Virkjanasóknin byggist á vanþekkingu.

Ásóknin í á hátt í hundrað stórar virkjanir á Íslandi í viðbót við þær 30 sem eru komnar byggist á því að fólk viti sem minnst eða helst ekkert um það, sem fórnað er.

Ég átti athyglisvert viðta1l við einn af þingmönnum Norðvesturlands fyrir 12 árum.

Hann hafði ári fyrr samþykkt Kárahnjúkavirkjun. Ég spurði hann hvort hann hefði skoðað alla aðra virkjanakosti landsins, svo sem Hvalárvirkjun.

Hann kvað nei við en spurði af hverju ég nefndi Hvalárvirkjun.

Ég sagði honum að Kárahnjúkavirkjun og sambærilegar virkjanir á Íslandi væru með verstu óafturkræfu umhverfisáhrif, sem hugsanleg væru, einkum vegna aurburðar jökulsánna, sem í tilfelli Kárahnjúkavirkjunar fylltu jafnvel 25 kílómetra langan og 180 metra djúpan dal af drullu, auk þess sem slíkar virkjanir væru á hinum eldvirka hluta Íslands, sem ætti sér engan líka í heiminum.

Hins vegar væri Hvalárvirkjun svipuð norskum fjallavirkjunum þar sem ekkert aurset settist í lónin og hægt væri að rífa stíflur og fjarlægja mannvirki, svo að árnar með fossum sínum kæmu aftur í ljós.

"Hefur þér aldrei dottið í hug að hægt væri að virkja Hvalá? Því er haldið fram að hún falli um urðir og grjót á Ófeigsfjarðarheiði, sem enginn þekki."

"Ég myndi aldrei samþykkja virkjun Hvalár," svaraði hann.

"Af hverju ekki?" spurði ég.

"Af því að það er alrangt farið með staðreyndir í því máli. Ég þekki þetta svæði með öllum sínum dásemdum og einstaklega fallegu fossaröð."

Hann þekkti ekki Hjalladal eða allt hið einstæða svæði, sem eyðilagt var með Kárahnjúkavirkjun og samþykkti hana því. Þar gilti aðferð strútsins, að stinga höfðinu í sandinn.

Sama aðferð gilti hins vegar ekki um Hvalárvirkjun með margfalt minni umhverfisspjöllum en miklum þó. Það svæði þekkti hann.

Um þetta gilda þó ekki orðin frægu "Faðir fyrirgef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gera."

Nú er upplýsingaöld og því verður að breyta setningunni: "Fyrirgef þeim, þótt þeir vilji ekki vita hvað þeir gera."

 


mbl.is Frummat á 55 MW Hvalárvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Eða: "... þótt þeir viti vel hvað þeir gjöra, en atkvæðin séu þeim verðmætari en eigin samviska ..." ?

Þorsteinn Siglaugsson, 6.7.2016 kl. 11:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband