Ógleymanleg bið á skyndibitastað. Fágætt menningar- og uppeldisafrek.

Fyrir um fjórum áratugum átti ég erindi í skyndbitastaðinn Ask við Suðurlandsbraut. 

Þar var mikil örtröð þegar inn var komið, og að öllu jöfnu hefði blasað löng og leiðinleg bið eftir því að verða afgreiddur. 

En í staðinn varð þessi biðtími að ógleymanlegri stund sem leið svo undra fljótt.

Hluti af viðskiptavinunum var hópur ungs fólks, sem byrjaði að syngja eins og englakór. 

Þessi hressilegi hópur var sem sé hluti af Kór Menntaskólans í Hamrahlið. Biðtíminn varð að stund gleði, lífsnautnar og einstakrar listrænnar stemningar. 

Og manni varð hugsað til þess hve það hefði verið enn meira gaman í M.R. á sínum tíma ef svona stórkostlegt kórstarf hefði verið þar.  

Hálfrar aldar starf Þorgerðar Ingólfsdóttur sem kórstjóri Kórs Menntaskólans við Hamrahlíð felur ekki aðeins í sér fágætt afrek þegar litið er á langan lista viðurkenninga og sigra, heldur ekki síður varðandi þann stórkostlega uppeldisárangur og fordæmi, sem starf hennar hefur falið í sér. 

Þorgerður eða Obba eins og hún var snemma kölluð, fékk í vöggugjöf bestu eiginleika mikilhæfra foreldra sinna, Ingólfs Guðbrandssonar og Ingu Þorgeirsdóttur, tónlistarhæfileika, dugnað og marksækni í bland við ljúfmennsku og geislandi samkenndar og góðvildar. 

Sannaði gildi þess að leggja sig fram við að ná háleitu markmiði sem gæfi mikið af sér. 

Ég átti þess kost þegar ég var nemandi í Laugarnesskólanum að koma nokkrum sinnum í heimsókn og kynnast lítillega gefandi fjölskyldulífinu í litla húsinu við Hofteig, þar sem þau Ingólfur og Inga bjuggu með ungum dætrum sínum. 

Það skildi eftir eftirminnilegar og dýrmætar minningar. 

Síðar söng einn sona minna í Hamrahlíðarkórnum og naut alltumvefjandi hlýju og kærleika kórstjórans, tákn þess hve það er gott að eiga góða að. 

Það er meira en að segja það að halda uppi kór í hæsta gæðaflokki á alþjóðlegan mælikvarða í skóla hjá fámennri þjóð.

Hið hraða og sífellda gegnumstreymi nemenda þýðir, að á hálfri öld hafi þurft að laða fram nýjan afburðakór tólf sinnum.

Mikilvægast er þó það mikla starf varðandi uppeldi sem felst í því að glæða þroska og lífsfyllingu hjá öllum þeim fjölda ungmenna sem notið hafa leiðsagnar afburða menningar- og uppeldisfrömuðs.  

 


mbl.is Hættir störfum á 50 ára starfsafmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það var einnig kór í M.A., en ég man ekki eftir að hafa heyrt í honum. En sagan segir að ef einhver var með læti og lét sér ekki segjast var honum hótað að skólakórinn yrði sóttur og látinn syngja.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 6.9.2017 kl. 14:35

2 identicon

Ómar.

Ég þakka þér fyrir þennan pistil sem, eins og flestir  pistlar þínir, ber vott um alltumvefjandi hlýju og kærleika. 

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 6.9.2017 kl. 16:06

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, Haukur, það var líka gantast með það 1967 að með tónleikaferð Karlakórs Reykjavíkur til Tyrklands hafi Tyrkjaránsins loks verið hefnt.

Gallinn var bara sá að "Tyrkirnir" voru í raun sjóræningjar frá Alsír.  

Ómar Ragnarsson, 6.9.2017 kl. 18:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband