyngri.

 

Þarna gleyma menn því að þyngd mannsins á hjólinu er yfirgnæfandi hluti af heildarþyngd þess þegar það er í umferðinni.

Ef ég ætti venjulegt reiðhjól væri það nálægt 20 kílóum að þyngd, en mitt hjól er með rafdrifi til hjálpar eða notkunar eingöngu ef með þarf, og þetta hjól er 28 kíló og rafknúnu létthjólin, sem eingöngu eru vélknúin, eru um 60 kíló.

En ekkert af þessum hjólum eru mannlaus á ferðinni.

Kappklæddur og með bakpokann er ég líklega nálægt 100 kílóum.

Ef ég er á venjulegu reiðhjóli er heildarþyngdin um 115-120 kíló.

Á mínu rafhjóli er þyngdin um 130 kíló.

Og á "rafvespu" sem hefur 25 km hámarkshraða er þyngdin 160 kíló.

Í gamla daga hjólaði maður á örmjóum og krókóttum malarþjóðvegum allt frá 11 ára aldri án þess að fara sér nokkurn tíma að voða. Ekki heldur hinir krakkarnir.

Nú er umferðin að vísu þyngri víða, en hjólastígakerfið og aðrir stígar eru til afnota.

Mér finnst að vísu skrýtið að mæta fjölskyldum sem eru að hjóla saman og aðeins krakkarnir eru með hjálma.

En sé það svo að erlendis og hér á landi sé ekki hægt að sjá að slysatíðni hjá hjálmalausu fólki sé hærri en svo að óþarfi sé að nota þá fyrir fullorðna, þá ætti að vera í lagi að láta hvern og einn um að dæma um notkun sína.

Sjálfur er ég alltaf með hjálm þegar ég er á hjólinu mínu, en ekki aðeins vegna þess að ég meti hjálminn sem öryggistæki, heldur er líka önnur ástæða, sú, að ég er eftir veikindi í æsku, viðkvæmur fyrir kulda á öðru eyranu og hjálmur ver það vel og heldur á því hita.

Ef Hjálmar Sveinsson metur það svo að það sé nægilegt að heita Hjálmar og að hann þurfi því ekki að vera með hjálm heldur geti veitt sér það að vera sá eini hjálmlausi í hópi þar sem eru tómir hjálmar, þá held ég að það eigi að vera hans mál.

Núna margur mjálmar

og menn eru svekktir og jafnvel argir,  

en ef maðurinn heitir Hjálmar 

eru hjálmar kannski nógu margir?

 


mbl.is Hjálmar hjálmlaus á hjólinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hjóla á Íslandi, í Sviss og einnig í Grikklandi. Nota ekki hjálm, en ég ætti hinsvegar að gera það.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 6.5.2015 kl. 14:43

2 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Er ekki þetta átak í nafni íþróttahreifingarinnar? Hér í Danmörku er skylda að vera með hjálp þegar hjólað er í nafni íþrótta. Á því er engin afsláttur.

Birgir Þór Bragason, 6.5.2015 kl. 14:50

3 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Því má svo bæta við að hraðinn á hjólum í dag er miklu meiri en þegar þú varst ungur :)

Það er leikur einn að halda 30km/kls á léttu hjóli með réttum skóbúnaði. 

Birgir Þór Bragason, 6.5.2015 kl. 14:53

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég kannast ekki við að hraðinn hjá mér hafi verið neitt minni hér í den en hann er almennt nú. 

Þegar ég var 14 ára hjólaði ég á mjóa og krókótta malarveginum 160 kílómetrana sem þá voru frá Reykjavík upp í Norðurárdal í Borgarfirði á sjö og hálfri klukkustund eða með rúmlega 20 kílómetra meðalhraða. 

Sömuleiðis frá Kotströnd í Ölfusi upp gömlu Kambana til Reykjavíkur á inan við tveimur tímum. 

Þá var leikur einn að ná yfir 30 km meðalhraða innanbæjar enda var þetta gírahjól með dempurum að fram, hið eina á landinu með slíkum búnaði og þar að auki með hraðamæli.

Eitt sinn komst ég yfir 70 km hraða niður Ártúnsbrekkuna í meðvindi.  

En raf"vespurnar" nú á dögum komast ekki yfir 25 km/klst. 

Ómar Ragnarsson, 6.5.2015 kl. 16:51

5 Smámynd: Birgir Þór Bragason

smile Þú ert ágætur. En værir þú 14 í dag og hjólaðir upp í Norðurárdal þá væri meðalhraði þinn nú snöktum meiri. Ætli hann væri nú ekki 50% meiri. Held það. Það könnumst við hin við Ómar. 

Birgir Þór Bragason, 6.5.2015 kl. 18:47

6 identicon

Fyrsta banaslysið í umferðinni 25. ágúst 1915. 9 ára drengur lenti þá fyrir reiðhjóli. Hann féll á götuna, fékk mikið höfuðhögg og lést síðar.
Látnir í Hjólhestaslysum 1915 – 2014 eru 57 manns.

Þetta segir mér að hjólreiðar eru mikklu hættulegri en flugvöllur í Reykjavík!

Bönnum hjólreiðar Hjálmlausa Holu Hjálmars en ekki Reykjavíkurflugvöll!

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 6.5.2015 kl. 22:05

7 identicon

Auðvitað er það taktlaust af Holu Hjálmari að vera Hjálmlaus. En að mæta í embættiserindum á kolólöglegu ökutæki (Reiðhjól eru lögum samkvæmt skilgreind sem ökutæki), við að kynna lífsstíl Hjólhestanna er skandall og opinbert lögbrot. Sem eingöngu Sorgar Dagur Hjólhestanna og Holu Hjálmar myndu gera.

Skyldubúnaður reiðhjóla, Samkvæmt Samgöngustofu. 

    • Bremsur í lagi á fram- og afturhjóli

    • Bjalla - ekki má nota annan hljóðmerkjabúnað

    • Ljós að framan - hvítt eða gult (ef hjólað er í myrkri eða skertu skyggni)

    • Rautt ljós að aftan (ef hjólað er í myrkri eða skertu skyggni)

    • Þrístrennd glitaugu - rauð að aftan og hvít að framan

    • Keðjuhlíf - til varnar því að fatnaður festist í keðjunni

    • Teinaglit í teinum

    • Glitaugu á fótstigum

    • Lás

    Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 6.5.2015 kl. 22:16

    8 identicon

    Sífellt fleiri farartálmar,

    fuglahúsin sýna dug,

    hjólbeinóttur er Holu-Hjálmar,

    honum dettur ekkert af viti í hug!sealed

    Þjóðólfur í Frekjuskarði (IP-tala skráð) 7.5.2015 kl. 09:25

    9 identicon

    http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/05/07/kvarta_undan_hrada_reidhjolamanna/

    "Á síðasta ári bár­ust Lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu hátt í eitt hundrað til­kynn­ing­ar um reiðhjóla­slys í um­dæm­inu. Í næst­um helm­ingi til­vika áttu slys­in sér stað þegar bif­reið var ekið á reiðhjóla­mann, en af öðrum til­vik­um má nefna slys sem urðu þegar reiðhjól rák­ust sam­an, eða þegar reiðhjóla­maður ók á gang­andi veg­far­anda. Um þriðjung­ur allra reiðhjóla­slysa var sam­kvæmt skrán­ingu flokkað sem fall af reiðhjóli."

    ls (IP-tala skráð) 7.5.2015 kl. 13:02

    10 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

    Já þarna kemur það fram að helmingur þeirra reiðhjólaslysa sem tilkynnt hafa verið til lögreglu eru þess eðlis að bílum er ekið á hjólreiðamennn. Þar að auki eru meiðsl í þeim slysum væntanlega að meðaltali verri en þegar hjólreiðamenn detta aða hjóla hver á annan og er hlutfall þess konar slysa í tilfellum alvarlegustu meiðslanna mun hærra en 50%. Það eru nefnilega fyrst og fremst bílarnir sem skapa slysahættu en mun síður hjólreiðar.

    Sigurður M Grétarsson, 7.5.2015 kl. 17:27

    11 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

    Birgir Þór Bragason. Vissulega er hraði hjólreiðamanna í mörgum tilfellum mun meiri en áður fyrr en á móti kemur betri hjól, betri vegir og öruggara umhverfi vega og stíga. Staðreyndin er sú að slysatíðni er mjög lág í hjólreiðum og því getur það ekki á nokkurn hátt talist til áhættuhegðunar að hjóla hjálmlaus. Hjólreiðar eru ekki hættulegri en akstur á einkabíl á ekin kílómeter í innabæjarakstri og slysatíðni hjólreiða er mun lægri en í flestu því sporti sem almenningur notar til líkamsræktar. Það er í raun bara golf og skemmtiganga sem er með lægri slysatíðni en hjólreiðar. Þetta má meðal annars sjá í breskri rannsokn sem sagt er frá í þessari grein.

    http://www.lhm.is/lhm/pistlar/56-thversagnir-i-oryggismalum-hjolafolks

    Það er þess vegna sem skaðsemi bæði hjálmaskyldu og því einelti sem þeir verða fyrir sem hjóla hjálmlsusir er mikil. Þeta leiðir til þess að fólk heldur að hjólreiðar séu mun hættulegri en þær eru í raun og veru og fælir fólk því frá því að hjóla og þá oft yfir í annað spurt eða ferðamáta sem er hættulegri en hjólreiðar og það líka hjólreiðar án hjálms.

    Sigurður M Grétarsson, 7.5.2015 kl. 17:35

    Bæta við athugasemd

    Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband