Þegar Las Vegas var breytt.

Er það eingöngu jákvætt með tilliti til gróða af ferðaþjónustu að gera það sem allra dýrast að komast á magnaða áfangastaði? Veiðivötn júní 2017

Sumir halda því fram að keppa beri að því að ná sem mestu af hverjum erlendum ferðamanni og lokka þá, sem eru ríkastir hingað. 

En bitnar það þá ekki á þeim stöðum sem fjær liggja? 

Ekki verður um það deilt að borgin Las Vegas í Nevada í Bandaríkjunum er einhver ofhlaðnasta og yfirgengilegasta borg heims. Upp úr miðri síðustu öld var hún orðin að miðstöð skemmtanalífs af öllum toga, - þar létu frægustu stjörnur kvikmynda, tónlistar og íþrótta ljós sitt skína. 

En það var eftir því dýrt að koma þangað.

Þegar ég fór til Los Angeles 1968 til að skemmta Íslendingum, greiddur þeir flugfarið, og ég datt þá niður á ferðaskilmála þess efnis, að ef ég kæmi til fimm borga í fimm ríkjum í ferðinni, fengist helmings afsláttur á fargjaldi. 

Þær urðu New York, Washington, El Paso, Los Angeles, San Fransisco og Salt Lake City. 

Gerólíkar, - El Paso landamæraborg með mexíkóskum áhrifum. 

Það var að vísu upplifun að koma til Las Vegas, en á móti kom að einn sólarhringur og gistinótt þar var næstum jafn dýr og á öllum hinum stöðunum til samans. 

Að sönnu var ágætur gróði fyrir borgarbúa að gera borgina svona dýra, en þegar næst var komið til borgarinnar um síðustu aldamót, var þetta gerbreytt, og borgin hafði meðvitað verið gerð að mjög hagstæðum áfangastað og fjölskylduvænum. 

Gisting ekki dýr og í nágrenni borgarinnar víða mjög ódýr. 

Borgin orðin vinsælli en fyrr fyrir bragðið, enda varla hægt að hugsa sér hrikalegri "leikjasal" með eftirlíkingum af pýramídunum, London Bridge, Eiffelturninum og öðrum frægustu mannvirkjum heims á hverju götuhorni og gatan "The Strip" eftir endilangri borginni þannig úr garði gerð, að upplifun ímhyndunar og fáránleika sést þar meiri en nokkurs staðar annars staðar. 

Og möguleikar til afþreyingar eftir því. 

Orðspor er oft gulls ígildi og í Las Vegas hefur orðið mikil breyting á aðferðum við að laga orðsporið en fjölga jafnframt þeim sem finnst ágætt að setja sérkennilega upplifun af þessum sýningarsal fáránleikans í safn minninganna. 

Áður hefur því verið lýst hér á síðunni að það sé ekki einhlítt að eftirsóknarverðast sé að ná sem mestum peningum af hverjum ferðamanni og nefnd dæmi um hið gagnstæða. 

Það getur verið neikvætt að gera allt svo dýrt, að ferðafólk verði að neita sér um margt það sem gæti eflt orðspor lands og þjóðar. 

Til dæmis að komast til staða eins og Veiðivatna, en þar var yndislegt að vera í gær. 


mbl.is Reykjavík ein sú dýrasta í heimi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Veiðivötn eru jú einhver fallegasti staður landsins, en við hljótum að vera sammála um það Ómar, að sá staður, í um 600 m hæð og gróðurfar sem endurnýjast á hraða snigilsins getur alls ekki tekið við ferðamönnum. Nægur er ágangurinn af þeim sem stunda þarna veiðar. Bestu kveðjur og takk fyrir vaktina.

Sigurður Rúnar Jónsson (IP-tala skráð) 28.6.2017 kl. 19:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband