Strandveiðarnar fengu ósanngjarna andstöðu á sínum tíma.

Þau tvö framboð, sem stóðu utan fjórflokksins í Alþingiskosningunum 2007, lögðu bæði til að teknar væru upp strandveiðar. 

Ekki vantaði að sægreifar og sterk öflu í fjórflokknum legðust hart gegn þessum hugmyndum og notuðu hræðsluáróður þess efnis, að smábátaveiðar um aldamótin hefðu farið úr böndunum. 

Hjá þessum öflum var það afgreitt út af borðinu að hægt væri að búa þannig um hnúta að strandveiðarnar væru hóflegar og öruggar og mikill grátkór settur í gang varðandi það að aflinn í strandveiðum fælist í því að ræna lífsbjörg frá útgerðarfyrirtækjum landsins. 

Rétt eins og það hefði verið sanngjarnt hvernig kvótakerfið hafði búið til eignarrétt á helstu auðlind landsins á þessum tíma og farið eins og eyðandi faraldur um hinar smærri sjávarbyggðir um allt land. 

Við, sem vildum strandveiðar, bentum á, að vel væri hægt að fara varlega af stað með þær og gæta vel að því að þær yrðu viðráðanlegar og öruggar. 

Auk þess sem strandveiðar að sumarlagi myndu hleypa lífi í visnaðar sjávarbyggðir yrðu þær akkur fyrir ferðaþjónustuna með því aðdráttarafli fyrir ferðafólk og upplifun þess af þjóðlegu og aðlanðandi athafnalífi sem strandveiðarnar gæfu þeim höfnum, sem þær væru stundaðar frá. 

Nú hafa strandveiðarnar smám saman sannað gildi sitt og ættu að hafa tryggt öryggi sitt og tilveru. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Handfæraveiðar voru öllum frjálsar hér áður fyrr. Jafnvel snurvoð og línuveiðar voru ekki leyfisskyldar.

Það er bara of gott fyrir fátækan íslending að fá að veiða sér í soðið í dag. Hann gæti hugsanlega veitt meira en fyrir sjálfan sig.

"Auðlindin er takmörkuð" segja útgerðamenn (gamla LÍÚ).

Handfæraveiðar eru nú frjálsar í Noregi. Hví ekki hér?
Jú öryrkjar og ellilífeyrisþegar gætu farið að drýgja tekjur sínar.

Svei okkar stjórnvöldum.

Guðmundur Bjarnason (IP-tala skráð) 6.5.2017 kl. 21:34

2 identicon

Endurvekjum líf á bryggjum sjávarbyggða

Kvótakerfið hefur ekki reynst fiskveiðikerfi með þjóðarhagsmuni í fyrirrúmi, heldur hagsmunakerfi fárra. Íslandshreyfingin vill leita leiða til að afnema það í áföngum, fyrsta skrefið er að leyfa smábátaflotanum allt að 6 tonna stærð að stunda handfæraveiðar frá 15. apríl til 15 ágúst ár hvert. Það er fyrsta aðgerð til að komast út úr kvótabraskskerfinu. Þá fer að færast líf í hafnir og bryggjur landsins heimamönnum til gleði einnig erlendum ferðamönnum sem hingað koma til að skoða samspil menningu og náttúru landans, því þá er hægt að bjóða ferðamönnum í sjóstangaveiði án þess að eiga kvóta.

Útflattar uppeldisstöðvar nytjafiska
Skipastóllinn hefur aldrei verið stærri og verri fyrir umhverfið en nú bæði vegna aukinnar notkunar á togveiðarfærum og meiri olíunotkunar á hvert kg. af veiddum fiski en meðan strandveiðiflotinn var við lýði. Toghlerar valda mikilli eyðileggingu á grunnslóð þegar  þeir eru dregnir yfir hraun og kóralbyggðir, uppeldisstöðvar og skjól seiðanna og kippa þannig forsendum undan framtíðarveiðum. Íslandshreyfing leggur ríka áherslu á verndun hafs og stranda. Við viljum takmarka aðgang snurvoðar og annarra veiðarfæra á grunnslóð þar sem þau skaða umhverfi veiðistofnana til framtíðar. Þetta er líka orðið markaðsspursmál því þær verslanir sem hæst verð greiða fyrir fisk vilja ekki lengur kaupa fisk sem veiddur er í botnvörpu eins og dæmi er um skötusel. Íslenskar sjávarafurðir hafa á sér gott orðspor og það bera að vernda með umhverfisvænum veiðum.


Kvótakóngar og leiguþý
Kvótakerfið hefur valdið brottkasti á fiski sem  talið er  í milljörðum ár hvert vegna of lítils framboðs á veiðiheimildum sem aftur leiða af sér okurkvótaleigu sem viðheldur nútímaþrælahaldi í greininni og hindrar fyrir nýliðun. Það er grátlegt að sjá leiguliðana og sjómenn þeirra lenda í þeirri ánauð að þurfa að leigja kvóta á allt að 200 krónur á þorskkíló, bera nánast ekkert úr býtum og sjá að lokum útgerðirnar fara í þrot meðan kvótaeigendur mata krókinn. Sú "atvinnustarfsemi" útheimtir oft einungis einn mann til starfa og sá maður borgar ekki skatta til samfélagsins því þetta eru fjármagnstekjur.

Úthlutun fiskikvóta hefur alltaf verið í höndum sjávarútvegsráðherra, með hliðsjón af ráðleggingum Hafrannsóknarstofnunar, og hefur aldrei leikið vafi á um rétt hans til þeirra aðgerða.  Umræða um að útgerðir hafi eignarhaldið er því út úr kortinu því stöðug afskipti samfélagsins af þessum verðmætum er til staðar.  Því getur hefðarréttur aldrei myndast um kvóta. Það er ekki sjálfgefið að nytjaleyfi leiði til eignaréttar. Þess vegna er ekki hægt að selja veiðiheimildirnar.  Þau kaup manna á milli í gegnum tíðina á þessum ímynduðu verðmætum í kvótalíki, varðar okkur samfélaginu ekkert um.  Þau viðskipti eru án samráðs við þjóðfélagið, gegn vilja settra laga og  því alfarið á þeirra ábyrgð.

Sjálfræði yfir fiskimiðunum, þjóðareign
Fjöregg þjóðarinar, sjávarútvegurinn er í hættu vegna þessa þróunar í greininni sem er enn um 60 % af landsframleiðslunni. Það gæti breyst á einni nóttu. Það þarf bara einfaldan meirihluta á alþingi Íslendinga til að leyfa erlendum fjárfestum að fjárfesta í íslenskri útgerð. Við þurfum að hafa það í huga þegar þessi mál er upp á pallborðinu að ríkisstjórnarflokkarnir vilja í raun hleypa erlendum aðilum inn í útgerðina á næsta kjörtímabili, haldi þeir völdum eftir kosningarnar í vor. Halldór Ásgrímsson sagði á Iðnþingi á síðasta ári þá forsætisráðherra Íslands að hann vildi sjá að erlendar fjárfestingar í Íslenskri útgerð. Það verður stór veisla þegar hinir fáu útvöldu seldu veiðiheimildirnar hæstbjóðanda á erlendum vettvangi.

Aflið til að stoppa þessa þróun eru kjósendur sem við í Íslandshreyfingunni leitum til. Komist Íslandshreyfingin í ríkisstjórn eftir kosningarnar 12. maí nk. verður þessi óheillaþróun stöðvuð. Kjósum x I á kjördag! 

Baldvin Nielsen

P.S.Ómar við reyndum fyrir 10 árum síðan sjá grein hér fyrir ofan sem birtist í Víkurfréttum rétt fyrir alþingiskosningarnar 2007

Baldvin Nielsen (IP-tala skráð) 6.5.2017 kl. 22:12

3 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Persónulega er ég á móti strandveiðum í atvinnuskini. Ástæðan er sú að þetta er nokkuð avipað og bændur færu á nýjan leik að nota orf og ljá og gömlu hrífuna. En að veiða í soðið og drýgja tekjur svo ekki sé talað un ánægjuna er allt annað mál. Mér finnst vera meiri byggðarstefna að mun meiri afli færi á markað svo vinnslustöðvar án útgerðar gætu þrifist. Að auki á að breyta lögum sem banna eigendur kvóta í sjávarþorpum að fara með hann í burtu.Að sjálfsögðu á öll þjóðin auðlindina en það á að vinna fiskinn á sem hagkvæmastan máta og það þýðir ekki að öll þjóðin þurfi að vera á veiðum.

Jósef Smári Ásmundsson, 6.5.2017 kl. 22:36

4 identicon

Það er ekki kvótakerfið í sjávarútvegi sem hefur farið illa með mörg byggðarlög landsins. Það er markaðsvæðing aflans, hagræðing og afnám styrkja úr ríkissjóði. Fiski er keyrt milli landshluta til þess sem borgar best. Hver á kvótann og hvar hann er skráður til heimilis skiptir litlu máli. Til dæmis hefur megninu af þeim afla sem unninn hefur verið á Akranesi verið landað á öðrum stöðum og kemur úr kvóta sem skráður er í öðrum byggðarlögum. Og margar fiskvinnslur hafa enga tengingu við útgerðir og kaupa á markaði allstaðar af af landinu þá tegund og þá stærð sem hentar þeim best.

Eigi að bjarga byggðunum með því að tryggja þeim hráefni þarf að leggja niður fiskmarkaði, endurvekja verðlagsráð og tryggja ríkisstyrki til fyrirtækja sem ekki bera sig. Það er til lítils að lögbinda löndun og vinnslu ef fiskvinnslan og útgerðin í heimabyggð bera sig ekki.

Strandveiðarnar hafa ekki gert byggðunum neitt sem gagnast þeim. Túrhestarnir sem áttu að fylla bryggjurnar hafa ekki skilað sér en þetta hefur skilað einhverjum hafnargjöldum. Strandveiðarnar hafa lækkað fiskverð, laun sjómanna, vegna offramboðs. Fjölgað flutningabílum á þjóðvegunum og aukið kostnað fiskvinnslna við að sækja hráefnið vítt og breitt um landið. Hvert kíló af strandveiðifiski kostar þannig fleiri vinnustundir og olíu bæði á sjó og í landi.

Strandveiðar eru krúttlegar og pólitísk friðþæging en þjóðhagslega eins mikið klúður og ef öllum bændum væri skipað að ráða vinnufólk í að slá hluta af túnum sínum með orfi og ljá, handmjólka sumar kýrnar og elda hafragraut og baka brauð í kolaeldavél. Það væri vissulega atvinnuskapandi og spaugilegt fyrir túrhestana að horfa á.

Jós.T (IP-tala skráð) 7.5.2017 kl. 01:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband