Aðlögunarhæfnin er aðalatriðið.

Best heppnuðu fyrirbærin í íslenskri flugsögu byggðust á aðlögunarhæfni, færni á að nýta sér aðstæður. 

Þegar flugleiðum innanlands var skipt upp með valdboði ríkisins 1953 fannst Loftleiðamönnum svo gengið á hlut sinn á þessum tiltölulega litla markaði að þeir leituðu nýrra leiða erlendis.

Björgunaraðgerðir Loftleiða fólust í að nýta sér aðstöðu Íslands í Kalda stríðinu gagnvart Bandaríkjamönnum og finna glufu til þess að fara fram hjá IATA, Alþjóðasambandi flugfélaga, sem var nokkurs konar OPEC á í heimsfluginu. 

Með sérstökum loftferðasamningi við Bandaríkin gerðust Loftleiðir brautryðjendur í lággjaldaflugi, sem byggðist á þessum samningi og að nota ódýrari og aðeins eldri flugvélar en keppinautarnir. 

Loftleiðir voru eina flugfélagið sem nýtti sér lengstu gerð Canadair-44 fragtflugvélanna sem voru með skrúfuþotuhreyflum. 

Til að bæta ímyndina fengu Loftleiðir leyfir framleiðenda skrúfuþotuhreyflanna til þess að nefna vélarnar Rolls-Royce 400. 

Markaðurinn fyrir farþegaflug í heiminum er í sífelldri umsköpun og breytingu. 

Gengi flugfélaga ræðst í meginatriðum af því að ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein um allan heim og að nýjar þjóðir með auknum þjóðartekjum og velmegun hafa komið á markaðinn, svo sem Kínverjar og fleiri Asíuþjóðir. 

Það þýðir að nýjar flugleiðir og tengiflug verða möguleg. 

Þá þarf að líta á hnattlíkanið frá nýjum sjónarhornum. 

Sem dæmi um annað sjónarhorn á flugleið má nefna að stysta leið frá Kaupmannahöfn til Alaska liggur yfir Norðurpólinn. 

Samsetning flugflotans er mikilvæg. Icelandair hefur orðið að bæta breiðþotu af gerðinni Boeing 767 í flotann til að bæta sér upp missi í burðargetu í hinum smærri Boeing 737 vélum, sem félagið hefur keypt. 

Boeing 767 breiðþotan hentar vel að því leyti að hún og 757 hafa nánast sama flugstjórnarklefa. 

Þegar félagið keypti Boeing 757-300 var það eina áætlunarflugfélagið í heiminum, sem keypti slikar vélar til langferða. Hin flugfélögin voru pakkaflugfélög, leiguflugfélög, lággjaldaflugfélög og kaupin byggðust á sparneytni þessarar lengstu mjóu farþegaþotu sem smíðuð hefur verið. 

Rekstur Wow Air stendur og fellur með því að sýna sem mesta aðlögunarhæfni og nýta til þess fjölbreytilegan flugflota af ýmist mjóum eða breiðari þotum eftir aðstæðum, sem Airbus býður upp á. 

Boeing geldur þess enn, að upprunalega þotan þeirra, Boeing 707, var hönnuð fyrir næstum 70 árum þegar farþegar voru minni um sig en nú, og að "afkomendurnir" í flokki mjórra skrokka mættu vera aðeins breiðari. 

En vegna mjög harðnandi samkeppni hafa ýmis flugfélög hyllst til að minnka svo bil á milli sætaraða að það veldur farþegum óþægindum. 

Ég hef tekið eftir því að hjá Icelandair hefur að minnsta kosti í sumum þotunum verið unnið á móti því að sætabreiddin er takmörkuð með því að hafa bilið á fram og aftur á milli sætaraða meira. 

Sömuleiðis eru birta og hönnun innréttinda sterkt sálfræðilegt atriði. 

Eitt stórt verkefni varðandi það að vera með sem mesta aðlögunarhæfni að kröfum flugfarþega getur til dæmis verið það hvernig Kínverjar geti leyst sínar þarfir til flugs.

Asíuflugið verður sífellt mikilvægara.  

Á tímum netsins leitar fólk, þar á meðal Kínverjar, að mismunandi möguleikum, þar sem upp geta komið tengiflug, sem koma á óvart en gefa hagstæðari niðurstöðu en mjög langt flug í einum áfanga. Og öfugt. 


mbl.is Asíuflugið sóknar- og varnarleikur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband