Orsakir matareitrunar eru oft lúmskar.

Matareitrun getur verið lúmsk. Dæmi: Herranótt M.R. var gefið tækifæri til að forðast það að verða lögð niður 1958. Tap hafði verið á henni og þótti það ekki viðunandi. 

En með mikilli fórnfýsi og val á "kassastykkinu" Vængstýfðir englar tókst að græða á henni 1958 vegna góðrar aðsóknar og margra sýninga, meðal annars úti á landi. 

Leikhópnum var boðið í kvöldmat þegar sýnt var í Hveragerði. Ég hafði stundað það fráleita sport um nokkurra ára skeið að stunda kappát einstaka sinnum og var ákveðið að nú skyldi staðið við stór orð um þetta með því að efna til kappáts við borðið, sem snerist upp í einvígi mitt við Lúðvík B. Albertsson sem var heljarmenni og hafði sumarið áður meira að segja gegnt stöðu lögregluþjóns á Siglufirði. 

Leikar fóru svo eftir hrikalegt át okkar beggja að hann varð að játa sig gersigraðan. 

En leiknum lauk ekki þarna. 

Seinna um kvöldið urðu síðan matargestirnr að mér einum undanskildum fárveikir af matareitrun, varð að fara með suma undir læknishendur og ferð frestað til Reykjavíkur.

Frétt af þessu rataði meira segja í eitt af dagblöðunum, Tímann að mig minnir. 

Lúðvík varð einna veikastur og þótti það bæði afar ósanngjarnt og ótrúlegt að ég skyldi sleppa aleinn frá þessu snarpa eitrunaráhlaupi. 

En einmitt það atriði, að ég slapp einn, leysti gátuna um uppruna eitrunarinnar. 

Það kom í ljós að ég var sá eini við borðið sem ekki hafði borðað grænu baunirnar, sem voru á boðstólum, en Lúðvík hafði hámað þær í sig. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Varðstu ekki líka stórvinur Steingríms Hermannssonar síðar meir? Fyrirboði?

Halldór Jónsson, 29.8.2017 kl. 08:05

2 identicon

Skýzt þótt skýr sé. Leikritið sem sýnt var í ferð til Flúða og Selfoss í janúaar 1958 var ekki "Vængstýfðir englar" (sýnt árið áður), heldur Þrettánda kvöld Shakespeares í þýðingu Helga Hálfdánarsonar.

Við vorum örfá sem fórum ekki í mat í Hveragerði og fengum því ekki matareitrun. En skelfilegt var að  sjá þjáningar þeirra sem urðu veik.

Jakob

Jakob R. Möller (IP-tala skráð) 29.8.2017 kl. 08:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband