Endalaus mál: Skortur á aðgengi - sókn risa háspennulína um allt land.

Oftast er vitnað í lög og reglugerðir um aðgengi fatlaðra, þegar það ber á góma, en þrátt fyrir þennan bókstaf kemur endalaust í ljós að honum er ekki fylgt. Báráttan fyrir því að þetta sé í lagi er endalaus. 

En fleira er það sem linnir aldrei. 

Í kvöld var frumsýnd heimildamynd Ólafs Rögnvaldssonar "Línudans" í bíó Paradís, en hún fjallar um hina endalausu baráttu við virkjana-, stóriðju- og mannvirkjafíkla, sem eru óstöðvandi.

Myndin er vel heppnuð og varpar ljósi á eðli hinnar endalausu ásóknar á hendur náttúru landsins og sýnir einnig á lýsandi hátt samskipti valdamikilla, fjársterkra og ágengra manna við alþýðufólk, sem rís gegn ofríki hinna sterku. 

Málið, sem fjallað er sérstaklega um, hófst ósköp sakleysislega fyrir níu árum, þegar það var kynnt sem nánast frágengnum hlut að "endurnýja byggðalínuna" frá Blönduvirkjun og austur um Norðurland.

Þetta átti að vera gert til að "tryggja afhendingaröryggi til almennings."  

Í ljós kom, að línan var eingöngu ætluð til að flytja rafmagn til stóriðjuveranna, sem eru ær og kýr virkjana- og mannvirkjafíkla. 

Allt hefur málið verið á eina bókina lært.  Dæmi:  Þegar knýja átti á í krafti upplýsingalaga að fá afhenta mikilsverða skýrslu hjá Landsneti varð svarið hið sama og við höfum séð í hliðstæðum tilfellum upp á síðkastið:  Hún var týnd. 

Í myndinni koma framtíðaráformin risavöxnu vel fram, þótt þarna snúist málið aðeins um hluta þess, því að ætlunin er að reisa risalínur þvers og kruss um 300 landareignir og 300 vernduð svæði hringinn í kringum landið og um þvert hálendið þar að auki.

Það er ekki á allra vitorði hve víða þessi risa Blöndulína 3 mun sjást, en nefna má það að hún á að liggja þvert yfir syðri hluta Skagafjarðarhéraðs og síðan með þjóðleiðinni um Norðurárdal, Öxnadalsheiði, Öxnadal fram hjá Hrauni með Hraundranga í baksýn og þvert á milli fjalla rétt sunnan við Akureyri. Svona línur eru með 20 metra háum möstrum.  

Það á að ulla á "smávini fagra" á slóðum Jónasar. 

Of langt mál væri að telja upp allar þær blekkingarnar og brögðin, sem hafðar hafa verið í frammi í þessum málum. Vonandi eiga sem flestir eftir að sjá þessa mynd.

Kær þökk fyrir að hún skyldi hafa verið gerð.   


mbl.is „Vorum vægast sagt í sjokki“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband