Afkoman í ársfjórðungsuppgjöri ræður för.

Örfáir eigendur helmings auðs mannkyns í hlutabréfum stærstu fyrirtækjanna miða alla sýn sína við afmkomutölurnar í ársfjórðungsskýrslunni eða í mesta lagi í skýrslum síðasta hálfa árs. 

Gott dæmi um gildi afkomuskýrslnanna hjá stórum sem smáum fyrirtækjum var stórfellt verðfall á hlutabréfum Icelandair á dögunum. 

Merkilegt er hve lítið er minnst á súrnun sjávar af völdum útblásturs koltvísýrings. Þó er engin leið að deila um þessa súrnun enda svo sem ekki deilt um hana, heldur ríkir eins konar kæruleysisþöggun um hana. 

Eru þó stór kóralrif byrjuð að hrynja og lífríki að skaðast. En umræðan er á því stigi, að ekki sé vitað hve mikil hin neikvæðu áhrif hafi.  Varðandi þau skal náttúran ekki njóta vafans og er þó um að ræða ástand í hafinu, sem engin leið verður að snúa til baka, ef illa fer. 

Að meiri súrnun sé við Ísland en annars staðar vakti nákvæmlega enga athygli í fréttum síðasta fimmtudag, en ratar nú inn á mbl.is eins og vegna skammvinns gúrkuástands, sem stundum kemur upp á sunnudögum. Hafi mbl.is þökk fyrir að verða til þess að leiða hana fram á þessum dögum stanslausra frétta af viðskiptabrellum Ólafs Ólafssonar fyrir 15 árum. 

En það er svo sem engin furða að súrnun sjávar sé sjaldan nefnd, því að áhugasvið valdamestu manna heims pg voldugustu þjóðanna er fjarri lífríki hafsins, og nytjar lífríkis hafsins eru svo lítill hluti af efnahagsumhverfinu sem stóru eigendurnir og hlutafélögin lifa í. 

Iðnvæddu ríkin eru upptekin við hagvöxt og gróða af sívaxandi rányrkju hráefna og auðlinda á landi. 

Enginn hlustar á mjóróma raddir á útskeri norður við Íshaf. Enda harðsnúinn hópur manna hér á landi sem leggur sig fram við að afneita því sem er að gerast. 


mbl.is Sjór súrnar hraðar norðan við Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband