Barnalán og umboðsmaður ófæddra.

Lánið stóra, sem tekið var 1981 og 83 vakti umræður um siðferðilega réttlætningu slíkra lána með aðeins einn gjalddaga langt fram í tímann.

Nafnið barnalán vísaði til þess að þálifandi fólk, sem var komið um og yfir fertugt og stóð að því að lánið var tekið, myndi alveg sleppa við að borga það en vísaði þeirri ábyrgð af sér á hendur þeirra, sem þá yrðu uppi, en stór hluti þeirra var ófæddur.

Á morgun er barnalánið úr sögunni og það varð þrátt fyrir allt afturkræft úr því að það er nú úr sögunni.

Á sínum tíma var lánið réttlætt með því að okkur vantaði fé til að hraða hitaveituvæðingu landsins, sem bæði myndi spara okkur mikið fé í erlendum gjaldeyri og minnka mengun þegar heitt vatn kæmi í staðinn fyrir jarðefnaeldsneyti.

Þessi rök voru með dálítið holan hljóm, enda má rökstyðja hvaða kúlulán sem er með því að taka út úr einhvern valinn kostnað, sem borga ætti með því.

Sé siðferðilegur grundvöllur kúlulána langt fram í tímann vafasamur, er hann þó enn veikari þegar um rányrkju og óafturkræfa eyðileggingu verðmæta er að ræða vegna stundarhagsmuna, sem stundum reynast verða engir eða svo litlir, að jafnvel með því að horfa skammt fram í tímann reyndist rányrkjuhugsunin óréttlætanleg.

Enn kemur upp í hugann að í slíkum tilfellum bitnar þessi skammtímahugsun á öllum komandi kynslóðum milljóna Íslendinga og að þessar kynslóðir eiga sér engan talsmann eða umboðsmann.

Er fjöldi skjólstæðinga slíks umboðsmanns komandi kynslóða þó margfalt meiri en þeirra 330 þúsund sálna, sem nú byggja Ísland.

Sama gildir raunar um mannkyn allt í meira en tvö þúsund sinnum stærri skala.

Vísa til myndbanda á facebook síðu minni í dag, annars vegar "Only One Earth", sem er komið inn á síðuna, og "Aðeins ein jörð" sem ég stefni að að setja inn eftir klukkan sex í dag.

Af tæknilegum ástæðum eru myndgæðin léleg á facebook, en miklu betri á YouTube.


mbl.is Barnalánið loks greitt eftir 35 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og hvað? Á ekki að nefna neinar fjárhæðir? Átti þetta lán ekki að gera þjóðarbúið gjörsamlega gjaldþrota. Eða skipti svona miklu máli að lánið var óverðtryggt þannig að það varð bara kökubiti í lokin. Eftir að hafa verið nýtt til mikilla arðbærra framkvæmda svo sem byggingu Hrauneyjafossvirkjunar og hitaveituframkvæmda.

Mikið hafa margir spekingar básúnast mikið yfir þessu láni í gegnum tíðina. Það er því mjög áhugavert að vita hver endanleg fjárhæð þessa láns var?

Þorsteinn Jónsson (IP-tala skráð) 30.1.2016 kl. 16:13

2 Smámynd: Lífsréttur

Vel á minnzt, Ómar: Það vantar hér umboðsmann ófæddra barna, umfram allt þeirra, sem löggjöf og vélráð óvina þeirra ógna með blóðugum aftökum flesta daga ársins. Landsmenn ættu að vera sérstaklega á varðbergi gagnvart blöskranlegu, stórhættulegu skeytingar- og fyrirhyggjuleysi sjálfs heilbrigðisráðherrans, Kristjáns Þórs Júlíussonar, í þessu efni, sbr. grein hér á Moggabloggi (smellið): Ráðherra vill í bandi með Kvenréttindafélagi Íslands ráðast harðar að lífsréttinum, þurrka hann út hjá hinum ófæddu. -JVJ.

Lífsréttur, 30.1.2016 kl. 16:20

3 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

He,he. Ég sé að Jón Valur hefur boðið sig fram en er nú ekki tilhlýðilegt að umboðsmaðurinn sé úr þeirra eigin hópi?smile

Jósef Smári Ásmundsson, 30.1.2016 kl. 17:55

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta er ekkert fyndið, Jósef, og ekki hafði ég boðið mig fram, en myndi þó, ef til kæmi, sinna þessu hlutverki fremur en að vita, að enginn gerði það eða einungis einhver úr hópi þeirra sem geta hugsað sér að svíkja ófædda í dauðann.

Jón Valur Jensson, 30.1.2016 kl. 19:11

5 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Þó þú gerir það ekki Jón Valur þá sé ég nú húmorinn í þessari tillögu. Ég tel að það sé nú komið nóg af umboðsmönnum fyrir alla mögulega hópa. Varðandi ófædda þá eru það ekki bara fóstur sem fá að lifa eða er eytt heldur einnig allir aðrir sem alls ekkert komast í þennan heim. Það hlýtur að vera betra að lögin séu á þann veg að allar skuldbindingar sem menn leggja á fólk framtíðar hafi ekkert gildi. Á sama hátt og  ekki má gera samninga við börn ( yngri en 18 ára), og ekki taka ákvarðanir fyrir þau eins og skrá þau í stjórnmálasamtök, trúfélög og önnur félagasamtök. Þá er óþarfi að búa til eitt umboðsmannabáknið í viðbót. Ég var alls ekkert að vera með einhverjar meiningar varðandi fóstureyðingar.

Jósef Smári Ásmundsson, 30.1.2016 kl. 19:29

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er broslegur útúrsnúningur að komandi kynslóðir séu enn ekki til og verði ekki til.

Í tugi þúsunda ára hafa kynslóðir tekið við af kynslóðum, og þótt það hafi verið mögulegt fyrir mannkynið síðustu áratugina að gereyða sér, verður að gera ráð fyrir því að kynslóðir muni halda áfram að fæðast nógu lengi til þess að taka verði tillit til þeirra.

Ómar Ragnarsson, 30.1.2016 kl. 21:07

7 Smámynd: Sigurður Antonsson

"Barnalánið úr sögunni" Ólíklegt er að ríkissjóður eigi umfram fé til greiðslu lánsins. Hafi það hinsvegar verið eyrnamerkt og farið í Hrauneyjafossvirkjun eða ákveðnar hitaveituframkvæmdir myndi vera hægt að sjá hversu hagkvæmt það hefði verið. 

Verðbólga í tveimur löndum gerir útreikninga flóknari. Í Englandi hefur hún verið um 3 prósentustig að meðaltali á ári frá 1980, en hér um 15% verðbólga. 

Sigurður Antonsson, 30.1.2016 kl. 21:25

8 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Voru tvö lán, að ég tel, sem gengu undir þessu nafni.  Þetta var í tíð ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsen.

Fyrr lánið 1981, var 15 milljónir sterlingspunda (u.þ.b. 225 milljónir nýkróna). 

En mér skildist samt í umræðum fyrir nokkrum árum, að þetta hefði samt einhvernvegin verið borgað mestallt miklu fyrr.  En maður sér svo sem ekki fréttina í Mogga, þ.e.a.s. blaðinu Mogga.  En þeir beittu sér gegn þessu minnir mig og höfðu lengi í flimtingum gagnvart Alþýðubandalaginu og þá sérstaklega Ragnari Arnalds sem var fjármálaráðherra.

En þetta var nú í þá daga.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 31.1.2016 kl. 00:17

9 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Gengistryggt lán með 15% vöxtum ! Menn hljóta að hafa verið án glóru þegar þetta var tekið.

Sindri Karl Sigurðsson, 31.1.2016 kl. 11:25

10 identicon

Jú 5,4 miljarðar króna, það var allt og sumt. Lán sem átti að gera þjóðina gjörsamlega gjaldþrota! Reyndar voru greiddir vextir af láninu allan tímann sem er ekki furða að lánardrottinn hafi viljað fá eitthver verðmæti til baka fyrir lánið, ekki var hann að gefa okkur peninga.

En allt að einu hefur þetta barnalán skapað og sparað gríðarlegan gjaldeyri fyrir þjóðarbúið sem er langt umfram kostnað af því.

Þorsteinn Jónsson (IP-tala skráð) 31.1.2016 kl. 14:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband