Barnaleikir til16 ára aldurs. Raunveruleikir til æviloka.

Fyrir daga sjónvarps og síðar tölvuleikja voru börn og unglingar ekki í vandræðum með að leika sér jafnvel án nokkurra tækja eða leikfanga. 

Úrval leikjanna var mikið og tíminn leið ljúflega. 

Gamlar dagbækur sýna að í götunni, sem ég ólst upp í, Stórholtinu, var enn verið að "verpa eggjum" þegar komið var á 16. aldursárið, og þátttakendurnir orðnir svo stórir og öflugir, að gatan var orðin of mjó fyrir feril boltans. 

Hoppin í París eða Paradís voru orðin svo löng, að það varð að lengja Parísinn verulega til þess að hann stæði ekki alltof stutt yfir. 

Í nokkrum dægurlagatextum frá því fyrir rúmri hálfri öld eru ýmsir barnaleikir nefndir, svo sem fallin spýtan, stórfiskaleikur, að hlaupa í skarðið, kýlubolti, fimmaurahark, sipp, snú-snú, parís, þrautakóngur og að verpa eggjum, svo að eitthvað sé nefnt.

Þessir leikir kröfðust líkamlegrar færni og hollrar hreyfingar sem tölvuleikir nútímans eru flestir svo gersneyddir að ef ekki verður að gert, mun það verða hluti af mesta heilsuvandamáli 21. aldarinnar.  TF-RÓS og máninn

Leikir barna og unglinga eru mikilvægur þáttur í að búa sig undir að takast á við verkefni lífsins og hætta ekki að leika sér af því að maður verður gamall, heldur að sporna við því að verða gamall við að hætta að leika sér.

Það var ekki enn runnið af fullum mánanum í kvöld eftir verslunarmannahelgina þegar hann gægðist forvitinn upp fyrir eitt af fellunum suðaustan við Mosfellsbæ til að forvitnast um, hvað væri að gerast á Tungubakkaflugvelli í kvöld.  

Jú, gamall flugmaður var að halda sér við eins og hann hefur gert í rúma hálfa öld með því að láta helst aldrei líða meira en þrjár vikur á milli þess sem farið er í loftið til flugæfinga til að halda sér við. 

Og hafa í huga, að maður hættir ekki að leika sér vegna þess að maður verði gamall, heldur verður gamall vegna þess að vera hættur að leika sér. 

Í þetta sinn voru þrjú flugtök og þrjár lendingar á TF-RÓS innifaldar í því að leika sér í fullri alvöru til að ryðga ekki í fluglistinni, því næstbesta sem rekið hefur á fjörur hins gamla á ævi hans. 


mbl.is Afturhvarf til leikfanga fortíðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, aldrei verður nóg flogið. Ég sé alltaf eftir því að láta réttindin renna út, þótt vitaskuld væri nóg annað við aurana að gera á þeim tíma. #2063

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 8.8.2017 kl. 08:32

2 identicon

Flott Ómar, keep going, keep flying. Segi það sama og Þorvaldur S., hefði ekki átt að láta réttindin renna út eftir meira en 1100 flugstundir, IFR réttindi, professional réttindi og 5 flug frá Sviss til Húsavík. Þrjú flug til Grikklands, einnig til Írlands, Spánar, Ítalíu og nágrannalanda Sviss. Og ekkert annað við aurana að gera.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 8.8.2017 kl. 10:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband