Vilji er allt sem þarf og þá fylgja árangur og ánægja á eftir!

Ef litið er til samgangna á landi á jörðinni, kemur í ljós að þrátt fyrir stóraukið flug og siglingar eru hið daglega og hversdagslega snatt og borgarumferð lang stærsti þátturinn í útblæstri gróðurhúsalofttegunda og mengandi efna. NSU-Prinz aftan

Þar að auki skapar vaxandi bílaumferð stórfelldar umferðartafir sem krefjast firna dýrra lausna í formi akbrauta, mislægra gatnamóta og bílastæða. 

Þetta hefur komið margoft fram hér á síðunni en alveg þangað til núna hefur skort á hjá mér að fylgja þessu eftir sjálfur svo verulega munaði um það, og sem allra fyrst.  

En án þess að gera sjálfur svo að um muni það, sem verið er að hvetja aðra til að gera, verður málflutningurinn veikari.Renault Twizy 

Að vísu var fyrsti bíllinn minn árið 1959 minnsti, ódýrasti, sparneytnasti og umhverfisskásti bíll á landinu. Allan tímann síðan hef ég leitast við að nota helst slíka bíla til persónulegra þarfa, en af fjölskylduástæðum á tímabili og vegna starfa á vettvangi, sem krafðist öflugri bíla, var árangurinn ekki eins augljós og hann hefði getað verið.

Ég hef að vísu ekið sem mest á minnstu bílum landsins, en ekki haft efni á því lengst af að hafa þá sem allra nýjasta. power-roller-atlas

Fyrir tveimur árum gerði ég tilraun til að fá mér "rafbíl litla mannsins", Renault Twisy, en hafði ekki bolmagn til þess. Kannski tekst það síðar eða þá að flytja inn rafhjól, sem er aðeins ódýrara en kemst allt að 155 kílómetra á hleðslunni. 

Það var fyrir hreina tilviljun að ég datt niður á lausnina: Ég var að reyna að selja illseljanlegan bíl á bílasölu á Akureyri, þegar mér bauðst að skipta á honum og nýju rafreiðhjóli, sem kostaði 250 þúsund krónur.

Ég gerði það og ætlaði að selja hjólið hér fyrir sunnan af því að síðan ég hætti að hjóla á reiðhjóli 19 ára gamall, hafði ég smám saman fyllst af alls konar fordómum í garð hjólreiða.

Vegna anna dróst það í heilan vetur að ég gæti hjólað á hjólinu til þess að tryggja að það væri í lagi, þannig að þegar til átti að taka var rafgeymirinn orðinn nær ónýtur vegna notkunarleysis.Náttfari við Engimýri

Hjólið var því óseljanlegt og ekki annað að gera en að sjá hvort hægt væri að lagfæra þetta.

 

Það tók nokkrar vikur í að reyna að auka drægi geymisins og á þeim tíma uppgötvaði ég, að alls kyns fordómar varðandi veður og fleira gagnvart svona hjólum höfðu brenglað sýn mína á þau.

Ég var síðan svo heppinn að detta niður á algeran snilling á þessu sviði, sem tókst að gera hjólið að fyrirtaks fararskjóta sem ég hef notað síðan allt árið í hverri einustu viku ef undan eru skildar nokkrar vikur, sem ég varð að halda að mestu kyrru fyrir eftir tvenn beinbrotaslys. DSCN7958 (1)

Til að sýna fram á og sanna hina gríðarlegu umhverfislegu kosti svona farartækja var farið í fyrrasumar á rafhjólinu Sörla eingöngu fyrir rafafli þess sjálfs frá Akureyri til Reykjavíkur á innan við tveimur sólarhringum með orkukostnaði upp á samtals 115 krónur og 0 grömm í útblástur.  

 

Ódýrustu rafhjólin sem hvorki þurfa tryggingu, skráningu né opinber gjöld, hafa hins vegar þann galla, að þau fara hægar yfir en bílar og eru of hægfara fyrir flesta á lengri leiðum.

Eftir mjög ítarlega könnun á gervöllum flota rafhjóla og vélhjóla heimsins, datt lausnin upp í fangið á mér:  Honda PCX. Léttir, við Mývatn

Léttvélhjól, vespuhjól með 125cc bensínhreyfli. Eyðsla: 2,2 - 2,5 l./ 100 km og hámarkshraði yfir 90 kílómetra hámarkshraða hér á landi.

Nú er ég að nálgast 5000 kílómetra akstur á því um allt land á þremur mánuðum, þar af tæplega 3000 kílómetra úti á landi og sýnt var fram á kosti hjólsins í ágúst sl. með því að aka því á þjóðvegahraða frá Reykjavík til Akureyrar á 9 lítrum af bensíni upp á um 1900 krónur, halda síðan áfram hringinn og fara hann á brúttó 31 klukkstund með innifalin tvo stopp upp á samtals 9 klst auk stoppa til að taka bensín, ljósmynndir og kvikmyndir og setja inn á blogg og facebook.

Eldneytiskostnaður 6300 krónur fyrir 32 lítra. 

Nokkrar staðreyndir með samaburði við bíl konu minnar, sem er sá ódýrasti, einfaldasti og minnsti sem völ er á hér á landi:  

Eyðsla: 2,2 - 2,5 l./100 km,  þriðjungur af eyðslu bílsins.. 

Hámarkshraði vel yfir hámarkshraða á þjóðvegum. Sami hraði.

Þyngd: 130 kíló. 230 kíló með ökumanni, fjórðungur af þyngd bíls með ökumanni.

Verð: 450 þúsund krónur, bíllinn fjórum sinnum dýrari.

Viðhaldskostnaður og fjárfestingarkostnaður brot af því, sem kostar að eiga og raka bíl, einn strokkur á móti þremur/fjórum, tvö hjól í staðinn fyrir fjögur, getur staðið þversum í bílastæði fyrir framan eða aftan bíl.

Aldrei vandræði með stæði, aldrei vandræði í umferðarteppum, alltaf fljótara innanbæjar, tekur fimmtung af rými minnstu bíla á malbikinu.

Verður að vísu ekki notað eins mikið á tímabilinu desember-mars eins og rafreiðhjólið eða bíll, en samt er heildar ávinningurinn mjög mikill:  70% minnkun útblásturs í persónulegum notum mínum og margfaldur sparnaður.

Þetta er hægt!  Vilji er allt sem þarf, og þá fylgir ánægjan á eftir!  

 

P.S. Hjólið eða hjólin eftir atvikum eru notuð samhliða notkun bíls. Í mínu tilfelli bíls, sem er sáralítið ekið og þarf ekki að vera nýr eða kosta mikið. 

 


mbl.is Parísarsamkomulagið of veikburða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ertu ekki sammála mér í því að eyðsla hjólsins er þriðjungur af eyðslu bílsins?

Sé eitthvað þrefaldað hlýtur það að vaxa. Því getur ekkert verið þrefalt minna, jafnvel þótt eitthvað geti verið þrefalt meira.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 17.11.2016 kl. 09:32

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jú, ég er sammála því, og breyti þessu að sjálfsögðu. Þarna læt ég algenga málvenju glepja mig. Takk fyrir. 

Ómar Ragnarsson, 17.11.2016 kl. 10:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband