Hvernig væri prófa "niðurhal" á mjólk?

Gott er að ungir og frískir menn komi til skjalanna í íslenskri tónlistarútgáfu og fylgja þeim hinar bestu óskir.

Tónlistarmenn standa þessi misserin í baráttu eins og sést á athyglisverðu og tímabæru viðtali við Jakob Frímann Magnússon í Fréttablaðinu í dag um ólöglegt niðurhal á tónlist og kvikmyndum, sem áætlað hefur verið að hýrudragi íslenska listamenn um meira en milljarð króna á ári. 

Ein af röksemdunum, sem sáust og heyrðust í útvarpi um þetta mál var það að engin ástæða væri til þess að listamenn hefðu tekjur af list sinni. "Það getur hver sem er farið út í bílskúr og raulað og gutlað eitthvað á gítar. Og hver sem er getur skroppið út og tekið mynd af landslagi sem blasir við öllum." 

Í þessu felst mótsögn. Ef verk þessara listamanna eru svona lítilfjörleg, hvers vegna skreppa þessir menn þá ekki sjálfir út í skúr og gutla á gítar og raula?

Hvers vegna skreppur ekki hver sem er í Eldborg og lætur taka upp ævistarf á borð við ævistarf Ladda?

Og hvers vegna er afurð hans niðurhöluð og dreift 50 þúsund sinnum?

Ágætt væri að taka þessa menn á orðinu, að skreppa út úr bílnum á ferðalagi og mjólka nokkrar kýr við veginn. Það væri ákveðin tegund af "niðurhali". 

Setja síðan hvatningu inn á facebook undir nafni sérstaks fyrirtækis um þessa starfsemi til að sem allra flestir helst tugir þúsunda, skreppi út á tún á ferðum sínum, mjólki kýrnar og dreifi mjólkinni til sem allra flestra. 

Og segja síðan: "Það getur hver sem er skroppið út á tún og mjólkað kýr sem hann sér." 


mbl.is Taka yfir allan tónlistarrekstur Senu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ekki sagt að hlaða niður, niðurhlað; downloading (e), herunterladen (þ)?

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 29.7.2016 kl. 13:37

2 Smámynd: Steindór Sigurðsson

Já það má endalaust vera með samanburð í þessum efnum. Hvað á t.d. tónlistarmaðurinn að fá oft greitt fyrir einn flutning á einu lagi. Ef lagið er vinsælt og oft spilað á útvrpsstöðvum getur listamaðurinn fengið endalaust borgað fyrir einn flutning á einu lagi. En bóndinn fær bara einusinni borgað fyrir einn líter af mjólk. En ég er ekki að halda því fram að listamaðurinn eigi ekki að fá borgað fyrir sitt.

Ég er ekki með neina "patentlausn" á þessu máli. En staðan virðist vera sú að listamenn standa frammi fyrir þeirri áskorun í dag að laga sig að breyttum aðsæðum og ef þessir ungu drengir finna góða ásættanlega lausn á þessu máli þá verð ég allavega mjóg ánægður.

Ég á t.d. geisladisk með laginu Jón tröll þar sem mér finnst textinn tær snilld. Ég borgaði eitthvert verð fyrir diskinn á sínum tíma og má hlusta á hann eins oft og ég hef tíma til án þess að borga í hvert skipti og fyrir það er ég mjðg þakklátur.

Ómar ég vona fyrir hönd okkar allra að það finnist ásættanleg lausn á þessu máli sem allra fyrst, því mér finnst sanngjarnt að allir fái eitthvað fyrir sinn snúð. Gangi ykkur listamönnum sem allra best að finna góða lausn sem allir geta sætt sig við í framtíðinni.

Steindór Sigurðsson, 29.7.2016 kl. 15:40

3 identicon

Ólöglegt niðurhal er ekki til. Það er bannað að deila efni en niðurhal er löglegt. En baráttuaðferðir höfundarrétthafa snúast að miklu leiti um að hræða fólk, ljúga og blekkja. Og höfundarréttargjaldið innheimt á mjög óheiðarlegan máta sem oft má flokka sem þjófnað. Það er erfitt að finna hjá sér samúð með þjófagenginu sem kallar sig samtök höfundarrétthafa.

Hábeinn (IP-tala skráð) 29.7.2016 kl. 18:47

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Þú mátt hlusta og flytja tónlistina yfir til þín (download), en ekki gera afrit nema fyrir sjálfan þig og þína fjölskyldu.

Fyrir heimild til að afrita til einkanota á tölvudisk hefur þú greitt sérstakt höfundarréttargjald þegar þú keyptir diskinn."

Tónlist á Internetinu - STEF

Steini Briem, 1.11.2015

Þorsteinn Briem, 29.7.2016 kl. 18:58

5 identicon

Grátlega heimskuleg umræða.

Í fyrsta lagi, þá eru engar aðferðir þekktar til að stöðva niðurhal eða afritun á efni. Tæknilega er það ekki framkvæmanlegt. Eina leiðin væri að loka á internetið algerlega, eins og í n-Kóreu, en jafnvel það dygði ekki til. Eitt micro SD kort getur geymt efni af 1500 CD diskum af óþjöppuðu efni. Hvernig ætla menn að reyna að stöðva flutning á slíku?

Í öðru lagi, þá er það hreinasta firra að framleiðendur á efni geti mælt tekjutap með útreikningum byggðum á niðurhali. Megnið af niðurhali er hjá ungu fólki, unglingum og börnum, sem hafa ekkert fé á milli handa til að kaupa efnið, hvort sem það er niðurhalað eða á diskum.

Í þriðja lagi, þá er þetta ekkert nýtt. Fyrir tíð efnis á stafrænu formi, þá var tónlist fjölfölduð á spólur, annað hvort með upptökum úr útvarpi, eða af vínilplötum. Langflestir unglingar áttu segulbandstæki, og oft á tíðum var upptakan eina leiðin til aðgangs að tónlist.

Í fjórða lagi, þá hefur tónlistariðnaðurinn sjálfur séð um að grafa sér gröf. Verðlagning á framleiðslu hefur verið út úr korti. Sem dæmi, þá varð alger framleiðslubylting með tilkomu CD diskana. Framleiðslan varð helmingi ódýrari en á vínilnum, en samt notuðu menn tækifærið og hækkuðu verðið. 

Það athyglisverða í þessu er, að helstu vælendur geta ekki bent á eina einustu raunhæfu aðferð til að stöðva "ólöglegt" niðurhal. Því er rétt að beina því til þeirra, að þeir hugi að verðlagningu og hvar sé hægt að spara í framleiðslu og dreifingu á efni. Kannski að þeir geti með slíkum aðferðum náð samúð neytenda.

Hilmar (IP-tala skráð) 29.7.2016 kl. 19:08

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Píratar eru ekki á móti höfundarrétti en þykir ljóst að uppfæra þarf hugmyndir um hann ef vel á að fara.

Núverandi hugmyndum um höfundarrétt væri ekki hægt að framfylgja á Internetinu nema með því að vega gróflega að réttindum borgaranna.

Það er ólíðandi að fjárhagslegir eiginhagsmunir trompi borgararéttindi og frjáls samskipti, sérstaklega í ljósi þeirrar ótrúlegu framfara, bæði menningarlegra og tæknilegra, sem Internetið hefur fært okkur öllum."

Steini Briem, 4.2.2016

Þorsteinn Briem, 29.7.2016 kl. 19:19

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

18.10.2013:

"Nú, aðeins um frjálst og opið internet, því ég tel mig vita hvað þér detti í hug; að það mætti allavega loka t.d. Deildu.net og ThePirateBay.se eða álíka.

Ég skal hlífa þér við þeim fjölmörgu alvarlegu vandamálum við tæknilega útfærslu og halda mig utan tæknimáls.

Þá spyr ég, hvað með öll hin þúsundin af slíkum vefsetrum, fyrir utan þau sem munu koma í stað Deildu.net og ThePirateBay.se? - Nú, væntanlega þarf að loka þeim líka.

Og hvernig á að fylgjast með þessu? Jú, með því að gera ýmist netþjónustur eða hýsingaraðila eða (í versta falli) ríkið, ábyrga fyrir því að fylgjast með höfundaréttarbrotum.

En nú langar mig að biðja þig um sérstaka athygli, því hér komum við að ástæðunni fyrir því að slíkt fyrirkomulag er ósamhæft við frjálst, opið og lýðræðislegt internet.

Það kostar peninga og vinnu að fylgjast með efni sem fólk setur inn. Facebook, YouTube, Google og Microsoft hafa burði til þess að standa undir slíkum kostnaði, en ekki til dæmis Diaspora eða Wikipedia eða þá ég sjálfur.

Frjáls framtök, þar sem kannski örfáir aðilar standa að vefsíðu sem hundruð milljóna manna hafa aðgang að, hafa enga burði til þess að framfylgja höfundarrétti."

Opið svar til Bubba Morthens - Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata

Þorsteinn Briem, 29.7.2016 kl. 19:38

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Alltaf lærir maður eitthvað nýtt. Nú eru höfundarrétthafar hér að ofan kallaðir þjófagengi fyrir það eitt að vilja fá einhverja greiðslu fyrir afurðir sínar, vinnu og útlagðan kostnað.

Nýjasta auglýsingin frá Deildu.is er ekki um niðurhal heldur áskorun um að sem allra flestir deili sem allra mestu af íslensku efni með þeim afleiðingum sem Jakob Frímann lýsir í viðtali sínu í Fréttablaðinu, afleiðingum sem eru dæmalausar að umfangi meðal annarra þjóða.  

Ómar Ragnarsson, 29.7.2016 kl. 23:26

10 identicon

Ómar, manni gæti fundist það þjófnaður að þurfa borga höfundarrétthöfum sérstakt gjald fyrir það að mögulega gæti maður geymt efni þeirra á geymslumiðli.

Í raunini er ríkið búið að dæma alla þá sem kaupa í dag til dæmis USB minnislykla sem þjófa fyrirfram og sektað okkur til að greiða ykkur bætur fyrir það.

Ert þú tilbúin að segja að allir þeir sem kaupa USB minnislykla séu þjófar?

Elfar Aðalsteinn Ingvarsson (IP-tala skráð) 30.7.2016 kl. 01:45

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Furðu lífseig er sú skoðun, að öll gjöld sem greidd eru til að halda uppi menningu, starfi og þjónustu, feli í sér ofbeldi og jafnvel þjófnað. 

Ég hef áður sýnt hér á síðunni bandaríska náttúrupassann minn, sem ég keypti á ferðalagi um bandaríska þjóðgarða, en á honum standa tvær setningar í orðastað þess, sem kaupir passann:  "Stoltur þátttakandi" (Proud partner) og "Upplifðu þína Ameríku" (Discover your America). 

Hugsunin er sú að eigandi þessa passa sé stoltur þátttakandi í uppbyggingu á verðmætum allra þjóða, - Íslendingurinn hjálpar til við að byggja upp þá Ameríku sem hann á með íbúum landsins.

Hér á landi ætlaði allt vitlaust að verða þegar svipuð hugmynd var orðuð hér: "Niðurlæging", "nauðung", "auðmýking".  

Ómar Ragnarsson, 30.7.2016 kl. 11:12

12 identicon

Ertu ekki að sjá muninn á því að taka viljandi þátt í starfi þjóðgarðana og því að ríkið innheimti gjald af einhverju fyrir þriðja aðila hvort sem þú notir þjónustu þriðja aðilans eða ekki?

Ef mig langar að styrkja menningu þá kaupi ég tónlist, bók, eða fer á einhverja tónleika. Þegar peningurinn er bara tekin af mér og ég fæ ekkert í staðin þá kalla ég það ofbeldi.

Elfar Aðalsteinn Ingvarsson (IP-tala skráð) 30.7.2016 kl. 14:22

13 identicon

Það þætti undarlegt ef innheimt væri sérstakt gjald af hverjum bensínlítra til að bæta leigubílstjórum upp tekjutap sem þeir verða fyrir þegar A skutlar B frítt. Og ef gjald væri lagt á matarolíu sem kartöflubændur fengju fyrir að geta ekki selt heimaræktendum kartöflur. Og ekki yrði Ómar ánægður ef honum væri gert að bæta bensínsölum tekjutapið sem ferðir hans á rafhjólinu hafa kostað þá. Samt þykir Ómari sjálfsagt mál að af tómum diskum og geymslumiðlum sé innheimt höfundarréttargjald.

Skemmist diskur fæ ég ekki annan á kostnaðarverði, ég þarf að greiða höfundarréttargjaldið aftur þó augljóst sé að ég sé búinn að greiða það. Kaupi ég safndisk þá fæ ég ekki að sleppa við að greiða höfundarréttargjald af þeim lögum sem ég sannanlega hef þegar greitt höfundarréttargjald. Og höfundarréttargjald er tekið af útvarpsstöðvum sem lækkar ekkert þó flestir hlustendur hafi keypt diskinn og greitt höfundarréttargjaldið. Ítrekuð innheimta höfundarréttargjalds af fólki sem búið er að borga höfundarréttargjaldið er þjófnaður.

Hábeinn (IP-tala skráð) 30.7.2016 kl. 16:00

14 identicon

Helsta vandamálið fyrir neytendur í núverandi höfundarréttarkerfi er það að landlægu rétthafanir hindra okkur í að nýta alþjóðlegar veitur fyrir tónlist og myndefni.

Ef við hefðum fullt aðgengi að Netflix, Hulu, iTunes og öðrum veitum án pirrandi takmarkana á því hvaða efni er fáanlegt eftir því hvaða landi þú ert í þá mundi óleyfilegt niðurhal minnka allverulega þar sem það er mun einfaldara að kaupa 10$ mánaðaráskrift að efni en að finna það á stað eins og Deildu.

Elfar Aðalsteinn Ingvarsson (IP-tala skráð) 30.7.2016 kl. 18:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband