Hvað, ef EPA hefði verið lamað fyrr?

Nú eru þau vatnaskil í Bandarískum stjórnmálum að því er ekki aðeins lýst yfir að fjárframlög til umhverfismála séu óþörf og skaðleg, heldur er þessu fylgt eftir. 

EPA, umhverfisstofnunin er útmáluð sem óþurftarstofnun. 

Ég man þá tíð þegar þessi stofnun var efld á þeim tíma þegar "Americka was great." 

Þá súrnaði manni í augum um amerískum stórborgum, þar sem svonefnd "smog" eða þykk útblástursreykjarþoka lagðist yfir á heitum kyrrum dögum. 

Sterk andstaða var þá gegn því að aðhafast neitt gegn þessum útblæstri. Það var ráðist á ameríska drauminn nema að efla þær framfarir í bílaiðnaðinum að bílarnir yrðu sem allra stærstir og aflmestir svo að Bandaríkjamenn væru "the greatest" í þessum efnum. 

Ef hamlað yrði gegn nauðsynlegum vexti og umfangi bílaiðnaðarins myndi það draga úr hagvexti. 

Bent var á það að ef reynt yrði að minnka útblásturinn myndi það bitna svo stórlega á afli bílanna að þeir yrðu aumkunarverðir sleðar.  

Og þegar bílaframleiðendurnir voru loksins þvingaðir með lagaboði í kringum 1970 til að minnka útblásturinn varð þessi hótun að veruleika. 

Sem dæmi má nefna að 300 kúbiktommu vélar sem áður voru allt að 330 hestöfl, hröpuðu niður í rúmlega 100 hestöfl og hámarks snúningshraðinn úr 5000 snúningum niður í 3000.

Á sömu áratugum og þetta gerðist vestra gátu bílaframleiðendur í Evrópu og Asíu hins vegar haldið aflinu að mestu í sínum bílum, þrátt fyrir auknar mengunarvarnarkröfur, með því að nýta slagrýmið og ventlatæknina miklu betur en bandarísku bílasmiðirnir. 

1985 var til dæmis afl 1600 cc twin-cam vélar Toyota Corolla meira en 4900 cc bandarískrar V-8 vélar og eyðsla og mengun japönsku vélarinnar að sjálfsögðu miklu minni.  

Harðsnúinn hópur andstæðinga hvers kyns umbóta í umhverfismálum voru æfir yfir þessu ástandi hjá "öflugustu bílasmiðum heims" og hrópuðu ákaft um að þessu mengunarkjaftæði hætt og því mætt með kjörorðinu:  "let´s make America great again."

Þessar raddir hafa alltaf átt og eiga sér enn sterkan hljómgrunn hjá þeim valdahópum vestra sem vilja græða sem mest á sem minnstu eftirliti og hömlum í umhverfismálum. 

Þeir sakna þess tíma sem takmarkið var að smíða sem stærsta, flesta og aflmesta bíla og endurnýja módelin helst árlega eða minnsta kosti það mikið og oft, að kaupendur yrðu tilneyddir til að kaupa sér nýja bíla og henda þeim gömlu á nokkurra ára fresti. 

Nú hafa þessu öfl fengið valdamann, sem strax á fyrstu dögum sínum í embætti hefur afnumið ýmsar reglur um mengun, þannig að eigendur orkuvinnslu- og iðnaðarfyrirtækja megi eitra frárennsli og annað umhverfi afskiptalítið eða afskiptalaust.  

Fylgi hans er mest í þeim ríkjum "ryðbeltisins" þar sem langstærstu bílaverkmiðjur heim dældu út af færiböndunum sem allra mestu magni af stáldrekunum og þetta fyrirbæri var talið hryggjarstykkið í því sem gerði Ameríku svo máttuga og mikla.

En það getur verið ágætt að velta því fyrir sér hvernig ástandið væri vestra ef ævinlega hefði verið gefið eftir gagnvart þeim, sem setja skyndigróða byggðan á skammtímasjónarmiðum ofar öllu, þannig að ástand andrúmsloftsins yfir Norður-Ameríku væri jafnvel enn verra en það var orðið 1968.  

Ef EPA hefði aldrei orðið til né fengið að vinna að sannkölluðum þjóðþrifamálum. 


mbl.is Hætt að verja fé til loftslagsmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Hagvöxtur til frambúðar veltur á því að landnæði er nýtt betur, tæki og tól eru endurnýjuð til hins betra og vinnuafl nýtist betur, annaðhvort með því að láta fólki í té betri tæki eða með því að auka menntun og þar með virði vinnuframlags hvers einstaklings."

Er meiri hagvöxtur alltaf betri? - Katrín Ólafsdóttir lektor árið 2007

Þorsteinn Briem, 20.3.2017 kl. 18:39

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Aukin lífsgæði þýða ekki sjálfkrafa meiri mengun, því að sjálfsögðu er hægt að öðlast aukin lífsgæði án aukinnar mengunar í heiminum.

Líf og heilsa og þar af leiðandi sem minnst mengun eru alls staðar í heiminum mestu lífsgæðin.

Og að sjálfsögðu er hægt að auka hagvöxt án aukinnar mengunar.

Þorsteinn Briem, 20.3.2017 kl. 18:40

4 identicon

Góður Steini. Hárrétt!

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 20.3.2017 kl. 18:56

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ég gat ekki betur séð þegar allt varð vitlaust út af mengin að bílaframleiðendur voru í góðum málum að minnka mengun. Þá komu alltíeinu skipanir frá þinginu í BNA um að breyta öllu í bæði rafmagnsbíla og vetnisvélar en þetta olli að bílaframleiðendur gáfust hreinlega upp. Engin minntist á Methane gas sem voru að ryðja sér rúms á þessum tíma og engin minnist á það ennþá í dag  en með þessu gasi þá var hægt að nota sömu vélarnar.

Valdimar Samúelsson, 20.3.2017 kl. 19:48

6 identicon

Sæll Ómar.

Til allrar lukku þá
hefur Babýlonshóran lokað sjoppunni
og er tilgangslaust héðan í frá að
leita sér kærleiksblóma þar.

Loftslagshopparar geta etið það sem úti frýs
og vonum seinna að tekið væri til hendinni í þessum efnum.

Annars er það einstakt rannsóknarefni eð eftir að
kommúnisminn dó sjálfum sér þá hafa menn hrakist
til öfga í umhverfismálum, skæla sem lítil börn við
sérhverja bergvatnsá og síðan er það fólk sem menn
hafa aldrei augum litið sem eiga hug þeirra allan.

Hugurinn skal ævinlega bundinn einhverju sem stendur langt
utan seilingar eða allrar nálægðar en engu er líkara en
þeir sem lifa í landinu skipti ekki aðeins neinu máli heldur
séu á pari við sálarlausa þræla og skynlausar skepnur.

Því er ekki að neita að þetta var allt annað líf þegar tókst
að smala helstu brennivínsberserkjum Moskvuborgar og fá
Íslendinga til að halda að þetta væru einhverjir heimsfrægir
kósakkakórar og beljuðu sem yxna kýr í fleiri vikur eftir
slíka heimsviðburði á landinu góða.

Nei, nú þýðir ekki að vera lengur í hlutverki beiningamannsins
og rétt að Íslendingar og Ljóshærða nornin fari að borga
skuldir sínar, - kann að renna af þeim mesta eðallyndiskastið
þegar ölið er af könnunni.

Húsari. (IP-tala skráð) 21.3.2017 kl. 01:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband