Leikurinn við Íslendinga vó vafalaust þungt.

Öllum er í fersku minni eitt fræknasta íþróttaafrek Íslendinga þegar Englendingar voru lagðir að velli og slegnir út úr EM. Haft var á orði í Englandi að þetta væri versti ósigur landsliðsins, og það er ekki lítið, því að verið er að bera þennan ósigur við tvo hræðilega ósigra enska landsliðsins fyrir Ungverjum snemma á sjötta áratug síðustu aldar. 

Í upphafi leiksins við Íslendinga virtist allt á réttri og vanabundinni leið hjá þeim ensku. 

Þeir fengu óskabyrjun þegar flaggskip liðsins, Wayne Rooney, skoraði úr vítaspyrnu og kom þeim yfir. 

Hefði leikurinn þróast áfram á svipaðan hátt hefði þetta getað orðið ein stærsta stund Rooneys. 

En í staðinn horfði heimsbyggðin upp á það hvernig íslenska liðið braut það enska niður, smátt og smátt, allt til dramatískra leiksloka þegar þeir ensku lutu í gras. 

Einkum var sárt fyrir aðdáendur Rooneys að horfa upp á það hvernig hann og liðsfélagar hans brutust um á hæl og hnakka og reyndu allt hvað þeir gátu til að verjast því að glutra forskotinu niður, en máttu sín einskis gegn vel skipulögðu og einstaklega baráttuglöðu landsliði örþjóðarinnar. 

Einkum var grátlegt að horfa upp á hvernig Rooney mistókst flest sem hann reyndi að gera og varð í staðinn að dragbít fyrir allt liðið. 

Áfall af þessu tagi fyrir góðan afreksmann er honum afar erfitt og það þarf sérstakan karakter til að vinna sig út úr slíku.

Síðustu dýrðarmínútur á ferli Rooneys voru í upphafi þessa leiks og greypileg úrslit hans fyrir enska knattspyrnustórveldið verða aldrei þurrkuð út.

Ronney mun líklega aldrei bera sitt barr eftir þetta mikla bakslag.  


mbl.is Rooney búinn að leysa frá skjóðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband