Brotin loforð, gærnótt, samnemandi og margt fleira.

Nú á dögum þykir fólki broslegt hver mikil áhrif danska hafði á íslenskt mál á 19. öld. 

Nú eru þau áhrif horfin en ensk áhrif sækja æ meira á. 

Engu er líkara en að ungt fólk kunni ekki einföldustu atriði og orð í íslensku máli. 

Þannig hefur jafnan verið talað um svikin loforð á íslensku, en það er eins og ungt fólk viti þetta ekki, heldur vilji þýða beint úr ensku og tala um brotin loforð. 

Íslenskan hefur verið með ágæta tímaröð á þeim tíma sem er næstur okkur. 

Hún er þessi ef talið er afturábak: Í dag, í nótt, í gær, í fyrrinótt. 

En enskan er í vandræðum þegar komið er aftur fyrir gærdaginn: "The day before yesterday" þegar á íslensku er einfaldlega sagt "í fyrradag."

Og í raun er orðið gærnótt vandræðalegt og algerlega óþarft, því hvort er gærnótt síðasta nótt eða fyrrinótt, hvort er það nóttin fyrir gærdaginn eða eftir gærdaginn?

Nú má alveg búa sig undir að svipað gerist fram í tímann. Í stað þess að segja "aðra nótt" verði sagt "morgunnótt" sem yrði alveg hliðstæða "gærnæturinnar." 

Tökum aðra vandræðabreytingu málsins: 

Íslenskan býr yfir átta orðum sem hægt er að nota um allar tegundir af tengslum nemenda.

Við höfum átt skólafélaga, skólasystur, skólabræður, skólasystkin, bekkjarfélaga, bekkjarsystkin, bekkjarbræður og bekkjarsystkin.

Málið gefur altæka möguleika til þess að orða nákvæmlega tengsl nemenda. 

 

En nú virðist brýn nauðsyn að breyta þessu, - því að það virðist unnið markvisst af því á fjölmiðlum að eyða öllum þessum orðum og nota ólánsorðið samnemandi í staðinn.

Í hádeginu æstkomandi föstudag ætla ég að hitta bekkjarsystkín mín úr 6. bekk MR frá árinu 1960, en ef enskan heldur áfram eyðingarferðalagi sínu um íslenskan orðaforða, ætla ég að hitta samnemendur mína, þótt ég hafi aldrei verið kennari þeirra.

 

Því að hvernig gengur það upp að hitta þessa tegund af nemendum sínum án þess að hafa verið kennari þeirra? 


mbl.is Gjalda með blóði fyrir brotin loforð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Dönskuslettur voru margfalt fleiri í íslensku en enskuslettur eru nú.

Og íslenskan er langt frá því að deyja út.

Nýjar slettur koma í tungumálið en aðrar falla út og nýyrði eru smíðuð.

Danir og Englendingar myndu nú ekki skilja mikið í þessari bloggfærslu.

Sem blaðamaður þurfti undirritaður hins vegar að þýða yfir á skiljanlega íslensku allt hrognamálið sem kom fram í sumum fréttatilkynningum íslenskra ráðuneyta.

Þorsteinn Briem, 28.8.2016 kl. 19:05

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

29.12.1998:

"Orðin sem hún skráði sem dönskuslettur í íslensku voru 3.500.

Úir og grúir af dönskuslettum í daglegu máli."

Hvað er dönskusletta og hvað íslenska?

Þorsteinn Briem, 28.8.2016 kl. 19:06

3 identicon

Í þýsku er einnig sagt að brjóta loforð; "ein Versprechen brechen."

Aphorism: "Versprochen ist versprochen, und wird auch nicht gebrochen“.

Mér finnst fallegt að tala um "að standa við gefið loforð, standa ekki við gefið loforð."

Bekkjabræður, bekkjasystur heita á þýsku; Mitschüler. Fallegt orð.

Samnemandi er hallærislegt.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 28.8.2016 kl. 21:21

4 identicon

Hvernig er réttara að kalla óskylda aðila bræður eða systur frekar en samlanda, samnemendur eða samverkamenn? Ætli rafbíll, eða hjól, sé búið til úr rafi? Raf er steingerð trjákvoða en ekki rafmagn. Eru orðin sem mynda orðskrípið túrbínutrix íslensk? Það eru fleiri en unga fólkið sem fara frjálslega með tungumálið. Tungumálið hefur einn tilgang, og hann er ekki sá að vera steinrunnin forngripur óbreyttur frá æsku Ómars.

Hábeinn (IP-tala skráð) 28.8.2016 kl. 22:52

5 Smámynd: Már Elíson

Svokallaður "hábeinn"....Níddu Ómar niður eins og þú mögulega getur. - Reyndu að drullast til að taka málefnanlega (ef þú kannt og getur) á því sem þessi ágæta grein hans fjallar um, en ekki að ráðast með hatri að vopni á síðuhafa sí og æ. - Meiri haugurinn sem þú alltaf ert...Hver sem þú ert.

Már Elíson, 29.8.2016 kl. 22:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband