Móðuharðindi raunhæfari kostur?

Skáldsagnahöfundar og kvikmyndagerðarmenn þurfa oft að velja á milli þess, sem er raunverulega mögulegt og þess að fara út fyrir þann ramma. 

Kvikmyndin Ófærð hafði einn stóran kost: Hún var vel innan þess ramma, sem getur gerst hér á landi, þótt útlendingum kunni að þykja þær aðstæður framandi. 

Ef hugmynd Baltasars Kormáks um afleiðingar Kötlugoss byggist á því að Katla gjósi samfellt í tvö ár er hins vegar frekar farið út fyrir rammann en ef notuð er miklu magnaðri og stærri sviðsmynd, sem fellur inn í ramma fyrra goss, Skaftáreldanna 1783, því að þeir náðu að valda meiri usla í þjóðlífi okkar og þjóða í þremur heimsálfum en nokkurt annað íslenskt gos, og stóðu þó aðeins í nokkra mánuði.

Milljónir manna í Evrópu, Afríku og Asíu fórust vegna þess goss auk fjórðungs íslensku þjóðarinnar og meira en 70 prósenta bústofns landsmanna. Kuldaskeið næstu ár á eftir, af völdum móðunnar, var meðal þess sem skóp jarðveg fyrir frönsku byltinguna. 

Kötlugos á sögulegum tíma hafi hins vegar ekki staðið lengur en í nokkrar vikur eða mánuði. 

En auðvitað er erfitt, jafnvel fyrir vísindamenn, að fullyrða neitt um þetta. 

Þannig stóð gosið í Heimaey aðeins í nokkra mánuði, en Surtseyjargosið stóð hins vegar í þrjú og hálft ár og var þó á sama eldvirka svæðinu og Heimaey.

Ef Heimaeyjargosið hefði komið á undan Surtseyjargosinu, hefði engum dottið í hug að Surtseyjargosið yrði átta sinnum lengra.  

Hegðun Heklu hefur verið allt önnur síðustu áratugi en í allri byggðarsögu landsins, mun tíðari en í þúsund ár á undan, en hvert gos öllu minna en áður var.  

Nú hefur Hekla allt í einu tekið upp á því að í staðinn fyrir að gjósa á um það bil tíu ára fresti, 1970, 1980-81, 1991 og 2000, hefur hún dregið að gjósa síðustu 17 árin. 

Vitað er um óhemju þykkt öskulag sem féll mörgum árþúsundum fyrir landnám Íslands, og hefði valdið miklum usla á okkar tímum.  Enginn veit að vísu hve lengi það gos stóð, og kannski fer Baltasar skemmra út fyrir rammann ef hann gerir frekar ráð fyrir mesta öskufalli síðari árþúsunda heldur en langdregnu gosi. 

En sá á kvölina sem á völina, í þessu tilfelli höfundur kvikmyndahandritsins. 

 


mbl.is Baltasar með spennuþætti um Kötlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband