Sagan úr Kalda stríðinu endurtekur sig.

Árið 1948 áttu Bandaríkjamenn um 50 kjarnorkusprengjur, einir allra þjóða. 

Ég minnist enn þeirrar undrunar og áfalls, sem fréttin um fyrstu kjarnorkusprengingu Rússa olli hjá vestrænum þjóðum, og áttu margir erfitt með að trúa því hve fljótir Rússar voru að ná tökum á þessari tækni. 

Barn að aldri skynjaði ég þann ótta við þriðju heimsstyrjöldina sem átti eftir að ríkja næstu 43 ár. 

En þarna hófst harðvítugt kjarnorkuvopnakapphlaup sem skilaði að lokum 1500 kjarnorkuvopnum í hlut Bandaríkjamanna og 1500 í hlut Rússa.

Í Kóreustríðinu vakti undrun, að Mig-15 orrustuþota Rússa var miklu liprari en Sabre-þotur Kananna. Það var aðeins miklu betri þjálfun bandarísku flugmannanna, sem gat jafnað metin. 

1957 kom enn stærra áfall fyrir vesturveldin, Sputnik, fyrsti gervihnötturinn, og Rússar höfðu tekið forystu í gerð eldflauga, sem gætu borið kjarnaorkusprengjur um langan veg.  

Á næstu áratugum stóðu sumar orrustuþotur Rússa þeim bandarísku lítt að baki. 

Síðan hrundu Sovétríkin og næsta aldarfjórðung voru Bandaríkin eina risaveldið. 

Í öllu Kalda stríðinu stóðu Sovétríkin langt að baki Bandaríkjunum sem efnahagsveldi. 

Að lokum ofkeyrðu Rússarnir sig og höfðu ekki efnahagslega getu til verja jafn miklum hluta þjóðarframleiðslunnar til vígbúnaðar og þurfti til að standast Könunum snúning. 

En aldarfjórðungi síðar er komið fram kommúnistaríki, að vísu einkavætt í bland, sem er orðið næst stærsta efnahagsveldi veraldar og hefur því miklu meiri möguleika en Sovétríkin höfðu til þess að nálgast vesturveldin á sviði hernaðar og hernaðartækni. 

Það er ekki langt síðan ég sá nokkrar sjónvarpsmyndir sem lýsa því sem er í pípunum hjá Kínverjum og á eftir að velgja vesturveldunum undir uggum. 

Sagan úr Kalda stríðinu endurtekur sig hvað þetta snertir. 


mbl.is Mikil þróun í hernaðarframleiðslu Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband