Laugavegurinn er einstæður og samt er ítala í erlenda keppinauta hans.

Það svæði á norðurhveli jarðar, sem helst er hægt að bera saman við Laugaveginn, er Yellowstone í Wyoming í Bandaríkjunum. Í þeim þjóðgarði eru 1600 kílómetrar af göngustígum og eftir tvær könnunarferðir þangað er óhætt að segja að enginn þeirra kemst í neinn samjöfnuð við Laugaveginn hvað snertir dýrð lita og landslags, að ekki sé minnst á jarðfræðilegt gildi.

Í Yellowstone gera ferðamenn kröfu um frið og kyrrð til þess að fá að njóta ósnortinnar náttúru. Einnig er gerð krafa um að stígarnir séu ekki útsparkað drullusvað í rigningatíð.

Þess vegna er fyrir mörgum áratugum komin ítala í gönguferðir um stígana, öflugt eftirlit og viðhald viðhaft til að fylgja henni eftir og tekið gjald fyrir aðgang.

Ég geymi enn náttúrupassa, sem við Helga keyptum 2002 og hef áður sagt frá honum hér á síðunni.

Í þessu landi frelsisins, sem Bandaríkin eru oft kölluð af aðdáendum þeirra hér á landi standa áletrunirnar "proud partner" og "discover your America" á passanum, en hér á landi var hins vegar rekið upp mikið ramakvein vegna hugmynda um náttúrupassa og talað um "auðmýkingu og niðurlægingu" ef náttúrupassi yrði að veruleika.

Langir biðlistar eru vestra eftir því að fá að ganga stígana eða að sigla niður ár eins og Koloradofljótið, þar sem þurfti að bíða í 14 ár eftir leyfi til siglingar þegar við Helga vorum þar.

Hvað ætlum við að lata líða marga áratugi áður en sendur verður, þótt ekki sé nema einn maður, til að skoða og kynna sér til hlítar svæði erlendis, þar sem helst er hægt að læra af margra áratuga reynslu umsjónarmanna svæðanna? 

 


mbl.is Laugavegur sprunginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Ísland er land þitt" er tekið svo alvarlega að skráðir landeigendur eru svo til réttlausir. Lög sem tryggja almenningi frjálsa för um landið koma í veg fyrir gjaldtöku. Ekki má landeigandi reisa kamar nema greiða fyrir sérstakt leyfi frá samborgurunum. Og til vegalagningar þarf hann að kaupa umhverfismat og slást við umhverfisverndarsinna sem trompast ef færa á steinvölu. Er nokkur furða að ekkert gerist?

Hábeinn (IP-tala skráð) 12.7.2016 kl. 12:19

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í milljarða króna framkvæmdum er nú einhverjum völum velt við.

""Ferðafé­lagið hef­ur sett hátt í millj­arð króna í upp­bygg­ingu, þjón­ustu og rekst­ur á Lauga­veg­in­um á síðustu tíu árum, það eru um 100 millj­ón­ir á ári," seg­ir Páll Guðmunds­son, fram­kvæmda­stjóri Ferðafé­lags Íslands (FÍ)."

Þorsteinn Briem, 12.7.2016 kl. 13:42

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þeir sem sífellt gapa um að Bandaríkin séu land frelsisins ættu að sjálfsögðu að nefna í hverju allt þetta frelsi er fólgið.

Þorsteinn Briem, 12.7.2016 kl. 13:47

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Dagur B. Eggertsson 20.5.2016:

"Athyglisverð könnun var birt í vikunni þar sem kemur fram að 70% íbúa höfuðborgarsvæðisins vilja leggja gistináttagjald á ferðamenn sem renni til sveitarfélaga.

Það kemur ekki á óvart. Fyrirkomulagið er núna þannig að gistináttagjaldið er 0,7 evrur eða rétt um hundrað kall á mann á nótt á Íslandi. Það er með því lægsta sem gerist í veröldinni og rennur óskipt í ríkissjóð.

Víða um heim stendur gistináttagjald undir uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn, hvort sem er í borgum eða dreifðari byggðum. Mörg sveitarfélög hafa kallað eftir þessu og er þetta að finna í samþykktri stefnu Sambands sveitarfélaga.

Ríkið hirðir nær allar tekjur af ferðamönnum og útdeilir svo broti af þeim með styrkjum í gegnum framkvæmdasjóð ferðamannastaða.

Krafan um að lagt verði á gistináttagjald sem renni til sveitarfélaga á hins vegar stuðning um allt land og mikilvægt að Alþingi og ríkisstjórn bregðist strax við því."

Þorsteinn Briem, 12.7.2016 kl. 14:00

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Á síðustu 20 árum má nefna sem dæmi vegalagningar, þar sem enginn "trompaðist vegna þess að færa ætti steinvölu": 

Hvalfjarðargöng og vegur norðan þeirra, Suðurstrandavegur, tvöföldun stórs hluta Reykjanesbrautar og Suðurlandsvegar, vegur um Þröskulda, þverun Kjálkafjarðar, langur nýr vegur með þverun Kjálkafjarðar og Mjóafjarðar, langur nýr vegur við Ísafjarðardjúp með þverun Mjóafjarðar, vegur um Þverárfjall, Héðinsfjarðarleið milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, vegur um Norðurárdal í Skagafirði, Dettifossvegur, nýr vegur um Mývatnsöræfi og Hólsfjöll, Háreksstaðaleið, Raufarhafnarleið um Hólaheiði, nýr vegur um Öxi, Hvalnes- og Þvottárskriður, ný leið um nýja Markarfljótsbrú, vegir á flugvöllinn á Bakka og niður í Landeyjahöfn, vegur yfir Ölfusá um Óseyrarbrú o.s.frv.  

Ómar Ragnarsson, 12.7.2016 kl. 21:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband