Einu sinni höfðu Frakkar okkur í beitu.

Í æskuminningum Hendriks Ottósonar, sem fjalla um ævintýri hans og vinar hans, Gvendar Jóns, fyrir rúmri öld, kemur fram að ýmislegt var gert til að hrella rauðhærða stráka. 

Frakkar gerðu þá enn út fiskiskip á Íslandsmið, eins og Franski spítalinn, seinna Gagnfræðaskólinn við Lindargötu, ber vitni um. 

Eitt af því sem gert var á þeim tímum til að stríða rauðhærðum strákum og hrella þá, var að telja þeim trú um að rauður litur gæti nýst frönsku sjómönnunum vel til að hafa í beitu við veiðar sínar og að þeir gætu átt það til að ræna rauðhærðum drengjum í þessu skyni

Eins og svo margir aðrir minnihlutahópar eða fólk sem er eitthvað "öðruvísi" en aðrir, hefur rauðhært fólk oft þurft að fást við snúin viðfangsefni varðandi háralitinn, einkum þegar hann hefur verið eldrauður.

Bara það eitt að geta fengið viðurnefnið "rauði", var næg ástæða til aðgerða. Dæmi um þetta var bílstjóri hér á árum áður, sem var ævinlega kallaður "Batti rauði".

Þegar ég var strákur með eldrauðan hárkúst fannst mér ekkert skemmtilegt að vera uppnefndur "rauðskalli brennivínsson" eins og stundum var slengt fram.

Svo langt gekk varnarbaráttan vegna hárlitarins, að fallið var frá því að ég bæri nöfn ömmu Ólafar og afa Þorfinns.

Ólafur var svo algengt nafn, að viðbúið var að ég yrði uppnefndur Óli rauði, ef það yrði skírnarnafnið.

Amma mín varð því að sætta sig við það að nafnið Ómar yrði ofan á með þeim rökum, að það nafn var svo einstakt á þeim tíma, að það nægði til að eyða nauðsyn á því að uppnefna mig.

Á fyrstu árum sjónvarpsins vorum við tveir, sem höfðum upphafsstafina Ó.R., - hinn var Ólafur Ragnarsson.

Upphafsstafir voru mikið notaðir þar á bæ, og varð að ráði að ég breytti minni skammstöfun úr Ó.R. í Óm. R.

Hefur það verið þannig síðan.  


mbl.is Rauðhærður í sértrúarsöfnuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þeir segja að Neanderthalsmaðurinn hafi verið rauðhærður.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 25.3.2017 kl. 20:17

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, lengi býr að fyrstu gerð.smile

Ómar Ragnarsson, 25.3.2017 kl. 20:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband