Þetta varð þá mesti hnefaleikabardagi aldarinnar eftir allt!

90 þúsund manns fylltu Wembley í kvöld. Met eftir stríð. 30 milljónir punda til skiptanna fyrir Anthony Joshua og Vladimir Klitschko. Joshua

Spurningunni um hvort þetta yrði tímamótabardagi í næsta bloggpistlinum á undan þessum var heldur betur svarað: Hann varð það. 

Besti þungavigtarhnefaleikari það sem af er þessari öld, Wladimir Klitschko, hefur verið ósannfærandi í síðustu tveimur bardögum sínum og þótt sýna þess merki að 41. árs aldur komi illilega fram hjá honum. 

Hann tapaði fyrir Tyson Fury, en Fury hefur síðan klúðrað sínum málum á ýmsan veg svo að tvö belti losnuðu. JoshuaKlitschko

En það var allt annar Vladimir Klitscko sem steig inn í hringinn í kvöld og lét hinn unga Joshua finna fyrir sér heldur betur. 

Sló hann meira að segja niður í 6. lotu sem svar við því að Joshua hafði sett hann í strigann í 5. lotu, og með þessu sýndi Klitschko fádæma seiglu og viljastyrk. 

En Joshua sýndi ekki síðri viljastyrk með því að seilast niður í dýpstu djúp sálar og líkama til að standast áraunina. 

Þegar þarna var komið sögu, var bardaginn þegar orðinn að "klassík", sá fyrsti þeirrar gerðar í þungavigtinni í 14 ár. 

Og hann hélt þeirri stöðu til 1l. lotu þegar Joshua hafði kreist fram "second wind" og hóf magnaða árás á Klitscko sem endaði með því að meistari aldarbyrjunarinnar fór tvívegis í strigann og var síðan bjargað af dómaranum frá því að verða barinn í klessu úti í horni. 

Æðislegt hægri handar upphögg réði úrslitum! Búið að bíða í 14 ár eftir því að slíkt gerist í bardaga um heimsmeistartitil í þungavigt. Búið að fá nóg af endalausum one-two hjá Klitscko bræðrum. Vísa til myndbands á facebook síðu minni. 

Klitschko sló að vísu ótal vinstri króka í þessum bardaga, en Joshua var greinilega með heimavinnuna á hreinu og beygði sig undir þau flest eða tók þau á öxlina. 

Að dómi viðstaddra, svo sem Sugar Ray Leonard og Arnolds Swarzteneggers, stóð þessi bardagi undir öllum kröfum um stórkostlegan íþróttaviðburð. 

Hann markar kaflaskil bara fyrir það eitt að nú er kominn fram nýr meistari, Anthony Joshua, sem íþróttablaðamenn tala þegar um sem magnaðasta íþróttamann Bretlands, og að nú er búið að hleypa þungavigtinni upp og búa til vettvang til að skapa nýtt blómatímabil hennar, ef vel verður úr spilum spilað. 

Og það hefur nú löngum verið þannig, að það mestu máli fyrir hnefaleikana sem heild að þungavigtin sé spennandi og full af stórviðburðum með tilþrifum og dramatík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband