Hressandi hreyfing og útivera fyrir flesta. Sópurinn er bestur.

Eftir nokkurra áratuga reynslu af snjómokstri til að komast að bílum, opna þá og aka í burtu, hefur venjulegur heimiissópur eða kústur reynst best fyrir bakveikan mann eins og mig. 

Í morgun var svo mikill púðursnjór (lausamjöll, sjá athugasemdir) að það auðveldaði stórlega að nota kústinn. 

Snjórinn var það djúpur, að hann náði upp fyrir háa vélhjólaskó, og þá var nóg að sópa efri hluta snævarins burtu og láta fæturna um afganginn. 

Enn betri er sópurinn við að sópa snjó ofan af bílunum og af gluggum hans, áður en farið er með rúðusköfur til að fullkomna verkið. 

Í dag bættust góð áhrif sólarljóssins við hressandi hreyfingu og útiveru. 


mbl.is Fleiri fá fyrir hjartað í snjómokstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Segir þú líka púðursnjór, gamli veðurfræðingur!? 
Mér skilst að þetta hafi heitið lausamjöll í þínu ungdæmi en aðeins börnin talað um púðursnjó.

En nú tala auðvitað allir barnamál, jafnt alnir sem ungir...

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 26.2.2017 kl. 18:08

2 identicon

Á þýsku er sagt "Pulverschnee", á ensku "powder snwo". Ég kannast hinsvegar ekki við orðið púðursnjór þar sem ég er fæddur og uppalinn á Húsavík.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 26.2.2017 kl. 19:01

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Aftur hann er orðinn barn,
óður skefur rúður,
ekkert fyrir hálku og hjarn,
hann vill barnapúður.

Þorsteinn Briem, 26.2.2017 kl. 19:57

4 identicon

Snjall, Steini Briem.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 26.2.2017 kl. 20:13

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ja, mikill þó andskoti, Torfi, - þarna varð mér heldur betur á í messunni. 

Leita skýringar og finn hana sem áhrif frá óteljandi ferðum með jeppamönnum í jöklaferðum, þar sem orðið "púðursnjór" hefur rutt sér til rúms, ekki aðeins sem snjór á yfirborðinu, heldur líka sem algengt fyrirbrigði, sem felst í því að efsta lagið á jöklinum, er nokkuð þéttur snjór, sem hefur barist saman í skafrenningi, en undir honum er hins vegar lausamjöll, sem þungu bílarnir sökka oft ofan í og festa sig, en létta Súkkan mín, er með það miklu grynnri hjólför, að dekkin ná ekki að komast niður í lausamjöllina. 

"Lausamjöll í skógi skefur" segir í kvæði Gríms Thomsens um Arnljót Gellini, en sá skafrenningur myndar greinilega ekki þéttan snjó eins og er svo algengt á íslensku jöklunum. 

Þess vegna hefur orðið "púðursnjór" sennilega rutt sér til rúms hjá jöklajeppamönnum, - það er munur á lausamjöllinni sem hefur barist saman efst á yfirborðinu og mjöllinni, sem er líkust hveiti eða púðri þar undir. 

Ómar Ragnarsson, 27.2.2017 kl. 00:07

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Aðeins nánara: Ég minnist þess hve ég varð hissa, þegar ég kynntist fyrst þessu jöklafyrirbæri, því að tilsýndar sýndist skafrenningurinn hljóta að mynda laust yfirborð, en síðan kom í ljós að það var öfugt. 

Börn og barnamál koma þessu ekkert við. Engin börn hafa notað orðið púðursnjór í mín eyru, heldur rígfullorðnir og þrautreyndir fjallamenn. 

Ómar Ragnarsson, 27.2.2017 kl. 00:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband