Eins og lifandi fólk.

Íslensku jöklarnir eru eins og lifandi fólk, sem fitnar og grennist á víxl eftir því sem viðurværið er misjafnt.BISA. Sauðá

Ég hef síðustu þrettán ár verið í árlegu nábýli við einn þeirra, Brúarjökul, sem er stærsti skriðjökull landsins, og undrast það, hve hratt hann hefur "grennst", lækkað og þynnst þegar horft er á hann frá aðsetri mínu á Sauðárflugvellli.

Jökullinn var aðeins þrjá kílómetra fyrir innan flugvöllinn árið 1890 eftir mikið framhlaup, sem skildi eftir hið einstæða fyrirbæri "Hraukana", stóra hólagarða, sem bera nafnið Sauðárhraukar vestan við Kringilsá og sunnan við flugvöllinn.BISA.

Á myndinni er horft til suðurs inn að jöklinum, eins og hann er nú, en í stað þess að hann rísi alveg við völlinn eins og forðum, rétt grillir í hann í fjarlægð vinstra megin á myndinni, en Kverkfjöll eru til hægri.

Næst okkur á myndinni er Sauðá, eða það sem eftir er af henni, en fram til 1940 var hún öflug jökulsá en er nú sakleysileg og lítil bergvatnsá við það að jökullinn hörfaði og breyttist þannnig að allt vatn hans þarna fyrir innan fer í Kringilsá og Kverká.

Staðið er á brautarenda 18/36 á stað, sem ég kalla "útsýnisstað Emmyjar" og kenni við þýska jarðfræðiprófessorinn Emmy Todtmann, sem fór í alls fimm rannsóknarferðir um þetta svæði á 30 ára tímabili frá fjórða til sjöunda áratug síðustu aldar.

Núna er jökulröndin búin að hörfa allt að tíu kílómetra til baka síðan þá.

Ég kem þarna og hef viðdvöl nokkrum sinnum á hverju ári, allt frá byrjun júní fram í nóvember.

Merktur og viðurkenndur vegarslóði liggur frá svonefndri Prestahæð við vegamót þar sem leiðir skiljast, önnur vestur í Grágæsadal, en hin upp að Brúarjökli.

Á skilti við vegamótin stendur "Brúarjökull 8", þ. e. átta kílómetrar voru inn að jöklinum þegar skiltið var sett upp.

Núna eru þetta orðin 5-7 kílómetrum lengri leið.

Á síðustu árum hefur veðurlag breyst þarna flest vor. Stærri og fleiri gusur af miklum óveðrum í líki suðaustanhvassviðra með gríðarlegri úrkomu hafa gengið inn yfir suðaustanvert landið en áður var og valdið aukinni heildarúrkomu á svæði sem nær vestur að Kringilsá, en hefur löngum verið hluti af úrkomuminnsta svæði landsins.BISA. FRÚ. Snæfell.

Í fyrravor voru skilin við Kringilsá mögnuð, alautt vestan við en enn skaflar austan við.

Afleiðingin af þessum miklu úrkomuáhlaupum birtist í auknum snjóalögum í Snæfelli, sem einnig hafa blasað þarna við á hverju vori og sumri með vaxandi sköflum, miðað við það sem var fyrir aðeins 5-6 árum.

Á myndinni er fjallið hvítt síðsumars 2014, bæði af nýsnævi og stækkandi sköflum, þegar þarna var samfelld viðvera í mánuð vegna gossins í Holuhrauni.

Brúarjökull hefur einnig staðið í stað allra síðustu ár hvað snertir hæð hans þrátt fyrir mikla leysingu á sumrin.

Að horfa á Snæfell og Brúarjökul á hverju vori og sumri í nábýli á sama stað er eins og að fylgjast með mismunandi holdafari vina sinna, sem bera það utan á sér, hvert viðurværi þeirra er.

 


mbl.is Hvannadalshnjúkur hefur hækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

..hefur fjallið hækkað..? Er það ekki elsta afsökun í heimi þegar göngufólk fer að eldast og tapar þrótti?

Fjallið hefur hækkað, jájá haha.

jon (IP-tala skráð) 16.2.2016 kl. 08:57

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar þú gengur upp á 2110 metra hátt fjall getur fimm metra hækkun, 0,02% hækkun, ekkert sem skiptir máli.

Ómar Ragnarsson, 16.2.2016 kl. 09:20

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þegar mikið ísfarg ofan á fjalli eykst töluvert ætti fjallið sjálft að lækka yfir sjávarmáli.

Og þegar jökulfargið í Vatnajökli minnkar mikið hækka fjöllin undir jöklinum yfir sjávarmáli (meðalsjávarhæð, meðaltali af hæð meðal stórstraumsflóðs og meðal stórstraumsfjöru) og eldvirknin gæti hugsanlega aukist mikið undir jöklinum þegar fargið minnkar.

Þorsteinn Briem, 16.2.2016 kl. 09:47

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Nú styttist í næsta framhlaup Brúarjökuls, 52 ár þegar liðin síðan síðast, 73 ár liðu síðast milli framhlaupa (frá 1890) og að sögn 80 ár þar áður (frá 1810). Einhver grunur er um framhlaup um 1720 og 1625. Ekki alveg vitað hvað ræður tíma milli hlaupa - en hið hraða hop síðustu 20 ára gæti hugsanlega stytt lotuna - kannski niður fyrir 70 ár? Það verður mikið sjónarspil - þótt kannski verði heldur minna í sniðum en í síðustu skiptin.

Trausti Jónsson, 18.2.2016 kl. 00:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband