Furðufyrirbæri, pólitísk jarðsprengja og því aflagt í frumvarpi stjórnlagaráðs.

Þegar ég var í lagadeild Háskólans fyrir 55 árum undraðist ég og fleiri laganemar ákvæðin um landsdóm í stjórnarskránni og fannst þau furðuleg, því að í því ferli, sem þar var stillt upp, var Alþingismönnum gert að greiða atkvæði um ákærur hverjir á hendur öðrum, sem gætu orðið til sakfellingar og refsingar. Slíkt væri ekki líklegt til góðs árangurs í okkar litla þjóðfélagi.

Eftir því sem árin liðu varð ég æ fráhverfari því að hafa ætti þetta ákvæði eins og einskonar miltisbrand í stjórnarskrá, sem gæti vaknað upp og valdið óskunda hvenær sem væri.

Aðrir töldu að þetta gerði ekkert til frekar en sumt annað forneskjulegt í stjórnarskránni, - þessu hefði aldrei verið beitt og komin væri hefð fyrir því. En hvers vegna þá að hafa ákvæði í stjórnarskrá ef því yrði aldrei beitt?  

Alþingi er vinnustaður, þar sem þingmenn ólíkra flokka verða oft sessunautar árum saman og samstarfsmenn og vinir, þrátt fyrir ólíkar skoðanir, og aldeilis undarlegt ef menn héldu að það yrði til góðs að þeim væri att saman með lögboði til að berast á pólitískum og sakamálalegum banaspjótum. 

Í umræðum hjá stjórnlagaráði var rætt fram og aftur um þetta sérkennilega ákvæði sem mér fannst ekki ganga upp og mælti gegn.

Niðurstaðan varð sú að styrkja frekar önnur almenn ákvæði stjórnarskrár um ábyrgð stjórnmálamanna og embættismanna heldur en að hafa áfram þá jarðsprengju eða miltisbrand í stjórnarskrá, sem ákvæðið forna um landsdóm var og er raunar enn, því miður. 

Ýmislegt fleira er í núverandi stjórnarskrá, sem hefur lengi þurft að lagfæra, en Alþingi, þrátt fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu 2012, heldur áfram við lýði í öþökk þess drjúga meirihluta þeirra, sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni og kröfðu Alþingi um umbætur fyrir bráðum fimm árum. 


mbl.is Vill leggja landsdóm af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, var dæmdur af Landsdómi, til að mynda hæstaréttardómurum, fyrir brot á stjórnarskránni.

Og Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, ætti að sjálfsögðu ekki að þurfa að segja lögfræðingnum Bjarna Benediktssyni að breyta þurfi stjórnarskránni til að hægt sé að leggja niður Landsdóm.

"Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, telur rétt að "setja strax af stað vinnu við að breyta lögunum.""

"14. gr. Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál."

Stjórnarskrá Íslands


Lög um Landsdóm nr. 3/1963


Lög um ráðherraábyrgð nr. 4/1963

Steini Briem, 30.6.2013

Þorsteinn Briem, 6.3.2017 kl. 07:36

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ráðherrar fara með æðstu miðstjórn innan stjórnsýslunnar og fara í reynd með það framkvæmdavald sem forseta Íslands er formlega veitt í stjórnarskránni.

Þeir bera ábyrgð á öllum stjórnsýsluathöfnum í þeirra eigin ráðuneytum samkvæmt stjórnarskránni og lögum um ráðherraábyrgð nr. 4/1963.

Ríkisstjórnin tekur hins vegar sameiginlegar ákvarðanir á ráðherrafundum.

Lög um ráðherraábyrgð nr. 4/1963:

"5. gr. Sé um að ræða embættisathöfn í ríkisráði eða á ráðherrafundi, sbr. 16. og 17. gr. stjórnarskrárinnar, bera allir viðstaddir ráðherrar, sem með ráðum, fortölum, atkvæði eða á annan hátt hafa stuðlað að þeirri athöfn, ábyrgð á henni."

Forseti Íslands sækir vald sitt beint til þjóðarinnar en samkvæmt stjórnarskránni er hann ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum og lætur ráðherra framkvæma vald sitt.

Samkvæmt þingræðisreglunni getur meirihluti þingmanna hvenær sem er lýst vantrausti á ríkisstjórnina eða einstaka ráðherra.

Hafi slík vantrauststillaga verið samþykkt er viðkomandi ráðherra, eða ráðherrum, skylt að biðjast lausnar og þá veitir forseti Íslands þeim lausn frá embætti.

Alþingi getur með þingsályktun kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra og Landsdómur dæmir um þau mál.

Steini Briem, 10.12.2008

Þorsteinn Briem, 6.3.2017 kl. 07:39

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Landsdómur verður kallaður saman í fyrsta sinn.

Ákærðir verða Geir H. Haarde sem þáverandi forsætisráðherra, Árni M. Mathiesen sem fjármálaráðherra og Björgvin G. Sigurðsson sem viðskipta- og bankamálaráðherra.

Í Landsdómi sitja fimm hæstaréttardómarar, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, prófessor í stjórnskipunarrétti við lagadeild Háskóla Íslands og átta einstaklingar sem Alþingi kýs.

Steini Briem, 12.4.2010

Kosning Alþingis í Landsdóm 11. maí 2005:

"
Kosning átta manna í landsdóm og jafnmargra varamanna til sex ára, skv. 2. gr. laga nr. 3 19. febrúar 1963, um landsdóm.

Aðalmenn: Linda Rós Michaelsdóttir kennari, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Sigrún Magnúsdóttir fyrrv. borgarfulltrúi, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl., Fannar Jónasson viðskiptafræðingur, Hlöðver Kjartansson lögmaður, Dögg Pálsdóttir hrl., Brynhildur Flóvenz lögfræðingur."

Þorsteinn Briem, 6.3.2017 kl. 08:24

4 identicon

Þið vinstrimenn nýttuð ykkur landsdóm í eing þágu og hefndaraðgerðir.Og þetta stjórnlagaraus er ekki inn lengur,og var kosningin ekki dæmd ógild.

HH (IP-tala skráð) 6.3.2017 kl. 18:02

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nei, þessi þjóðaratkvæðagreiðsla var ekki dæmd ógild. Ég tek það ekki til mín að ég hafi "nýtt mér landsdóm." Ég er einmitt að skrifa pistil um það að ég hef alla mína hunds- og kattartíð verið á móti landsdómi. 

Ómar Ragnarsson, 6.3.2017 kl. 23:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband