Óbyggðirnar kalla.

Það eru forréttindi að fá að vakna við fyrstu skímu morgunsólar á hálendi Íslands þegar fyrstu geislar sólarinnar byrja að roða hæstu tinda fjallanna í vetrarbúningi í heiðskíru veðri, logni og tíu stiga frosti.DSC08346

Myndirnar hér á síðunni voru teknar í fyrsta jöklajeppaferðalagi mínu inn á hálendið í fimm ár í samfloti við nokkra félaga úr Ferðaklúbbnum 4x4. 

Eftir þetta lengsta hlé á slíkum ferðum mínum í 25 ár, var það óviðjafnanlegt að rísa upp við dogg í framsætinu á Súkkunni, sem ég var á og svaf í, og sjá hvernig morgunsólin líkt og kveikti í tindum Kerlingafjalla eins og þegar ljós er kveikt á kertum.

Síðan breiddi sólarloginn niður eftir fjallshlíðunum.

Brátt voru dýrðin og dásemdin í draumkenndri birtu til austurs og suðurs búin að breiða sig svo langt sem augað eygði, allt austur um Hágöngur í austri suður til Heklu.DSC08349

Í ferð með leiðangri yfir Grænlandsjökul undir stjórn Arngríms Hermannssonar 1999, var ég skikkaður til að kaupa sérstakan svenpoka, sem einn gæfi möguleika á að sofa þar í tjaldi í 30 stiga frosti.

Í fyrrinótt sem oftar kom þessi svefnpoki í góðar þarfir.

Eftir myndatökur af sólarupprásinni milli klukkan 5:20 og 7:20, var sólin farin að hita bílinn upp og hægt að leggja sig aftur um stund og njóta þessarar hlýju frá móður allrar orku, áður en lagt yrði af stað.

Hér á árum áður fóru slæmar sögur af ölvun og umgengni hjá sumum, sem voru á ferð á fjöllum.

Nú eru svona ferðir orðnar margfalt fleiri en áður var og njóta vaxandi vinsælda ferðamanna.DSC08361

Þess vegna er það gott ef lögregla og yfirvöld fylgist vel með, ekki aðeins til að haft sé skikk á hlutunum, heldur er það almennt öryggisatriði.DSC08390

Þetta helgarferðalag markaði upphafið á kvikmyndatökum fyrir þáttaröðina Ferðastiklur, sem unnið verður að í sumar.    


mbl.is Stöðvuðu þrjá jeppa á hálendinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Dásamlegt! Takk fyrir þessar myndir Ómar og að deila þessari upplifun með okkur.kiss

Ragna Birgisdóttir, 13.4.2017 kl. 13:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband