Tregðan byggist á skammtímahagsmunum.

Kaldur samruni er aðeins einn af mörgum möguleikum til þess að kalla fram aðferð til orkuframleiðslu sem gerir notkun jarðefnaeldsneytis óþarfa.

En mikil tregða er í gangi við að flýta fyrir óhjákvæmlegum orkuskiptum og hún stafar af því, að þau lönd, sem nú hagnast mest á olíuframleiðslu og hafa þar af leiðandi mest völd í heiminum, óttast að verði sérstaða þeirra til að standa undir velsæld heima fyrir rofin, muni það valda þeim tjóni. 

Valdhafar Sádi-Arabíu eyða mjög miklu fé í að vera ekki eftirbátar neins hvað varðar vitneskju um nýjar aðferðir til orkuframleiðslu. 

Þeir reyna að áætla hvenær orkuskiptin verði og ætla sér að komast sem best út úr þeim þegar þau verða.

Jafnframt gæta þeir þess vandlega að sýna ekki spilin sín, heldur halda þeim fast að sér og nýta aðstöðu sína til þess að hafa sjálfir sem mest áhrif á olíuverðið. 

Þeir vita að öllu skiptir að orkuskiptin verði á sem hentugustum tíma fyrir þá sjálfa, og vilja til dæmis ekki sitja uppi með ónýttar olíulindir ef skiptin ganga hraðar en búist er við.  

Ef svipuð framför í að nýta sólarorku verður og verið hefur, vita Sádar, að rétt eins og að stærstu olíulindirnar eru hjá þeim af því að þar skapaði sólarorkan fyrir milljónum ára mesta gróðurinn sem varð síðar að olíu í iðrum jarðar, þannig muni þeir og aðrar þjóðir, þar sem sól skín heitast, komast best út úr orkuskiptunum. 

Árið 1965 var það ein helsta röksemdin fyrir stóriðju á Íslandi að við yrðum að flýta okkur við að virkja fallvötnin, því að annars myndi kjarnorkan gera slíkar virkjanir úreltar. 

Í ljós kom að kjarnorkan er ekki lausnin vegna þess að úranið er takmörkuð auðlind og úrgangsvandamálin mikil og orkann þess vegna ekki að fullu hrein. 

 


mbl.is Kaldur samruni gæti breytt Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Árið 1965 var það ein helsta röksemdin fyrir stóriðju á Íslandi að við yrðum að flýta okkur við að virkja fallvötnin, því að annars myndi kjarnorkan gera slíkar virkjanir úreltar."

Getur þú vísað í heimildir fyrir þessari fullyrðingu, Ómar. 

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.7.2015 kl. 13:48

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sumt man maður einfaldlega, Gunnar. Ég minnist þess lika að talið var fullvíst að mikill úrvinnsluiðnaður áls myndi rísa í tengslum við verksmiðjuna. Einnig að það væri hagkvæmara fyrir bæði okkur og Svisslendinga að virkja stórt heldur en við værum einir að bögglast við margar smávirkjanir. Einnig að meira en 95% gjaldeyristeknanna væri vegna sölu sjávarafurða og að þörf væri á að "skjóta fleiri stoðum undir gjaldeyrisöflun þjóðarinnar."

Flest af þessu var satt og rétt en annað ekki eins og gengur, svo sem þetta með kjarnorkuna og úrvinnsluverksmiðjurnar. 

Þá var ég fylgjandi álveri í Straumsvík og Búrfellsvirkjun og hafði ofangreindar röksemdir í huga. Og þrátt fyrir að kjarnorkan og úrvinnsluverksmiðjurnar reyndust ekki haldbær rök, hef ég ekki skipt um skoðun varðandi þessar framkvæmdir í ljósi þeirra þjóðfélagsaðstæðna sem ríktu þá.

Ég hef ekki tíma til þess og er ekki nógu flinkur til að leita uppi heimildir um þetta.

Ef þú trúir þessu ekki hefurðu fullan rétt til þess. Ég ég stend líka við mitt.   

Ómar Ragnarsson, 17.7.2015 kl. 14:06

3 identicon

Vísindamenn á vesturlöndum hafa engar sérstakar áhyggjur af því, hvernig Saudí Arabíu reiðir af þegar olíu þrýtur. Þess utan er Saudí Arabía ekkert númer þegar kemur að rannsóknum og nýsköpun. Saudí Arabar hafa eitt einhverju fé í uppbyggingu á sólarorkustöðvum, en þær sem slíkar hafa enga eða litla þýðingu um það, hvernig við á vesturlöndum rannsökum nýjar orkulindir eða orkuframleiðslumöguleika.

Nei, vísindamenn á vesturlöndum óttast að verða tengdir við ævintýramenn sem eru útsmognir við að verða sér út um styrki byggða á mjög svo vafasömum fullyrðingum um "byltingu". Vísindamaður sem hefur lagt nafn sitt við slíkt, hefur lagt framtíð sína að veði. Þá er þarna úti fjöldinn allur af fyrirtækjum sem hafa selt hlutabréf með því að skálda upp "kraftaverk" í vinnslu og geymslu á rafmagni. Þetta hefur leitt til þess að menn hafa gjarnan í huga máltækið "A fool and his money are soon parted" þegar einhverjir kynna nýjustu "byltingarútgáfuna".

Sá eða þeir vísindamenn sem hugsanlega koma til með að finna upp nýjar byltingarkenndar aðferðir við vinnslu eða geymslu rafmagns þurfa ekki að kvíða fjárskorti fyrir sig og afkomendur sína. Þeir hinir sömu koma alveg örugglega ekki til með að hafa neinar sérstakar áhyggjur af afkomu Saudí Arabíu.

Þó svo að menn hafi lært að nýta sér "hot fusion" þýðir ekki, að það sé hægt að skapa og nýta "cold fusion" Að hafna því eiga víst að vera tilraunir "olíugróðaafla" til að vernda sína hagsmuni. Það land, sem yrði fyrst til að skapa maskínur sem gætu framleitt rafmagn með "cold fusion" gæti sem best stöðvað olíuframleiðslu samstundis, því gróðinn af slíkum maskínum yrði gífurlegur.

Fleischmann og Ponz sýndu ekki fram á, að hægt sé að framkvæma "cold fusion", þrátt fyrir fullyrðingar um slíkt. Enginn hefur getað staðfest að slíkt sé hægt. Samt eru liðin 25 ár frá fullyrðingum þeirra félaga. Vangeta þeirra við að staðfesta fullyrðingar sínar, eru ekki á ábyrgð þeirra sem framleiða olíu. Vangetan er vegna þess að þeir lugu því að þeir gætu framkvæmt "cold fusion"
Það er nú ekki flóknara en svo.

Hilmar (IP-tala skráð) 17.7.2015 kl. 15:36

4 identicon

Sæll Ómar.

Maður nokkur var að rengja þig um að ekki hefði verið talað um það að virkja sem fyrst til að verða ekki búnir að virkja sem mest áður en kjarnorkan tæki yfir. Ég fletti bara upp á síðu um Búrfellsvirkjun og þar kom þetta:

"Jafnframt voru möguleikar kjarnorku sem ódýrs orkugjafa umtalaðir um þessar mundir og drógu margir þá ályktun að best væri að virkja á meðan enn væri eftirspurn eftir vatnsaflsvirkjunum".

Gunnsteinn Gunnarsson (IP-tala skráð) 17.7.2015 kl. 16:16

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hilmar, hefur þú prófað að endurgera tilraun Fleischman og Ponz sjálfur til að ganga úr skugga um að hún virki ekki? Hvernig veist þú annars hvort það voru þeir sem lugu, eða hvort hinir sem þóttust hafa afsannað niðurstöður þeirra voru hinir raunverulegu lygarar?

Ef mér mistekst að taka 100 kg í bekkpressu þá hef ég ekki þar með sannað að enginn geti það, heldur aðeins að ég geti það ekki sjálfur, og þó varla það því ég gæti allt eins hafa verið að plata og þóst missa lóðin.

Eftir moldviðrið í kringum þá tvímenninga árið 1989 og upp úr því, þorðu fáir að koma nálægt rannsóknum á köldum samruna í mörg ár af ótta við að verða stimplaðir sem utangarðsmenn. Í seinni tíð hafa hinsvegar nokkrir aðilar verið að endurvekja þessar rannsóknir, fyrst voru það bílskúrsáhugamenn, svo verkfræðingar, og loks raunverulegir eðlisfræðingar. Þá má nefna að bandarísk hermálayfirvöld hafa aldrei hætt rannsóknum sínum á lág-orku kjarnahvörfum eins og fyrirbærið er kallað nú til dags, en þær rannsóknir hafa heldur ekki verið auglýstar neitt sérstaklega. Sennilega vegna þess að sá sem yrði fyrstur til að beisla slík hvörf myndi öðlast mikla hernaðarlega yfirburði svo lengi honum tækist að halda tækninni leyndri fyrir andstæðingum sínum.

Nýlegar niðurstöður hafa stundum lofað góðu, en eitt af því sem frekari rannsóknir hafa sýnt er að þau áhrif sem stundum koma fram í þeim tilraunum og ekki má skýra með venjulegum efnahvörfum heldur er talið að rekja megi til samruna, virðast vera mjög háð afar nákvæmum og fíngerðum eiginleikum þeirra efna sem notuð eru. Til að mynda er í einu ferlinu þar sem notaðar eru ákveðnar málmtegundir, ekki bara nóg að setja klump af þeim málmi inn í tæki og ætlast til að eitthvað gerist af sjálfu sér, heldur þarf það að vera afar fíngert duft úr þeim málmi af nákvæmlega réttri kornastærð. Ef kornin eru ójöfn að stærð eða aðeins of stór eða lítil, þá virkar tilraunin ekki. Þessi skekkjumörk eru svo lítil að það er beinlínis mjög erfitt að framkvæma tilraunirnar af nægilega mikilli nákvæmni til að vera innann þeirra.

Það er einmitt eitthvað slíkt sem er núna talið hafa gerst í tilraunum þeirra sem gátu ekki endurtekið tilraun Fleischman og Ponz á sínum tíma og þóttust þar með hafa afsannað kenningar þeirra, að þeim hafi í raun og veru bara mistekist að endurtaka tilraunina og þar með ekki afsannað neitt.

Árið 2009 gerðist það svo að Nýsjálendingurinn Michael McKubre endurgerði tilraun Ponz og Fleischman, með þeim árangri að í ferlinu myndaðist meiri hiti en hægt væri að útskýra með neinum þekktum efnahvörfum, og þar með eru einhverskonar kjarnahvörf líklegasta skýringin sem eftir stendur. Það sannar auðvitað ekki að um kjarnasamruna hafi verið að ræða, en það sannar hinsvegar að í fyrsta lagi voru Fleischman og Ponz alls ekki að ljúga þegar þeir sögðust hafa framkvæmt tilraun sem hefði myndað meiri hita en útskýra mætti með hefðbundinni efnafræði, og að sú ályktun að um kjarnahvörf hlyti að vera að ræða var alls ekki neitt langsótt heldur mjög eðileg. Engum þessara aðila hefur hinsvegar tekist að útskýra nákvæmlega hvernig ferlið virkar, þeir vita bara að það á sér stað undir ákveðnum kringumstæðum. Svona svipað og hellisbúi sem hefur aldrei séð kveikjara hefur ekki hugmynd um hvernig hann virkar, en ef sýnir honum hvernig þú notar kveikjarann til að kveikja eld þá skilur hann um leið að þetta er tæki sem býr raunverulega til eld.

Rannsóknir á lág-orku kjarnahvörfum um þessar mundir snúast um að reyna að skilja ferlið, og það er ekki fyrr en sá áfangi næst sem hægt verður að endurskapa það af nægilegu öryggi með þeim áreiðanleika sem gæti réttlætt fjöldaframleiðslu á slíkum búnaði.

Guðmundur Ásgeirsson, 17.7.2015 kl. 18:04

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þakka þér, Gunnsteinn. Nú er spurningin hvort þú getir fundið heimildir um að lofað hafi verið fyrir rúmum aldarfjórðungi að orkan frá Blönduvirkjun skyldi nýtast fyrir norðan. 

Fjölmiðlamaður spurði mig um þetta fyrir nokkrum dögum, og ég taldi mig muna vel eftir því að þessu hefði hvergi verið lofað, svo að það mætti sjá á pappír. 

Nú er spurningin hvort Gunnar spyrji, hvaða heimildir ég hafi fyrir því að engar skjalfestar heimildir séu fyrir því sem forsætisráðherra fullyrti um. 

Ómar Ragnarsson, 17.7.2015 kl. 19:23

7 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Guðmundur Ásgeirsson, Þakka þér kennsluna.

Guðmundur Ásgeirsson, 17.7.2015 kl. 18:04

Hefur þú tíma til að skýra fyrir okkur, „Orkuturninn“ hans Tesla?

Egilsstaðir, 18.07.2015  Jónas Gunnlaugsson

 

Jónas Gunnlaugsson, 18.7.2015 kl. 07:48

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Gunnsteinn Gunnarsson, þú vísar ekki í neina heimild fyrir fullyrðingu Ómars. Merkilegt að Ómar skuli þakka þér fyrir það.

Það er nú ekki hægt að lesa úr athugasemd minni að ég rengi Ómar, heldur vildi ég sjá hver hélt þessari fáránlegu fullyrðingu fram.

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.7.2015 kl. 12:18

9 identicon

Jakob hét maður og var Björnsson. Um hann má lesa hér:

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=183280&pageId=2376846&lang=is&q=Jakob%20Bj%F6rnsson

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 25.7.2015 kl. 16:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband