Æ, hvaða óheppni að hafa ekki skotið Írani.

Nýr blær er að færast yfir viðburði og frásagnir af þeim síðustu misserin eins og sést á tengdri frétt á mbl.is.

Æ, hvaða óheppni að hafa skotið óvart tvo Indverja í stað tvo Írana eins greinir frá í þessari frétt af byssumorði í Bandaríkjunum fyrir um viku, sem annars hefði líklega farið hljótt.  

Því að ef Íranir hefðu verið skotnir og hrópað upp: Ég vil ekki hafa þessa menn í landinu mínu!" hefði þetta aldrei orðið neitt mál og ummmæli morðingjans eftir á: "Ég skaut einhverja Írana" hefði bara orðið í ágætu samræmi við það að "losa sig við hættulegt fólk, sem ógnar öryggi Bandaríkjamanna."

Því að það er ógn við öryggi fólksins að hættulegir Íranir sitji vopnlausir við bar. Það sjá allir.  

Eitt hafðist þó upp úr á skjóta Indverjana, því að í ljós kom að þeir störfuðu fyrir GPS-fyrirtæki og tóku þar með störf frá sönnum Bandaríkjamönnum. 

Orðið "óvart" í fyrirsögn fréttarinnar rímar ágætlega við hugsunarháttinn að baki þessu einu af tugþúsundum árlegra skotvopnamorða í Bandaríkjunum, sem framin eru í samræmi við þá hugsjón hve þarft það er að 250 milljónir skotvopna og helst fleiri séu í landinu til þess að vernda stjórnarskrárbundinn rétt til "sjálfsvarnar" gegn fólki, sem ógnar örygginu almennings.

En árans óheppni að hafa ekki skotið Írana í stað Indverja. 

Fyrir 80 árum voru rúður brotnar í búðum Gyðinga í einu af löndum Evrópu og þeim misþyrmt eða þeir jafnvel drepnir, án þess að hvert atvik um sig teldist frétt. 

Þá var talsvert lagt upp úr því að Gyðingar og eigur þeirra væru merktar, svo að síður kæmi fyrir að þeir, sem urðu fyrir þessum árásum, væru ekki Gyðingar.

En í þeim tilfellum, sem samt hefðu verið gerð "mistök" með því að drepa óvart til dæmis Araba hefði það gilt, að það hafi verið óheppni að þetta voru ekki Gyðingar. En stærra orð en "óvart" hefði ekki verið talin þörf á að viðhafa um þessi "mistök."

Í hryðjuverkum öfga múslima í Evrópu hin síðari ár hefur vafalítið múslimatrúar fólk verið meðal þeirra, sem lágu í valnum. Og hryðjuverkamenn hafa þá bara yppt öxlum og sagt. "Æ, hvaða óheppni var það að drepa óvart múslima í staðinn fyrir kristna." Ef þeir hafa þá haft fyrir því að harma nokkurn hlut. 

Já, svona er heimurinn í dag myndi Jón Ársæll líklega orða þetta. Og sumir virðast bara nokkkuð ánægðir með hina breyttu tíma.  

 


mbl.is Ætlaði að drepa Írana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Óheppni fyrir Indverjana held ég að ekki sé hægt að draga í efa.

Glæpurinn hins vegar sá sami.

Við hér sem erum alin upp við annað hugarfar og hugsanarhátt en Bandaríkjamenn verðum hins vegar að gæta þess að ala ekki á fordómum gagnvart þeim, þó við skiljum ekki alltaf hvað þeir eru að hugsa. Þeir eru ekki verra fólk þó það hugsi öðruvísi.

ls (IP-tala skráð) 28.2.2017 kl. 08:32

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Konan mín ekur á bíl, sem er framleiddur á Indlandi. Æ, hvaða óheppni að hann skyldi ekki vera framleiddur hjá frændum okkar í Svíþjóð. 

Ómar Ragnarsson, 28.2.2017 kl. 08:54

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Við hér sem erum alin upp við annað hugarfar og hugsunarhátt en múhameðstrúarmenn verðum að gæta þess að ala ekki á fordómum gagnvart þeim, þó við skiljum ekki alltaf hvað þeir eru að hugsa.

Þeir eru ekki verra fólk þó það hugsi öðruvísi.

Þorsteinn Briem, 28.2.2017 kl. 12:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband