Þjóðin á að fá að axla ábyrgð eins og kjörnir fulltrúar hennar.

Fjórar megin hugmyndir um aukið beint lýðræði en nú eru í stjórnarskrá Íslands voru á dagskrá hjá stjórnlagaráði.

Þær miðuðu að meginstefi stjórnarskrárinnar að dreifa valdinu skynsamlega á milli valdþáttann og marka skýrari stefnu um réttindi og ábyrgð og valdmörk.

Eitt atriði þessa var að færa kjósendum sjálfum meiri beina ábyrgð á ákvörðunum en þeir hafa nú.  Atriðin fjögur voru þessi: 

1. Ákveðinn lágmarkshluti kjósenda geti kallað fram þjóðaratkvæðagreiðslu. 

2. Þriðjungur þingmanna gæti kallað fram þjóðaratkvæðagreiðslu. 

3. Ákveðinn hluti kjósenda gæti lagt fram frumvarp á Alþingi. 

4. Forseti Íslands hefði málskotsrétt. 

Ráðið var skipað fólki úr afar breiðum jarðvegi þjóðlífsins, allt frá 24 ára til 70 ára, allt frá bónda fyrir norðan til stærðfræðings af pólskum uppruna, frá mönnum með ýmsar hugmyndir anarkisma og yfir í vinstri menn og hægri menn. 

Kynjahlutfall var 60/40. 

13 fulltrúar höfðu starfað opinberlega fyrir stjórnmálaflokka og skiptust nokkurn veginn eftir atkvæðahlutföllum flokkanna þá. 

Í ljós kom að ekki var meirihluti í ráðinu fyrir því að fara alla leið í málinu eins og drjúgur hluti vildi þó og að því yrði niðurstaðan málamiðlun.

Ég var einn þeirra sem ekki vildi fara neðar en 15% í atriði númer 1 en meirihlutinn náði 10% fram.

Mismunandi hrifning var á atriði 2. Sumir bentu á góða reynslu af slíku í öðrum löndum, svo sem í Danmörku, en aðrir óttuðust að íslenskir þingmenn myndu ekki sýna slíkan þroska.

Í ljós kom að meirihluti var með því að hafa prósentuna 10% en á móti féllust heitir fylgismenn þeirrar tölu á að fella niður heimild þriðjungs þingmanna.

Einn galli á þjóðaratkvæðagreiðslum er sá, að sé farin svipuð leið um framkvæmdina og í öðrum löndum, geta komið upp aðstæður í algerum undantekningartilfellum þar sem nauðsynlegur úrskurður þjóðarinnar fellur á tíma,  og gott getur verið að forseti Íslands, sem er eini þjóðkjörni embættismaður landsins ráði yfir nokkurs konar neyðarhemli, hefði vald til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslu.

Önnur röksemd fyrir þessu var sú, að meirihluti ráðsins vildi hafa greinina um þjóðaratkvæði með svipuðum undantekningum og eru víðast erlendis, að fjárlög og fjármálaskuldbindingar yrðu undanskilin. 

Í slíkum tilfellum gæti forsetinn þó notað málskotsrétt. 

 

Þetta var niðurstaðan hjá stjórlagaráði, atriði 1,3 og 4 fengu framgang.

Ég féllst á 10% regluna á þeim forsendum að erlendis, eins og til dæmis í Sviss, eru svo harðar reglur um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, að það getur tekið ár að koma þeim í framkvæmd og að hægt yrði að nota harðar reglur hér sem nauðsynlegan hemil.

Einnig yrði það auðveld og lítil breyting að hækka með lagabreytingu töluna 10% í 15% eða 20% ef reynslan af 10% yrði slæm.

Á tímum byltingar í menntun fólks, fjarskiptum, samskiptum og miðlun upplýsinga auk tilkomu netsins er komin upp alveg ný staða varðandi beint lýðræði og netlýðræði, sem getur bætt og aukið lýðræðið og ábyrgð allra, sem að því standa.

 

Í mínum huga er fráleitt annað en að nýta sér þetta í stað þess að daga uppi eins og nátttröll í þessu efni.   


mbl.is Þátttaka skipti máli í þjóðaratkvæðagreiðslum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta stjórnlagaráð virkar eins og Rögnunefndin.  Blaður á kostnað almennings sem er hunsaður eftir sem áður.  

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 3.7.2015 kl. 09:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband