Rafvæðing allt frá reiðhjólum upp í stærstu bíla.

Helsti þröskuldur fyrir rafvæðingu bílaflotans er lágt verð notaðra bíla og hátt verð rafbíla. Rafhjólið Blakkur.

Það ætti þó ekki að koma í veg fyrir kaup á ódýrustu rafknúnu samgöngutækjunum, sem eru reiðhjól sem ganga bæði fyrir fótafli og rafafli, ýmist öðru hvoru aflinu í senn, eða báðum saman. 

Sem þýðir að slíkt hjól verður aldrei orkulaust. 

Slík reiðhjól, spánný, bjóðast nú á innan við 200 þúsund krónur, allt niður undir 150 þúsund kall.Rafhjól, strætó

Eftir að hafa kynnst slíkum grip undanfarna mánuði finnst mér sjálfsagt mál að kynna reynsluna af því ef það getur komið einhverjum að gagni.  

Það var með semingi að ég ákvað að slá til og taka eitt slíkt hjól upp í illseljanlegan gamla bíl, sem ég ætlaði upphaflega að hafa sem flugvallarbíl á Sauðárflugvelli en annar kostur reyndist skárri svo að ég setti þenna bíl á sölu á Akureyri. 

Nú eru að verða þrír mánuðir síðan ég byrjaði að nota þetta rafreiðhjól og reynslan er miklu betri en mig óraði fyrir.

Þótt ég eigi heima austast í Grafavogshverfi koma nú dagar þar sem ég fer allra ferða minna á hjólinu, allt niður að Tjörn, suður í Garðabæ og upp á flugvöllinn á Tungubökkum í Mosfellsbæ. Rafhjól og Subaru

Meðal bæjarferð, til dæmis héðan upp í Útvarpshús, tekur 20 mínútur eða aðeins 10 mínútum lengri tíma en á bíl. Á hjóli nýtur maður góðs af því að spara einn kílómetra með því að hjóla þvert yfir Geirsnefið í Elliðavogi.  

Enda þótt rafhlaðan í þessu hjóli hefði skemmst vegna þess að hjólið og rafhlaðan stóðu óhreyfð í minnsta kosti heilt ár áður en ég fékk það, tókst mér smám saman að auka í henni þolið þótt það verði ekki nærri eins mikið og í nýrri rafhlöðu.

Þessi endurhæfing hefur nú borið þann árangur að í ljós kom við tilraun, sem ég gerði fyrir viku, að hægt var að hjóla alls 33 kílómetra á einni hleðslu án þess að nota fótaflið neitt.Rafhjól, skrifborð

Meðalhraðinn þessa 33 kílómetra var 17 kílómetrar á klukkstund, enda varð ég að fara sparlega með aflið í hinni slöppu rafhlöðu.  

Mér segja þeir, sem nota bæði rafafl og fótafl, að hægt sé að komast allt að 60 kílómetra á hleðslunni og ná meira en 30 kílómetra meðalhraða. En vindur, brekkur eða mikill kuldi stytta þessa vegalengd. 

Ég hef nú útbúið hjólið eins og telja má nauðsynlegt með því að setja á það þrjá mjúka farangurskassa, einn framan á stýrið og tvo á bögglaberann, samtals með rými upp á 60 lítra.Rafhjól. Hleðsla

Fótstigið er 6 gíra, en rafaflið þarf ekki nema einn gír. Hjólið er aðeins 7 kílóum þyngra en venjulegt reiðhjól og miklu léttara en rafskutlurnar, sem eru 60 kíló og bundnar við 25 kílómetra hámarkshraða. 

Niður brekkur og undan vindi hjólar maður eins og hver annar maður á fótknúnu reiðhjóli og flýtir þannig fyrir sér. 

Á hjólinu eru þrjár drifstillingar:

1. Hjólað með fótunum einum, 6 gírar til umráða.

2. Kveikt á rofa vinstra megin á stýrinu. Þá er hægt að hjóla þannig, að þegar fæturnir eru notaðir, setur það rafaflið líka í gang.

3. Kveikt líka á öðrum rofa hægra megin á stýrinu. Þá er hægt að bæta við möguleika á að nota líka handstýrða aflgjöf, líkt og á vélhjóli.

Smám saman kemst maður upp á lag meða að fá sem mest út úr hjólinu. Ég er með léleg hné og samfall í neðstu hryggjarliðum og verð því að takmarka álagið á þessa liði. 

Bestu vinir hjólsins míns, sem heitir Blakkur, eru þrír: 

1.

Strætó. Hægt að kippa hjólinu inn í hann ef rými er. Barnavagnar og hjólastólar hafa þó forgang.

2.

33ja ára gamall Subaru fornbíll, sem ég á og get sett hjólið í ef farið er langar leiðir og tíminn takmarkaður. Fór um daginn austur fyrir fjall með hjólið í Subarunum og notaði hjólið á stuttum leiðum við Hvolsvöll og Selfoss.

3. Skrifstofan mín og raunar öll raflýst hús landsins þar sem hægt er að setja hjólið í hleðslu. Fyrir neðan myndina af hjólinu við skrifborðið er mynd af hinni einföldu tengingu hleðslutækisins í hvaða innstungu sem er. 

 

Rafvæðingin nær neðar í skalann í farartækjum en nýting bensínknúinna hreyfla og rafknúið reiðhjól er í svipuðum verðflokki og venjuleg reiðhjól, án hjálparafls. 

Ég minnist þess að vísu að hafa fengið að taka í reiðhjól með örlitlum tvígengishreyfli sumarið 1955, fyrir 60 árum, sem knúði framhjólið á því hjóli.

En hjól af þessu tagi fengu ekki framgang.  


mbl.is Rafbílarnir komast vart á blað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband