"Hvort eð er" röksemdin og bilanir öfugu megin við tengingu.

"Hvort eð er" röksemdin hefur verið fyrirferðarmikil hjá virkjanamönnum í gegnum tíðina. 

Nú er hún orðuð þannig að það sé "hvort eð er" komið svo langt í undirbúningi fyrir Hvalárvirkjun að ekki verði aftur snúið. 

Náttúruverndarsamtök eru ásakaðar fyrir að hafa ekki fyrr sýnt andstöðu við virkjunina. 

Ef þau hefðu gert það hefðu þau verið ásökuð um að vaða fram áður en Skipulagsstofnun væri búin að skoða málið. 

Sífellt er klifað á því að það að virkjanakostur fari í svonefndan nýtingarflokk hjá rammaáætlun (þetta er leiðandi heiti því að í verndun felst yfirleitt líka nýting) þýði sjálfkrafa að virkjað verði. 

Það er alrangt, því að ef það væri svo, þyrfti ekkert álit Skipulagsstofnunar né mat á umhverfisáhrifum. 

Á korti sem sýnt er yfir bilanir á Vesturlínu sést, að nær allar bilanirnar verða fyrir vestan Kollafjörð þar sem línan á að koma frá Hvalárvirkjun inn á Vesturlínu. 

Hvalárvirkjunarlínan mun sáralitlu breyta um bilanatíðnina, sem framkvæmdastjóri Vesturverks segir að hafi verið ástæða þess að hann og Vesturverk fóru af stað með þetta verkefni. 

Fyrir liggur að það verkefni að styrkja Vesturlínu eða leggja línu um Ísafjarðardjúp til Ísafjarðar yrði svo dýrt að það yrði augljóslega ekki gert. 

Merkilegt er að úr því að framkvæmdastjóranum fannst nauðsynlegt að virkja til að minnka rafmagnstruflanir vestra skyldi hann ekki fara í að virkja í botni Hestfjarðar eða Skötufjarðar, sem er margfalt nær Ísafirði en virkjun hinum megin á Vestfjarðakjálkanum. 

Röksemdin varðandi sparnað á útblæstri varaaflstöðva dettur dauð niður en í staðinn kæmi aukalega útblástur allra hinna stórvirku vinnuvéla sem notaðar yrðu við virkjunina.  


mbl.is „Nú förum við og virkjum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Við mætum seint með fátækleg rök því við erum svo hræddir við gagnrýni" afsökunin hefur verið fyrirferðarmikil hjá andstæðingum virkjanna í gegnum tíðina. Segja náttúruverndarsamtök hræðast að sýna andstöðu svo þau verði ekki ásökuð um að vaða fram áður en stofnanir séu búnar að skoða málið. Kanntu annan? Er ekki málið að það fælir mest að mæta seint og valda með slórinu hámarks skaða? Sérstaklega þegar engin haldbær rök eru fyrir stöðvun framkvæmda.

Ég hef ekki orðið var við neina hræðslu náttúruverndarsamtaka að segja sína skoðun strax og hugmyndir að virkjunum kvikna, sé þar eitthvað sem snertir náttúruvernd en ekki bara andstaða við allar virkjanir.

Hábeinn (IP-tala skráð) 15.10.2017 kl. 03:22

2 identicon

vinnuvélar fara þegar virkjun líkur. svo það eru varla rök í málinu, ekki átta ég mig á þeim vanda að legja in djúpið. ekki skil ég þessa línulögn sem áætlun er 

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 15.10.2017 kl. 07:25

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ómar Ragnarsson 4.9.2013:

"
Það er ein síbyljan að svokallaðir "umhverfisfasistar" eða "umhverfisöfgamenn" séu á móti öllu, á móti öllum virkjunum, á móti atvinnuuppbyggingu, á móti rafmagni og á móti framförum.

Ekki ber nú Búðarhálsvirkjun vitni um það, þar sem síðasta sprengingin var sprengd í dag.

Og ekki heldur þær ca 25 af 30 stórum virkjunum, sem hafa verið reistar vítt og breitt um landið án andstöðu "umhverfisöfgamanna" þannig að nú framleiðum við Íslendingar 4-5 sinnum meira rafmagn en við þurfum til okkar eigin nota."

Þorsteinn Briem, 15.10.2017 kl. 11:06

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ómar Ragnarsson 10.2.2016:

"
Nú þegar hafa verið reistar um 30 virkjanir á Íslandi, sem varla geta talist smávirkjanir, - á Tungnaár- og Þjórsársvæðinu er Búðarhálsvirkjun ný virkjun, og stækkun Búrfellsvirkjunar er stórvirkjun.

Þessar tvær rísa "hljóðalaust" ef svo má segja, - enginn sérstakur ágreiningur hefur komið fram um þær.

Af um 30 meðalstórum og stórum virkjunum, sem risið hafa, hefur verið eða er ágreiningur um um það bil fimm.

Nýju stórvirkjanirnar, og tilvist um 30 virkjana á undan þeim er á skjön við þá síbylju að náttúruverndar- og umhverfisverndarfólk á Íslandi sé "á móti öllum virkjunum," "á móti rafmagni," "á móti atvinnuuppbyggingu" og "vilji fara aftur inn í torfkofana."

Þjóð, sem hefur virkjað fimm sinnum meira rafmagn en hún þarf fyrir eigin heimili og fyrirtæki er ekki "á leið inn í torfkofana.""

Þorsteinn Briem, 15.10.2017 kl. 11:13

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekki veit ég til þess að Ómar Ragnarsson hafi verið á móti til að mynda álverinu í Hafnarfirði, Búðarhálsvirkjun, Bláa lóninu eða nýjum 57 kílómetra löngum Suðurstrandarvegi á milli Þorlákshafnar og Grindavíkur, eða einhverjir Íslendingar séu á móti raforku.

Þorsteinn Briem, 15.10.2017 kl. 11:15

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Raforkuvinnsla hér á Íslandi árið 2008 var 16,467 GWh og hafði þá aukist frá árinu áður um 37,5%.

Og notkunin á íbúa jókst úr 38,5 MWh í 51,6 MWh.

Árið 2002 varð raforkunotkunin hér sú mesta í heiminum á mann
en áður hafði hún verið mest í Noregi.

Þorsteinn Briem, 15.10.2017 kl. 11:20

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Við Íslendingar erum með minnstu þjóðum í heiminum.

Við erum þó með mestu fiskveiðiþjóðum í heiminum og þar er ekki miðað við höfðatölu.

Árið 2002 varð raforkunotkunin hér sú mesta í heiminum á mann.

Og búist er við að um tvær milljónir erlendra ferðamanna dvelji hér á Íslandi á þessu ári.

Samt er það ekki nóg
fyrir örþjóðina Íslendinga.

Þorsteinn Briem, 15.10.2017 kl. 11:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband