Engin leið að hætta við að taka Skjálfandafljót.

Samtök ferðaþjónustunnar grátbiðja um að nýting þeirrar auðlinda sem í náttúrunni felast sé byggð á framsýni, ábyrgð og skipulagi með heildarhagsmuni þjóðarbúsins að leiðarljósi. dscf0852

En allt kemur fyrir ekki. Sömu virkjanaáformin með stórfelldu inngripi í náttúrufar miðhálendisins og drekkingu dala, eru endurnýjuð aftur og aftur.

Fyrst var ætlunin að slátra fossunum í ofanverðu Skjálfandafljóti, þeirra á meðal Aldeyjarfossi, sem sést, séður úr lofti, á efstu myndinni hér á síðunni.

Út því átti að fá og fá 90 megavött sem duga myndu fyrir atvinnu handa um 55 manns í álveri.

En þegar Aldeyjarfoss varð fólki smám saman kunnari en fyrr og ferðamannastraumur þangað jókst, var ekki hætt við áformin. p1012567

Ónei, heldur hafa þau nú verið endurnýjuð með áætlun um að taka samt efsta hluta fljótsins og sökkva 20 kílómetra löngum dal undir lón til að skapa 36 megavatta virkjun, en sú orka nægir fyrir um 25 manns í álveri.

Sagt er að brýn nauðsyn sé fyrir þessa orku vegna orkuskorts fyrir landsmenn.

Samt framleiðum við senn fimm sinnum meiri raforku en við þurfum sjálf en við þurfum til nota fyrir eigin fyrirtæki og heimili.

Það er vegna þess að stóriðjan svelgir í sig um 80% af raforkuframmleiðlsu landsins. p1012582

Auk þess að þurrka upp fallega fossa fyrir ofan Aldeyjarfoss á afar fallegu hraunsvæði á að sökkva 20 kílómetra löngum dal sem sagður er auðn að mestu.

Myndirnar hér sýna annað, að stór hluti dalsins er vel gróinn og að hann er alger vin sem liggur inn í hálendið.

Virkjafíklar segja einu áhrif þessarar eyðileggingar verða að lónið sjáist lítillega frá Sprengisandsleið, sem liggur 2-300 metrum hærra fyrir vestan dalinn. dscf0916

Alveg er horft fram hjá því hvers vegna Grímur Thomsen yrkir: "Vænsta klárinn vildi ég gefa til / að vera kominn ofan í Kiðagil."

Það er vegna þess, að þegar komið er ríðandi að sunnan yfir Sprengisand, liggur leið Gríms niður í innsta hluta dalsins, sem kalla má Krókdal eftir nafninu á hluta hans, af því að þar er miklu hlýrra og skjólsælla en uppi á núverandi Sprengisandsleið.

Á tímum Gríms Thomsen var dalurinn áreiðanlega algróinn, enda örnefni í meiri hæð sem benda til þess að þar hafi verið kjarrlendi.

En allt til þessa dags hefur verið sauðfjárbeit í dalnum, sem hefði átt að leggja af fyrir löngu og sjá til þess að þessi dalur fái allur að fyllast gróðri upp undir brúnir eins og hann var forðum.

Merki um það er ekki aðeins að finna í örnefnum, heldur einnig í rofabörðum, sem enn halda velli í hlíðum hans.

p1012590

Og það margt fé er rekið inn í dalinn að fullyrðingin um að hann sé að mestu auðnir, er ekki rétt, enda er dalurinn í svipaðri hæð yfir sjó og efstu bæirnir fyrir norðan hann, Svartárkot og Víðiker.  

Þessari fallegu og skjólsælu vin í hálendinu á að sökkva í drullu undir því yfirskini að verið sé að "þekja með snyrtilegu miðlunarlóni sanda, urð og grjót uppi á hálendinu" og sömuleiðis að þurrka upp þá fallegu fossa, sem myndirnar hér eru af.

Í ofanálag á að selja þessa hugmynd með því að þetta sé "endurnýjanleg orka", en vegna þess að Skjálfandafljót er aurug jökulá, mun lónið fyllast upp af auri og verða ónýtt með tímanum.

Og allt þetta á að gera fyrir 19 sinnum minni orku en fékkst með Kárahnjúkavirkjun.  

Meðal þess sem á að sökkva er skálinn, sem myndin er af, en þegar spjallað var við fólkið, sem þar var, hafði það ekki hugmynd um að sökkva ætti dalnum og skálanum þeirra þar með.   p1012575


mbl.is Nýting auðlinda byggi á framsýni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Raforkuvinnsla hér á Íslandi árið 2008 var 16,467 GWh og hafði þá aukist frá árinu áður um 37,5%.

Og notkunin á íbúa jókst úr 38,5 MWh í 51,6 MWh.

Árið 2002 varð raforkunotkunin hér sú mesta í heiminum á mann
en áður hafði hún verið mest í Noregi.

Með Fjarðaáli jókst raforkunotkun stóriðju verulega árið 2008 og hlutur hennar fór þá í 77% af heildarnotkuninni.

Þorsteinn Briem, 20.3.2016 kl. 00:39

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

"... sökkva 20 kílómetra löngum dal undir lón til að skapa 36 megavatta virkjun ..."

Raforkuvinnsla hér á Íslandi árið 2008 var 16,467 GWh og hafði þá aukist frá árinu áður um 37,5%.

Og notkunin á íbúa jókst úr 38,5 MWh í 51,6 MWh.

Þorsteinn Briem, 20.3.2016 kl. 00:53

3 identicon

Húsvíkingar og Landsvirkjun horfa til Skjálfandafljóts þar sem áform um  gufuvirkjanir í sýslunni reyndust innistæðulaus:  

Árum saman hefur verið rætt um að knýja málmbræðslu(r) með raforku frá Þingeyskum jarðvarmavirkjunum . Lengi var rætt um álver á Bakka með 600MW aflþörf en þau áform döguðu uppi þegar lýðum varð ljóst að ekki var innistæða fyrr þeirri orku sem þurfti til að knýa álverið.

Hvernig stóð á því að álversumræðan gegnsýrði samfélagið árum saman þó svo að hún væri með öllu innistæðulaus?
Svarið er að líkindum falið í meira og minna áætluðum tölum um aflgetu einstakra háhitasvæða sem settar voru fram af orkufyrirtækjum eða Orkustofnun og sendar inn sem virkjanaHUGMYNDIR til Rammááætlunar. Rammaáætlun fjallaði um þessar áætluðu afkastatölur á sama hátt og fjallað var um virkjanaKOSTI sem byggðu á raunverulegum stærðum sem mældar voru með beinum hætti, líkt og rennsli og fallhæð í ám og mælingar á raunverulegum gufuborholum.
Rammaáætlun tók enga afstöðu til áreiðanleika þessara talna enda var það ekki hennar hlutverk.
Þeir sem sáu þessar tölur, "svartar á hvítu", um tugi eða hundruð megawatta a hinum ýmsu háhitasvæðum sem rötuðu í nýtingarflokk, voru fljótir að sjá að þetta mætti nota til að bræða mikið af málmi og um tíma var unnið að krafti við undirbúning tveggja stórra álvera. 
Bankakreppan og verðfall á áli skipta ekki höfuðmáli um stöðvun þessara álversbygginga. -Það var aldrei raforkuleg innistæða fyrir þessum álverum.

Nýútgefin kerfisáætlun Landsnets byggir á meðfylgjandi töflu Rammaáætlunar um þá virkjanakosti og virkjanahugmyndir sem metnir hafa verið í nýtingarflokk.
Fyrst eru taldir nokkuð áreiðanlegir virkjanakostir í vatnsafli sem full innistæða er fyrir enda byggja þeir á beinum mælingum kennistærða. Síðan koma fjölmargar mis vel staðfestar hugmyndir um jarðhitavirkjanir sem margir þekkja. 
Hér verður tæpt á nokkrum þeirra:

Hverahlíðarvirkjun 90MW
Virkjunin verður aldrei byggð þar sem öll gufa fra Hverahlíð verður leidd að Hellisheiðarvirkjun. Hellisheiðarvirkjun var byggð af pólitískum glannaskap, án tilhlýðilegra rannsókna og og reyndist u.þ.b. tvöfalt stærri en afköst jarðhitakerfisins til lengri tíma litið. Viðbótar gufa frá Hverahlíð mun ekki duga til að halda fullum dampi á Hellisheiðarvirkun til langframa, og þarf að leita fanga víðar til gufuöflunar.

Reykjanesvirkjun 80MW
Í aðdraganda núvernadi 100MW Reykjanesvirkjunar var langtíma afkastageta jarðhitakerfisins metin 28MW. Þrýstingur í jarðhitakerfinu hefur fallið gríðarhratt og er enn á niðurleið. Þrýstifallið nemur 40 loftþyngdum eða ígildi 400 metra niðurdrætti vatnsborðs. Af skiljanegum ástæðum hefur ekki fengist leyfi til að stækka virkjunina þó svo að HS orka hafi þegar keypt 50MW vélasamstæðu.

Krafla I stækkun 40MW
Boruð var hola í fullri dýpt á sk Vestursvæði sem átti að sjá nýrri vél fyrir gufu. Engin gufa fannst og engin áform eru uppi um frekari boranir.

Krafla II áfangi 1&2 135MW
Gríðarlega orku er að finna undir Vítismóum enda nýbúið að kynda rækilega undir kötlunum.. Rannsóknir bentu til að fast berg væri að finna milli tveggja kvikhólfa og þar átti að bora djúpt og ná mikilli orku. Kvikuhólfin reyndust hinsvegar ná saman og borað var niður í bráðið berg og upp af því gufa mjög tærandi kvikugös. Hagnýting orkunnar er ekki möguleg fyrr en orkuverð stendur undir búnaði úr gulli og títaníum. Aðrir málmar þola ekki að saman fari þetta hár hiti og tærandi innihald. 
Hagnýting ómöguleg að svo stöddu.

Bjarnarflag 90MW
Eftir að heimamenn áttuðu sig á því að loftmengun frá 90MW Bjarnarflagsvirkjun ógnaði búsetu og atvinnurekstri í Vogum og Reykjahlíð (þetta kemur fram í skýrslum um MÁU 2003), fór LV að kynna virkjunina sem 45MW með möguleika á stækkun í 90MW. Virkjunin er í nágrenni byggðar og barnaskóla. Ekki eru tæknilegar forsendur fyrir virkjuninni fyrr en LV ræður við að hreinsa brennisteinsvetni úr útblæstri. Unnið er að nýju MÁU. Óvíst er að virkjunin verði reist á meðan LV ræður ekki yfir tækni til hreinsunar á útblæstri.

Þeistareykir 180MW
Lengi vel var fjallað um Þeistareykjavirkun sem 200MW, -einfaldlega vegna þess að það var tölugildið sem notast var við í skýrslu um MÁU sem gefin var út árið 2010. Rétt er að minna á að skýrslan bar titilinn “Allt að 200MW” en margir túlkuðu þetta sem 200MW í hendi.
Á meðan Stefán Arnórsson jarðfræðingur var í stjórn LV var samþykkt að reisa í fyrsta áfanga 45MW virkjun á Þeystareykjum og sjá til hvernig svæðið brigðist við vinnslu. Eftir að Stefán gekk úr stjórn LV og Bjarnarflagsvirkjun var amk tímabundið út úr myndinni vegna loftmengunar, var ákveðið að kaupa tvær 45MW vélar til Þeistareykja og er nú unnið að uppsetningu þeirrar fyrri. Forstjóri LV hefur margítrekað að framhaldið ráðist af viðbrögðum jarðhitageymisins við þessari 90MW vinnslu.

Þeistareykir vestursvæði 90MW
Út frá viðnámsmælingum á yfirborði var áætlað að mögulegt væri að virkja allt að 90MW.
Nýlega var tæpum hálfum milljarði varið í að bora rúmlega 2 km niður í svæðið (hola ÞG-8). Í ljós kom að hiti lækkar með auknu dýpi og hafa gárungar í hópi jarðfræðinga sett fram þá kenningu að með sama áframhaldi megi finna alkul löngu áður en komið er að miðju jarðar! wink emoticon
Í kjölfar borunar sendi Landsvirkjun frá sér eftirfarandi yfirlýsingu: - “Borholan á vestursvæðinu (ÞG-8) reyndist ekki nothæf fyrir háhitavirkjun og því gera varfærnar áætlanir Landsvirkjunar ekki ráð fyrir að sá hluti svæðisins verði nýttur til raforkuvinnslu að svo komnu”.

Af þessari samantekt er ljóst að Landvirkjun getur ábyrgst framleiðslu 90MW á Þeystareykjum.
Ekki var innistæða fyrir 40MW frá Kröflu I eða 90MW frá vestursvæði Þeystareykja.
Tækni til virkjunar Kröflu II er ekki innan seilingar og sama er að segja um tækni til mengunarvarna við Bjarnarflagsvirkjun. Í Bjarnarflagi er hinsvegar tiltæk gufa til 45MW virkjunar og ekki ólíklegt að bæta megi við öðru eins.
Líklegt er að sjá megi við loftmengun frá virkjuninni en mikil óvissa er með kostnað við hreinsun/niðurdælingu. Mikil óvissa er einnig um áhrif virkjunarinnar á grunnvatn.

Þessi samantekt er í fullu samræmi við orð forstjóra LV á borgarafundi á Húsavík þegar hann sló álverið á Bakka út af borðinu vegna orkuskorts. Þá sagði Hörður að LV gæti ábyrgst uþb 200MW frá Þingeyskum jarðhitavirkjunum og etv annað eins innan áratugs ef vel gengi. Síðan þá hefur Bjarnarflagsvirkjun dottið amk tímabundið úr skaftinu og eftir standa nokkuð trygg 90MW á Þeistareykjum.

Sigurður Sunnandvindur (IP-tala skráð) 20.3.2016 kl. 09:05

4 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Sæll Ómar og takk fyrir þennan pistil. Skjálfandafljót er fljótið mitt og það mun ég verja með öllum hugsanlegum ráðum. Við megum ekki samþiggja þessa virkjun barasta alls ekki!

Sigurður Haraldsson, 20.3.2016 kl. 09:56

5 identicon

Næsti forseti þarf nauðsynlega að vera náttúrúverndarsinni. Þessi virkjanabrjálsemi gengur ekki lengur.

Baldur Ragnarsson (IP-tala skráð) 20.3.2016 kl. 13:14

6 identicon

Hálslón og Kárahnjúkar taka 2?

Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 20.3.2016 kl. 16:23

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mjög svipað, næstum eins langt lón, en orkan 19 sinnum minni!

Ómar Ragnarsson, 20.3.2016 kl. 17:36

8 identicon

Verð nu að benda á smá missögn her að ofan að fossinn Gjallandi sem er hér á neðri fossamynd mun ekki fara undir þetta lón ef af verður það er bara ekki fræðilegur þar sem hann er mikið ofar i Skjalfandafljóti,,en vill samt taka það fram að ég er allfarið á móti þessum virkjunar hugmyndum

Víðir L Hjartarson (IP-tala skráð) 20.3.2016 kl. 18:01

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég segi hvergi að fossarnir fyrir ofan Aldeyjarfoss fari undir lón, heldur að vatnið verði tekið af þeim.

Ómar Ragnarsson, 20.3.2016 kl. 18:06

10 identicon

Er einhvers staðar hægt að finna lista upp og setja mynd af þeim mönnum sem bera ábyrgð á þessari árás og eyðileggingu á landinu, það hefur engin manneskja umboð til svona aðgerða.  

Þetta fólk verður að þurfa að bera skömm sína opinberlega um alla framtíð og þannig að þeir og þeirra verk gleymist ekki, við þurfum að halda í fersku minni og auðveldlega getað flett upp hvaða fólk þetta er til þess að það geti ekki falið sig í skjóli okkar gleymsku því það er erfitt að muna hverjir standa að hvaða ósóma.  

gerdur palmadóttir (IP-tala skráð) 20.3.2016 kl. 20:19

11 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er nauðsynlegt að stöðva tafarlaust öll virkjanaáform hérlendis. Það er engin þörf fyrir aukna orkuframleiðslu. Sú aukning sem orðið hefur á undanförnum árum skilar engu í þjóðarbúið því orkan er seld á verði sem er langt undir fjármagnskostnaði. Ferðaþjónustan er orðin lykilgrein í efnahagslífi okkar og því er ótækt að halda áfram að sýna hagsmunum hennar það algera tillitsleysi sem gert er með þessari virkjanavitleysu.

Þorsteinn Siglaugsson, 21.3.2016 kl. 20:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband