Fagrar hugsjónir, - brostnar vonir enn og aftur?

Kapítalisminn eða frjálshyggjan og sósíalisminn (félagshyggjan) er háleitar og fagrar hugsjónir á blaði. 

Í frjálshyggjunni er frelsi einstaklingsins boðað sem leið til að hámarka arðsemi þjóðarbúsins í því augnamiði að gróðinn dreifist um þjóðarlíkamann frá hinum ríku, bæði beint frá þeim sjálfum, og einnig í gegnum sanngjarnt skattakerfi. 

Varnagli er sleginn: Frelsi eins endar þar sem frelsi annars byrjar. 

En heimurinn, sem við blasir, sýnir því miður vaxandi auðsöfnun örfárra á kostnað milljarða fólks. Peningar eru nefnilega vald í sjálfu sér en vald spillir, og ef það er mikið, gerspillir það, eins og þegar búið er að blanda hina eitruðu blöndu stjórnmál-efnahagsmál líkt og gert hefur verið í efnahagsmálum heimsins.

Það var gert hér í byrjun aldarinnar með þekktum afleiðingum.

Skylt er að geta þess að margt ríkt og efnað fólk lætur gott af sér leiða eftir föngum og veitir þörfum málefnum ómetanlega stuðning, einnig við stuðning við andóf gegn spillingu.

En ófarir, tjón og misrétti vegna græðgi og skammtímahugsunar stinga í augun.

Sósíalisminn lítur líka afar vel út á pappírnum. Göfugar, háleitar hugsjónir um jöfnuð, mannréttindi, réttlæti og samtakamátt fjöldans. En stærsta tilraunin með alræði öreiganna var einhver dýrkeyptasta tilraun sögunnar sem kostaði tugi milljóna manna lífið.

Þar sannaðist að völd spilla, og mikil völd gerspilla. Valdafíknir einstaklingar nýttu sér aðstöðuna sem skapaðist, til að ryðjast til alræðis, sem ekki gat staðist nema með grimmri kúgun og fjöldamorðum.

Langflestir fylgjendur þess að allir leggi af mörkum eftir getu og fái til baka eftir þörfum, er hugsjónafólk með trú á hið góða í lífinu.

Sennilega er það skýringin á miklum flokkadráttum meðal vinstri manna og stofnun nýrra og nýrra flokka til þess að lagfæra það sem miður fer í vinstri flokkunum á hverjum tíma.

Rétt er að geta þess, að á meðal ráðamanna í félagshyggjuflokkum hafa alla tíð verið miklir og magnaðir hugsjónamenn. En of margir hafa orðið valdafíkn og sérhyggju að bráð.  

 

Grundvallaratriðið varðandi sífelldar ófarir í framkvæmd stjórnmálastefna er sá, að báðar fyrrnefndar stjórnmálastefnur, kaptítalisminn og sósíalisminn, gera ráð fyrir fullkomnun manna og óskeikulleika, sem því miður er ekki ríkjandi í mannlegu eðli.  

Nú stendur til að gera svipað og gert var fyrir 79 árum, að sameina vinstri menn í einum sósíalistaflokki. 1938 hét flokkurinn Sameiningarflokkur alþýðu - sósíalistaflokkurinn.

Nú er aftasti hluti gamla nafnsins látinn nægja, enda hafa tilraunir til að sameina vinstri menn í einum flokki mistekist árin 1938, 1956, 1970, 1987, 1994 og 1999.

Það voru fagrar hugsjónir sem ólu af sér brostnar vonir.

Það er kannski helst á Norðurlöndum þar sem blandað hagkerfi er við lýði, að skásta stjórnarfyrirkomulagið hefur verið.

Um það má segja svipað og sagt var um vestrænt lýðræði á sínum tíma: Það er skelfilega ófullkomið og gallað en það hefur því miður ekki fundist neitt betra.  


mbl.is Sósíalistaflokkur verði stofnaður 1. maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

1. maí hátíðahöldin í Reykjavík 2017:

kl. 16.00 grátkór flugmanna,

kl. 16.15 grátkór flugumferðarstjóra,

kl. 16.30 grátkór flugvallarvina,

kl. 16.45 grátið með útgerðarmönnum,

kl. 17.00 Kristján Loftsson syngur Maístjörnuna.

Þorsteinn Briem, 11.4.2017 kl. 16:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband