Líkt og samkeppnislag í Eurovisionstíl um ástina og gildi hennar.

Setjum sem svo að ákveðið væri að láta gera fallegt og aðlaðandi Eurovisionlag með texta um ástina og gildi hennar, og að samkeppni væri um samningu og flutning lagsins. 

Hvaða lag skyldi verða hlutskarpast?

Eitthvað lag, sem væri með nafn, sem vísaði að engu leyti til yrkisefnisins?

Lag, sem keppti við önnur lög með skárri nöfnum, markvissari eða betri texta, en þó fyrst og fremst betri lög, með betri flytjendum?

Að sjálfsögðu færi lagið með nafnleysunni hallloka og því yrði hafnað, hversu góð sem meining aðstandenda þess væri.  Af því að flutningurinn skilaði ekki því sem stefnt var að.   

Heitið Samfylking var andvana fædd vegna þess að upphaflegir aðilar að hugmyndinni klofnuðu strax í gamankunnar tvær fylkingar vinstri manna og að orðið sjálft sagði ekkert út af fyrir sig um það hvers kyns flokkur þetta væri. 

"Útskýringar fást hjá dyraverði" sögðum við stundum í sumarbyrjun í Sumargleðinni, þegar við voru að prófa nýja brandara sem gerðu sig ekki eins úti á landi og þeir höfðu gert í Reykjavík um veturinn. 

Samfylkingin byggðist á þeirri útgáfu af alþjóðlegri hreyfingu lýðræðislegrar jafnaðarstefnu, sem hefur nýst einna best á Norðurlöndunum og Gylfi Þ. Gíslason kallaði blandað hagkerfi. 

Að vinsa það skásta úr kapítalismanum (frjálshyggjunni) og sósíalismanum (félagshyggjunni) og nýta reynsluna. 

Á Íslandi hafði sú reynsla til dæmis leitt til þess að tilraunin með þjóðnýtingu sjávarútvegfyrirtækja mistókst. 

Nafnið Samfylkingin sagði út af fyrir sig nákvæmlega ekki neitt um eðli flokksins og ef þekking þeirra sem áttu að kjósa flokkinn fór að dofna, þurfti úrskýringar hjá dyraverði. 

Heitið Jafnaðarmenn hefði hins vegar sagt meira eða jafnvel nafnið Sósíaldemókrataflokkurinn. 

Flokkurinn hóf feril sinn á því að "gera sig stjórntækan".

Flokksmenn, einkum þingflokkurinn, voru í nafni þess beygðir til þess að samþykkja verstu aðför gegn jafnrétti kynslóðanna, ofríki gegn komandi kynslóðum, sem hægt var að fremja á Íslandi, en það var Kárahnjúkavirkjun, sem 1. áfangi Rammaáætlunar sýndi fram á að var stærsta mögulega framkvæmd Íslandssögunar með mestu mögulegu óafturkræfu umhverfisspjöllum. 

Með þessu var "Samfylkingin" klofin í herðar niður í máli, sem var risastórt hjá flokki sem vildi kenna sig við jafnaðarstefnu og mannréttindi, því að troðið var á mannréttindum óborinna Íslendinga með hinum hrikalegu óafturkræfu umhverfisspjöllum. 

Að vera stjórntækur bar Samfylkinguna beint í faðm flokks íslenskrar nýfrjálshyggju sem stefndi efnahagslífi þjóðarinnar lóðbeint niður í mesta efnahagshrun Íslandssögunnar. 

Samfylkingin tók með Vinstri grænum að vísu að sér risavaxna rústabjörgun og endurreisnarstarf, sem var hins vegar þess eðlis að það var ekki hægt að gera neinum til geðs. 

Það var meira að segja ráðist að kjörum aldraðra og öryrkja. 

Auðvelt var að gera einstök mistök eins og að lesa ekki rétt í hvernig ætti að taka á Icesavemálinu.

Einnig halda endalaust áfram við það að setja ESB-aðild í fyrsta sæti, þegar séð varð smám saman, að réttast yrði að halda því til hlés miðað við ríkjandi aðstæður í Evrópu. 

Hrunið leiddi af sér almennt vantraust á stjórnmálum og ólgu, sem kom Besta flokknum á tímabili upp í meirihlutafylgi í Reykjavík í skoðanakönnunum. 

Nú stefna leifar þeirrar hreyfingar á stundum í pilsner-tölu í skoðanakönnunum. 

Vinstri grænir eru núna stærstir á vinstra arminum af einfaldri ástæðu: Þeir syngja og flytja hið pólitíska "Eurovision" samkeppnislag um ást, jafnrétti og sjálfbæra þróun betur en þeir, sem þó voru í upphafi spyrtir við hugmyndina að laginu öðrum fremur. 

Margir fleiri vilja syngja svipað lag, og kosningatölur og skoðanakannanir sýna að þeir gera það einfaldlega betur. "Dómur almennings liggur fyrir" segir fyrrverandi forystumaður réttilega. 


mbl.is „Dómur almennings liggur fyrir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Kapítalismi er að sjálfsögðu ekki eingöngu frjálshyggja og stjórnmál snúast að miklu leyti um frjálslyndi og íhaldsstefnu en ekki eingöngu sósíalisma og kapítalisma.

Blandað hagkerfi er í flestum ríkjum en þau eru mismunandi mikið sósíalísk og kapítalísk og Kína er nú að töluverðu leyti kapítalískt þjóðfélag sem hefur færst frá sósíalisma og íhaldssemi.

Bandaríkin eru miklu kapítalískara og íhaldssamara þjóðfélag en það íslenska og langflestir Íslendingar hefðu ekki kosið Donald Trump.

Rússland er nú kapítalískt þjóðfélag en einnig íhaldssamara en á tímum Sovétríkjanna.

Og Austur-Evrópuríkin eru mun íhaldssamari en Vestur-Evrópuríkin.

Í Sjálfstæðisflokknum hefur nú íhaldssamt fólk yfirhöndina gagnvart þeim sem aðhyllast frjálslyndi og frjálshyggju, enda yfirgaf margt frjálslynt fólk flokkinn nýlega og stofnaði Viðreisn.

Vinstri grænir aðhyllast sósíalisma en eru jafnframt íhaldssamari en Samfylkingin, sem einnig er sósíalískur flokkur en þó frjálslyndur eins og Björt framtíð, Píratar og Viðreisn.

Margir þeirra sem kusu Samfylkinguna hafa undanfarið kosið Bjarta framtíð og Pírata, enda höfðar Samfylkingin á landsvísu nú almennt ekki til ungs fólks þar sem frambjóðendur flokksins til Alþingis hafa undanfarið flestir verið miðaldra og jafnframt ekki vinsælir meðal ungs fólks.

Katrín Jakobsdóttir höfðar hins vegar til ungs fólks, enda þótt hún sé miðaldra en það gerir Steingrímur J. Sigfússon ekki.

Framsóknarflokkurinn var um tíma fyrst og fremst frjálslyndur en hefur undanfarið aðallega verið íhaldssamur flokkur og mun nær Sjálfstæðisflokknum en frjálslyndu flokkarnir Samfylkingin, Píratar, Björt framtíð og Viðreisn, sem er hægri flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn.

Þorsteinn Briem, 26.4.2017 kl. 11:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband