"Við lifum öll á sömu plánetu og öndum að okkur sama lofthjúpnum."

Ofngreind orð mælti John F. Kennedy í einni af síðustu ræðum sínum hérna megin grafar þegar hann hvatti til þess að stórveldin létu af brjálæðislegu vopnakapphlaupi og reyndu að vinna saman að lausn brýnustu vandamála mannkyns. 

En nú um stundir hljóma öðruvísi orð einna hæst, sem mæla fyrir auknum vígbúnaði og því að hver þjóð hugsi eingöngu sem þrengst um sjálfa sig en hvorki aðra né sameiginlega hagsmundi þjóða. 

Nú hlakkar í þeim sem hamast dag eftir dag við að fagna því að alþjóðahyggja og alþjóðasamvinna séu dauð. 

"Lýðræðið er stórgallað, en því miður hefur ekkert skárra fundist" sagði vitur stjórnmálamaður. 

Sama má segja um alþjóðasamvinnu og alþjóðahyggju sem grundvallast á því að allar þjóðir heims sigli um geiminn á sama bátnum, sömu jörðinni, sömu plánetunni. 

Stærsti galli hennar hefur verið, að ævinlega eru til ófyrirleitnir menn, sem nýta sér af fullkomnum purkunarleysi alla galla, sem geta gefið þeim tækifæri til að seðja skammgræðgisfíkn sína og valdaþorsta. En vald felst bæði í peningum og valdastöðum.  

En rétt viðbrögð við því er ekki það að skella öllum dyrum í lás með múrum og bönnum og magna upp ýfingar og átök með þjóðum og trúarbrögðum heldur að ráðast beint að auðræðinu sjálfu. 

Þar liggur líf alþjóðahyggjunnar við. 

Og vart er hægt að hugsa sér betra tákn um auðræðið en Donald Trump. 

Uffe Elleman Jensen bendir á það, hve valt það getur verið að lifa í von um að maður, sem sett hefur ítrekað fram grundvallarskoðanir sínar, geti á svipstundu breyst í mun mildari persónu í einni vel skrifaðri og vel fluttri ræðu.

Trump hefur aldrei beðist afsökunar á neinu sem hann hefur sagt eða gert fram að þessu, til dæmis því að NATO sé úrelt og Bandaríkin skuli fyrst NATO-þjóða vanvirða grundvallaratriðið um að árás á eina bandalagsþjóð skoðist sem árás á þær allar. 

Sum dæmi um það úr heimssögunni eru hrikaleg um það þegar leikið er tveimur skjöldum.

Þannig sagði Neville Chamberlain forsætisráðherra Breta eftir fund hans og Daladiers hins franska með Adolf Hitler í Munchen 1938: "Herra Hitler er heiðursmaður (gentleman)."

Á þeim fundi fékk Hitler yfirráð yfir Súdetahéruðum Tékkóslóvakíu án þess að hleypa af skoti, og Chamberlain veifaði pappírsblaði við komuna til London um leið og hann sagði: "Friður í Evrópu um okkar daga."

Í árslok útnefndi tímaritið Time Hitler sem mann ársins 1938. 

Heima í Þýskalandi hældist Hitler um við vini sína og fór háðsyrðum um "litla Bretann" og "einskis virði pappírssnifsi hans."  

Og fjórum og hálfum mánuði síðar hafði hann svikið samkomulagið og lagt allt Tékkland undir sig og gert Slóvakíu að "verndarsvæði Þjóðverja." 

"Friður um okkar daga" entist í minna en eitt ár, - heimsstyrjöld skall á 11 mánuðum síðar. 

Þetta og enn verra framhald hefði ekki átt að koma neinum á óvart sem lesið hafði Mein Kampf og fleira, sem frá Hitler kom. 

Hitler baðst aldrei afsökunar á neinu af því. 

Lýðræðið er stórgallað og lýsing Jensens á harmleik fyrir bandarískt lýðræði minnir á hve brothætt það getur verið.  

Sama má segja um alþjóðlega samvinnu og alþjóðahyggju, sem margir fagna nú að hafi misheppnast og sé dauð. 


mbl.is Harmleikur fyrir bandarískt lýðræði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Ofangreind orð mælti John F. Kennedy í einni af síðustu ræðum sínum hérna megin grafar ..."

Ræður sem John F. Kennedy hefur flutt dauður verður fróðlegt að lesa.

Þorsteinn Briem, 7.3.2017 kl. 15:22

2 Smámynd: Már Elíson

Ekki gat hann flutt ræðurnar hinu megin grafar, kjáninn þinn.

Már Elíson, 7.3.2017 kl. 16:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband