1968 og 1980, ár umróts og óvissu.

Leitun er að ári annarrar eins óvissu í stjórnmálum hér á landi og alls staðar í kringum okkur og árinu 1968. Heil kynslóð er kennd við það ár bæði hér á landi og erlendis.

Í Bandaríkjunum voru Martin Luther King og Robert Kennedy skotnir og borgir landsins loguðu í bókstaflegri merkingu vegna óeirða og uppþota hjá þjóð, sem var klofin í herðar niður, bæði vegna mesta kynslóðarbils sögunnar og vegna Víetnamstríðsins.

Johnson forseti hrökklaðist úr embætti.

Þessi órói teygði sig um allan heim, svo sem til Frakklands, þar sem sjálfur De Gaulle riðaði til falls.

Hér heima var djúp efnahagskreppa vegna hvarfs síldarinnar og verðfalls á fiskmörkuðum. Gengi krónunnar hafði verið fellt tvisvar árið áður og brostinn á fólksflótti til Svíþjóðar.

Óeirðir og átök lögreglu og uppreisnargjarnra ungra róttæklinga voru tíð.

Í öllu þessu einstæða umróti ákvað farsæll forseti, Ásgeir Ásgeirsson, að stíga til hliðar eftir 16 ára setu á Bessastöðum og gefa nýjum mönnum tækifæri til að taka við.

Ef Kristján Eldjárn hefði ekki verið orðinn nokkuð þekktur fyrir þátt sinn "Muni og minjar" í Sjónvarpinu hefði varla nokkur Íslendingur vitað neitt um manninn.

Við tók farsæll forsetaferill hans. "Þetta fór allt einhvern veginn á endanum, þótt margir hefðu efast um það fyrirfram" eins og Nóbelskáldið orðaði slíka hluti.

Í árslok 1980 ákvað Kristján að stíga til hliðar eftir 12 ára setu með þeim orðum að enginn væri ómissandi.

Þegar hann sagði þetta í nýjársávarpi ríkti meiri upplausn í íslenskum stjórnmálum en dæmi höfðu verið um í áratugi og dæmi hafa verið um í allri lýðveldissögunni.  Nýafstaðnar voru tvennar kosningar á rúmu ári á tíma ríkissjórnar þar sem hver höndin var uppi á móti annarri og stjórnin óstjórnhæf, en stjórnin hafði verið barin saman með harmkvælum eftir eitt mesta verkfalla- og átakaár sögunnar.

Minnihlutastjórn Alþýðuflokksins sat til bráðabirgða en alvarlegasta stjórnarkreppa síðan 1950 var í landinu og engin lausn í sjónmáli. Forsetinn hótaði að skipa utanþingsstjórn.

Í landinu hafði verið óðviðráðanleg óðaverðbólga, sem á árunum 1978-83 var sú lang, lang mesta sem þekkst hefur í sögu landsins.

Samt ákvað þessi farsæli og merki forseti að gefa nýju fólki færi á að taka við.

Og aftur fór þetta allt einhvern veginn á endanum, þótt margir hefðu efast um það fyrirfram.  


mbl.is „Hlýtur að vera svona einstakur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvar væri þjóðin eiginlega stödd ef Nóbelsskáldið hefði ekki komið fram með þessa ódauðlegu speki.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 19.4.2016 kl. 09:32

2 identicon

Ef ég man rétt þá er, samkvæmt. tillögum Stjórnlagaráðs um stjórnarskrá, forseta Íslands óheimilt að sitja lengur en tvö kjörtímabil. Er það vafalaust með tilvísun í stjórnarskrá Bandaríkjanna. Reyndar hafa fleiri ríki tekið upp þann hátt.

En benda má á að forseti Bandaríkjanna er miklu valdameiri heldur en gert er ráð fyrir um forseta Íslands.

Setjum svo að forseti Íslands hafi setið í átta ár við góðan orðstír og miklar vinsældir. Hann er þá sjálfkrafa sviptur kjörgengi þrátt fyrir það að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar óski þess að hann sitji áfram.

Hvaða nauðsyn ber til þess?

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 19.4.2016 kl. 14:25

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Forseti Bandaríkjanna gegnir hlutfallslega ekki þúsund sinnum mikilvægara og erfiðara embætti fyrir þjóð sína en forseti Íslands, bara af því að Bandaríkjamenn eru þúsund sinnum fleiri en Íslendingar.

En rétt er það að innan Bandaríkjanna eru völd forseta heldur meiri en forsetans í okkar landi.

Forsetinn er eini þjóðkjörni embættismaður þjóðarinnar. Það hefur verið sagt að völd spilli og að þau spilli því meira sem menn hafa þau lengur.

Það má alveg eins spyrja af hverju afburðamaður, 34 ára gamall, sem nýtur einstaks álits og trausts, sé ekki kjörgengur til embættis forseta Íslands.

Ómar Ragnarsson, 19.4.2016 kl. 14:45

4 identicon

Spilling, sjálfsálit eða eiginhagsmunir eiga ekki að geta komið í veg fyrir það að menn bjóði sig fram til forsetakjörs, það er kjósenda að meta hvort þeir séu til þess fallnir að gegna þessu embætti, það gera þeir á fjögurra ára fresti.

Ísland er örþjóð, þó er greinilega ekki skortur á fólki sem telur sig fært um að gegna forsetaembættinu. En það er spurning hvort svo er.

Vigdís Finnbogadóttir var ástsæll forseti, þó eru þeir til sem telja að hún hafi brugðist þegar hún skrifaði undir umsóknina til ESB í stað þess að skjóta henni til þjóðarinnar. Ekki treysti ég mér til að fullyrða um það hvort sú ákvörðun var rétt.

Vissulega þarf að breyta mörgu í stjórnarskránni, m.a.er brýnt að breyta 5.greininni um forsetakjör. Einnig er ég sammála því að fella burt 4.greinina með ákvæðinu um 35 ára kjörgengið.

Því má svo bæta hér við að stjórnarskrá Japana var samin á einni viku að fyrirskipan McArthur herforingja. Það var 22 ára stúlka, Beate Sirota, sem samdi mannréttindakaflann. Ekki veit hvort sú stjórnarskrá er til fyrirmyndar, en hún er víst enn í gildi.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 19.4.2016 kl. 16:31

5 identicon

Auðvitað átti að standa EES, ekki ESB.

Biðst velvirðingar á því.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 19.4.2016 kl. 17:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband