"Það þarf nú ekki mikið til, - þetta er ekki íþrótt."

Það hefur lengi loðað við að felldir eru sleggjudómar um íþróttagreinar og gert eins lítið úr þeim og iðkendum þeirra og mögulegt er. Nokkur dæmi: 

1. Það er fráleitt að kalla akstur bíla íþrótt, - er nú enginn vandi að sitja í þægindum undir stýri á bíl og dangla eitthvað í það með hendinni. 

2. Það er nú ekki mikil reisn eða vandi fólginn í því að sitja hreyfingarlaus á hesti. 

3. Það telst nú ekki íþrótt að sötra bjór í golfskálum, rölta um grasbletti og dangla í hvítar kúlur með járnstöngum. Golf er deyjandi íþrótt og frekar tómstundariðja en íþrótt, var íþrótt efnaðs fólks í upphafi og hið besta mál að hún deyi út. 

 

Sjálfur þekkti ég vel efstu fullyrðinguna frá þeim tíma þegar ég tók þátt í ralli. Þegar ég bað sleggjudómarana um skýringar á því, að í þriggja daga ralli þurfti maður að vera með hanska á höndunum til þess að stýrið nagaði sig ekki í gegnum húðina, varð fátt um svör. 

Með fullyrðingu númer 2 er verið að segja, að hjá íþróttamanni ársins á sinni tíð, Sigurbirni Bárðarsyni, hafi ekkert legið að baki hjá honum. 

Um númer 3 er það að segja að golfvellir og golfklúbbar skipta mörgum tugum á Íslandi og félagar mörgum þúsundum, og að 4000 erlendir ferðamenn borguðu sig inn á þessa golfvelli 2016. Fjölgaði um meira en helming frá árinu áður. Bestu kylfingar slá kúluna í upphafshöggi hátt í 400 metra. Enginn vandi, - hvað ræfill sem er getur gert þetta. Á að miða gildi íþróttarinnar við efnahagsástandið fyrir meira en öld?  

Hvaleyrarvöllur er meðal 15 bestu golfvalla á Norðurlöndum að mati sérfræðinga. Norðurlönd njóta sérstakrar hylli fyrir þau hundruð, ef ekki þúsundir golfvalla, þar sem hægt er að upplifa það að leika golf í stórbrotinni náttúru um miðja nótt. 

Burt með svona íþrótt segja menn samt hiklaust og telja sig búa yfir þekkingu sem réttlæti slíkar fullyrðingar. 


mbl.is Stefnt að einföldun á golfreglum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Nei, það er sko enginn vandi að sitja á hesti. Það hef ég reynt. Maður verður bara að passa sig á að koma ekki við bensíngjöfina á þeim sem getur verið viðkvæm. Það hef ég líka reynt og þá var það eina ráðið að keyra gripinn út í snjóskafl og festa hann þar.

Jósef Smári Ásmundsson, 2.3.2017 kl. 14:41

2 identicon

"Gunnar sigraði andstæðinginn með því að koma honum í gólfið og berja hann ítrekað í andlitið með olnbogunum". 

Þetta er lýsing á einni "íþróttinni".

Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 2.3.2017 kl. 16:00

3 identicon

Persónulega tel ég að hægt sé að kalla nær allt íþrótt sem hægt er að keppa í. Ég dreg þó línuna við það þegar heimilt er að drepa andstæðinginn eins og í hnefaleikum og þegar fyrirtæki á "íþróttina" eins og CrossFit. Margir draga ekki neinar línur, draga þær annarstaðar eða miða við blöðrur í lófa. Ekki er til nein algild skilgreining á íþrótt og því verður það ætíð persónubundið og ekkert eitt rétt í því hvað kalla má íþrótt. Pönnukökubakstur er skemmtileg íþrótt.

Hábeinn (IP-tala skráð) 2.3.2017 kl. 16:52

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Íslensk nú er íþrótt mörg,
ef við bara könnum,
undir liggur Ingibjörg,
afar mörgum mönnum.

Þorsteinn Briem, 2.3.2017 kl. 17:14

5 identicon

Undir blaktandi fánum og herlúðrum hvellum og gjöllum
sig hópaði þjóðanna safn,
þangað fór og af Íslandi flokkur af keppendum snjöllum
og fékk á sig töluvert nafn:
í þeirri íþrótt að komast aftur úr öllum
var enginn í heimi þeim jafn.       Jón Helgason kvað.

Höddi (IP-tala skráð) 2.3.2017 kl. 19:55

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Banaslys og alvarleg slys eru ekki fleiri í hnefaleikum en í öðrum íþróttum, til dæmis skíðaíþróttum, hestaíþróttum, handbolta eða knattspyrnu.

Enn hefur enginn verið drepinn í hnefaleikum hér á landi en hins vegar bæðí í knattspyrnu, skíðaíþróttum og hestaíþróttum.

Samkvæmt skilgreiningu Hábeins hafa handboltamenn og knattspyrnumenn leyfi til að drepa andstæðingana.   

Ómar Ragnarsson, 2.3.2017 kl. 20:32

7 identicon

Handboltamenn og knattspyrnumenn hafa ekki leyfi til að drepa andstæðingana en það hafa hnefaleikamenn. Hnefar hnefaleikamanna flokkast sem vopn utan hringsins.

Það kallast ekki slys að berja mann til dauða. Og fjöldi skiptir ekki neinu máli. Færri drepast vegna stríðsátaka en reykinga, það þýðir ekki að stríðsátök séu ásættanleg vegna þess að reykingar séu leyfðar. Fleiri láta lífið í umferðarslysum en í hryðjuverkaárásum, það gerir hryðjuverkaárásir ekki æskilegri en akstur.

Mannlegt eðli er undarlegt og þeir eru jafnvel til sem ánægju hafa af því að horfa á alvöru aftökur. En ég get ekki flokkað það heldur sem íþrótt þó fleiri drepist við fjallgöngur.

Eins og margir aðrir þá hef ég gaman af því að horfa á hnefaleika. En ég sé hnefaleika sem skemmtun en ekki íþrótt. Rétt eins og ofbeldisfullar bíómyndir.

En hvaða athafnir fólk flokkar sem íþrótt er einstaklingsbundið og segir meira um einstaklinginn en athöfnina.

Your Chances of Dying

Hábeinn (IP-tala skráð) 2.3.2017 kl. 22:48

8 identicon

Enn hefur enginn verið drepinn í hnefaleikum hér á landi en hins vegar bæðí í knattspyrnu, skíðaíþróttum og hestaíþróttum.

Ef einhver hefur verið drepinn í þessum íþróttum flokkast það ekki undir sakamál,að drepa einhver  er sakamál

vow (IP-tala skráð) 3.3.2017 kl. 22:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband