Lok á gufukatli í Eþíópíu.

Eþíópíumenn þekkja ekkert annað en alræðisstjórnir, og stjórnin, sem nú ríkir þar, er af því sauðahúsi. Íbúar landsins eru 83 milljónir eða aðeins fleiri en í Þýskalandi, en hagkerfi Eþíópíu er álíka stórt og hagkerfi Íslands, þótt íbúarnir séu 270 sinnum fleiri en Íslandi. 

Núverandi valdhafar rekja meira en aldarfjórðung aftur í tímann og hafa verið einstaklega lagnir við að halda völdunum með því að nota aðstæður í landinu sem afsökun fyrir þeim heljartökum, sem þeir hafa. 

Þeir nýttu sér til dæmis átök við Eritreu með því að viðhalda hernaðarástandi vegna átakanna löngu eftir að ástæðan fyrir því hafði horfið. 

Kynnin af landi og þjóð í tveimur ferðum þangað, 2003 ög 2006, voru ekki uppörvandi. 

Flugvél, sem ég hafði átt á árunum 1984-1987, hafði verið seld til trúboðs í Eþíópíu og mér gafst kostur á að fara með henni 2002 um landið. 

Aðeins var leyfilegt að fljúga á innan við tíu flugvélum í þessu stóra landi, sem er tíu sinnum stærra en Ísland. 

Við borgina Arba Minch var stór flugvöllur með heilmikilli flugstöð, að hluta til úr marmara, sem engin umferð var um nema ein og ein stök flugvél, og engin starfsemi var á vellinum. 

Aðeins eitt stórt fyrirtæki er í Eþíópíu, sem talist getur hátæknivætt, en það er Ethiopian Airlines, sem er þjóðarstolt landsins. 

Það er rekið með bandarískri tæknisamvinnu og stjórnarherrarnir gæta þess að koma sér í hvívetna í mjúkinn við Bandaríkin.

Þegar öfgamenn gerðust uppivöðslusamir í nágrannaríkinu Sómalíu fengu eþíópsk stjórvöld bandaríska loftherinn til þess að gera árásir á uppreisnarmenn, svo að þeir ógnuðu ekki með því að fara yfir landamærin til Eþíópíu.

Eftir að hafa brennt sig á "Arabíska vorinu" eru ráðamenn í Bandaríkjunum áreiðanlega tregir til að reyna neitt svipað aftur.

Samt væri full ástæða til þess að líða ekki lengur valdníðsluna sem beitt er í þessu stóra, fjölmenna og merkilega landi, þar sem kristni komst á 700 árum fyrr en á Íslandi og kristin menning, kennd við Kopta, er í hávegum höfð, þótt múslimar séu sterkir í landinu.

Óánægjan kraumar undir í ástandi, sem líkist því þegar þrýstingi í gufukatli er haldið með því að þrýsta lokinu niður. Þess vegna eru neyðarástand og hernaðarástand vopnin, sem stjórnvöldin nota til þess að halda fólkinu niðri.  


mbl.is Áfram neyðarástand í Eþíópíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband