"Já, ef..."

Í meginatriðum er hægt að velja um þrenns konar viðbrögð við því ef vafi leikur á um ákveðna háttsemi, sem þarfnast samþykkis einhvers, sem um það fjallar, til dæmis yfirvalds eða leyfisveitanda.

1. "Já." Án þess að hamlandi skilyrði séu sett.

2. "Nei."

3. "Já, ef..." Eftir vandaða skoðun og rannsóknir er gefið leyfi að uppfylltum nauðsynlegum skilyrðum.

Hins vegar er langauðveldast er fyrir þann sem fjallar um háttsemina, til dæmis löggjafa eða yfirvald að velja kost númer 2.

"Nei", og málið er dautt.

Þess vegna vill tilhneigingin oft verða sú að sá kostur verður fyrir valinu og séu þessi viðbrögð valin að jafnaði, sem er lang þægilegast og fljótlegast fyrir viðkomandi yfirvald, myndast oft röð geðþóttaákvarðana og sívaxandi múr hindrana.

Á þessum forsendum hefur oft myndast séríslensk tregða gegn því að leyfa ýmislegt, sem hefur þótt sjálfsagt í öðrum löndum, þar sem valinn kostur númer 3:  "Já, ef..."

Hér á landi liðu til dæmis tuttugu ár frá því að rallakstur var leyfður í öðrum löndum með ströngum skilyrðum þangað til leyfi fékkst til þess hér.

Þurfti oft að standa í þrefi við lögreglu nóttina fyrir keppni til að hún gæti byrjað.

Ég minnist þess að þegar júdó barst til landsins ríktu miklir fordómar í garð bardagaíþrótta, annarra en íslensku glímunnar.

Voru brögðin í íþróttinni talin stórhættuleg og iðkun íþróttarinnar vítavert atferli.

Þegar júdómenn úr Ármanni brugðust við þessu með því að sýna á samkomum þauæfð brögð, sem virtust tilsýndar vera stórhættuleg en voru það í raun ekki, ef rétt var að farið, slaknaði smám saman á þessum fordómum.

Ég minnist þess að allt fram yfir 1980 var erfitt eða illmögulegt fyrir einstaklinga að fá léð til einkanota á heimilum sínum myndefni úr safni Sjónvarpsins.

Auðveldasta og ódýrasta svarið við þessu var: "Nei." Talið óhjákvæmilegt.

Sjónvarpið var þá á mótunarskeiði, hafði úr litlu fjármagni að spila, og það markaði umgjörðina. Einstakir starfsmenn höfðu vegna annarra verkefna ekki tíma til að sinna þessu.

Síðan kom að því að menn sáu, að hvort eð er var ekki mögulegt að standa á þessu, enda Sjónvarpið þjónustustofnun í eigu almennings, og þá var tekið til bragðs að fela sérstökum starfsmanni að annast þetta og tekin sanngjörn og eðlileg greiðsla fyrir.

Með árunum hefur þetta smám saman orðið að þjónustu, sem ber sig fullkomlega, skapar Sjónvarpinu drjúgar tekjur, og efni úr safni Sjónvarpsins er góð söluvara á almennum markaði. 

Í Reynisfjöru og á hliðstæðum ferðamannastöðum, hér á landi og erlendis, sem draga að sér tugi og hundruð þúsunda ferðamanna og skapa tuga milljarða gjaldeyristekjur á það ekki að vera neitt stórfellt vandamál að koma skikki á hlutina án þess að segja bara blankt "nei."

Að lausn vandamálsins skuli stranda á því að borga tveimur eftirlitsmönnum laun er fáránlegt miðað við þann gróða sem sem svona staðir skapa fyrir þjóðarbúið.  


mbl.is Hunsaði ekki aðvaranir í fjörunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hvumpinn

Það eru settir landverðir uppum allt hálendi á sumrin til að passa mosa og sand.  Hvernig væri að hafa landverði á þessum áhættustöðum, alltaf?

Hvumpinn, 27.2.2016 kl. 07:49

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

""Computer Says No", or the "Computer says no attitude", is the popular name given to an attitude in customer service where the default response is to check with information stored electronically and making decisions based on that, apparently without consideration of common sense and showing a level of unhelpfulness where more could be done but is not offered.[1]

The name gained popularity through British sketch comedy, Little Britain.[2]"

Computer says no

Þorsteinn Briem, 27.2.2016 kl. 08:02

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

23.1.2014:

"Vinna við landvörslu í sumar minnkar um helming frá því í fyrra vegna lægri fjárframlaga til Umhverfisstofnunar.

Landverðir starfa í íslenskum þjóðgörðum og á náttúruverndarsvæðum á sumrin.

Þeir taka á móti gestum, veita upplýsingar og fræðslu, gæta þess að ákvæði friðlýsingar og náttúruverndarlaga séu virt, hafa eftirlit með umferð og umgengni og sjá um framkvæmdir eins og að leggja göngustíga og halda tjaldsvæðum við."

Vinna við landvörslu minnkar um helming á milli ára vegna minni fjárframlaga

Þorsteinn Briem, 27.2.2016 kl. 08:28

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Raunverulegur kostnaður ríkisins vegna góðrar landvörslu er enginn.

Landverðir greiða tekjuskatt til ríkisins og virðisaukaskatt sem er með þeim hæstu í heiminum af vörum og þjónustu sem þeir kaupa hér á Íslandi.

Og sektir renna í ríkissjóð.

Þorsteinn Briem, 27.2.2016 kl. 08:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband