Mótsagnirnar í kjördæmamörkunum.

Rökin fyrir því að skipta löndum í kjördæmi hafa verið sú, að mismunandi landshættir geri það að verkum að bæði menning og hagsmunir séu misjöfn á milli landshluta og héraða og einnig sé gott að sem nánast samband og tengsl séu á milli þingmanna og kjósenda. 

Þegar kjördæmin voru stækkuð þannig að þau urðu sex í stað átta var báðum þessum atriðum riðlað og það á mismunandi hátt. 

Vesturland og Norðurland vestra voru sameinuð í Norðvestukjördæmi, Norðurland eystra og Austfirðir sameinuð í Norðausturkjördæmi, og Suðurland og Reykjanes sameinuð í Suðurkjördæmi. 

Öll þrjú kjördæmin eru of stór, ekki aðeins vegna þess hvað erfitt er fyrir þingmenn að sinna tengslum við kjósendur, heldur ekki síður vegna misjafnra hagsmuna innan kjördæmanna. 

Þannig eiga kjósendur á Akranesi, í Bolungarvík og í Fljótum í Skagafirði fátt sameiginlegt. 

Kjósendur á Siglufirði og á Djúpavogi eiga fátt sameiginlegt. 

Og kjósendur í Vogunum eiga fátt sameiginlegt með Hornfirðingum.

En síðan kom svo brandarinn, að skipta Reykjavík, sem er eitt sveitarfélag, í tvö kjördæmi. 

Rökin voru þau að Reykjavík væri svo fjölmennt kjördæmi, að það yrði að búta það niður í tvennt til þess að minnka áhrif íbúanna, sem þó hafa alla tíð búið við stórlega skert vægi atkvæða. 

Þar að auki hefur fjölmennið orðið til þess að svonefnt kjördæmapot hefur verið minna hjá Reykjavíkurþingmönnum en víðast annars staðar. 

Grafarvogshverfi í Reykjavík er álíka fjölmennt og Akureyri og næstum tíu sinnum fjölmennara en Siglufjörður eða Húsavík, en aldrei heyrist talað um þarfir Grafarvogsbúa eða þingmenn, sem sinni þeirra kjörum og einstöku málum persónulega. 

Miðað við þá forsendu kjördæmaskipunar að skipta ætti landinu í kjördæmi vegna þess að hagsmunir væru misjafnir á einstökum svæðum, hefði mátt halda að eðlilegast væri að skipta Reykjavík í tvennt við Eilliðaárnar, þannig að úthverfin yrðu sérstakt kjördæmi. 

En það var öðru nær. Vegna hættu á "kjðrdæmapoti" innan Reykjavíkur var ákveðið að skipta Reykjavík þannig, að sem minnstur munur væri á hagsmunum, og þess vegna sitja menn uppi með hina hlægilegu skiptingu eftir endilangri borginni, sem líka þarf að breyta fyrir hverjar kosningar. 


mbl.is Kjördæmamörkin ákveðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þingmenn Reykjavíkurkjördæmanna líta að sjálfsögðu á sig sem þingmenn fyrir Reykjavík alla en ekki eingöngu hluta Reykjavíkur.

Þorsteinn Briem, 3.10.2017 kl. 19:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband