Styttur af hershöfðingjum nasista?

Víða eru styttur af hershöfðingjum sem stóðu stöðu sinnar vegna fyrir manndrápum í stórum stíl. 

Napóleon Bonaperte var einn mesti "hernaðarsnillingur" sögunnar og fór með himinskautum um og eftir aldamótin 1800 og þegar sigurferli hans lauk endanlega um 1815 skildi hann eftir sig slóð fallinna og særðra á orrustuvöllum um mestalla álfuna. 

Hann hristi hins vegar upp í stöðnuðu aðalsveldi og trénuðu valda- og lagakerfi álfunnar og á því sviði markaði hann spor inn í nútímann. 

Hershöfðingjar eru misjafnir eins og aðrir, og sumir af hershöfðingjum Hitlers þóttu "heiðvirðari" en aðrir. 

Eric Manstein var talinn þeirra snjallastur en Erwin Rommel naut þó meiri frægðar vegna frammistöðu sinnar á Vesturvígstöðvunum og þó einkum í eyðimerkurhernaðinum í Norður-Afríku þar sem hann hlaut viðurnefnið "Eyðimerkurrefurinn". 

Bæði þar og á Vesturvígstöðvunum var barist á "mannúðlegri" hátt en á öðrum vígstöðvum ef hægt er að nota orðið mannúð um hernað og manndráp og örkumlanir hans. 

En það eimdi lengi eftir af svonefndu "heiðursmannayfirbragði" í stíl aðalsmanna allt fram í Seinni heimsstyrjöldina á afmörkuðum svæðum í því stríði og mannfallið var mun minna á þeim svæðum en annars staðar. 

Rommel reis gegn Hitler að lokum og galt fyrir með lífi sínu. Hvort það hefði átt að nægja til þess að honum væri reistur minnisvarði er þó vafasamt vegna þess að hann vígðist hinu illa valdi á meðan vel gekk. 

"Sigurvegarar skrifa söguna" er stundum sagt, og Bretar eru ekki feimnir við að reisa sínum hershöfðingjum minnisvarða, jafnvel þótt sumir þeirra hafi verið verkfæri þess oft á tíðum hrikalega ofbeldis sem notað var við að leggja hálfa heimsbyggðina undir breska heimsveldið. 

Þar var þrælahald löngum sjálfsagður hlutur og Hitler gat ekki dulið aðdáun sína á þrælahaldi og yfirgangi sem var undirstaða breska heimsveldisins, hét því meira að segja í friðarboði sínu sumarið 1940 að verja breska heimsveldið og tortíma hverjum þeim sem réðist gegn því, bara ef Bretar myndu láta af andófi sínu gegn Öxulveldunum. 

Hershöfðingjar Hitlers þjónuðu einhverju hugmyndum um eitthvert stórfelldasta og víðtækasta þrælahald og misrétti þjóða sem hugsast gat. 

Rétt eins og öfgafullir múslimar geta nýtt sér einstaka kennisetningar úr Kóraninum til þess að réttlæta óhæfu sína, væri hægt að álykta sem svo að þrælahald sé réttlætt í Biblíunni í boðorðinu umm að menn skuli ekki girnast konu náungans, þræl hans eða ambátt." 

Og þótt bandaríska stjórnarskráin hefði sem aðalstef að allir menn væru fæddir jafnir, tíðkaðist þrælahald í hátt í heila öld undir hatti hennar. 

Til þess að koma í veg fyrir að slíkt geti gerst á vorum dögum er í mannréttindaákvæðum nútímalegra vestrænna stjórnarskrá notuð ákveðin upptaling á nokkrum höfuðafbrigðum mannréttinda og orðin "svo sem" höfð fyrst til að negla fast, að upptalningin sé ekki tæmandi. 

Jafnréttið skal gilda í hvívetna, svo sem varðandi kyn, aldur, þjóðerni, kynþátt o.s.frv. 

Ef orðið þrælahald hefði verið í slíkri upptalningu í bandarísku stjórnarskránni frá upphafi hefði hundruðum þúsund mannslífum verið bjargað. 

En stór hluti ríkisins var háður þrælahaldi og þess vegna var það látið viðgangast jafn lengi og raun bar vitni, þrátt fyrir allt jafnréttistalið.

Lagaumhverfi í þessum málaflokki er í sífelldri þróun. Í starfi stjórnlagaráðs munaði hársbreidd að orðinu "kynvitund" yrð bætt inn í upptalningu helstu réttinda. 

Tillaga um það féll á jöfnum atkvæðum ef ég man rétt. 

Fulltrúar þessa fólks, svo sem transfólks, voru í hópi fjölmargra sem komu á fund okkar til að upplýsa um mál sín, og er óhætt að segja að þessir fulltrúar, sem lýstu yfir því hvernig það væri líkt og fangar í eigin líkama og þyrftu að þola mikla fordóma og fáfræði, hefðu mikil áhrif á þau okkar, sem hittu þau. 

Nú, sex árum síðar, er ég nokkurn veginn viss um að það munaði aðeins nokkrum árum að orðið kynvitund væri í nýrri íslenskri stjórnarskrá.  

 


mbl.is „Robert E. Lee var heiðvirður maður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Á Arnarhóli er stytta af þrælahaldaranum Ingólfi Arnarsyni.

"
Sagan segir að hann hafi kastað öndvegissúlum sínum fyrir borð áður en hann kom að landi og svarið að setjast að þar sem þær kæmu að landi vegna þess að þar myndu goðin vilja að hann byggi.

Hann sendi svo þræla sína Karla og Vífil til að leita þeirra og fundu þeir þær við Arnarhvol í Reykjavík."

"Samkvæmt Landnámu hljópst Karli á brott frá húsbónda sínum ásamt ambátt en þau fundust síðar að Reykjum í Ölfusi.

Karlagata í Reykjavík dregur nafn sitt af honum."

"Samkvæmt Landnámu hlaut Vífill síðar frelsi og setti niður bú sitt að Vífilsstöðum.

Vífilsgata í Reykjavík og Vífilsfell draga einnig nafn sitt af þrælnum Vífli."

Þorsteinn Briem, 1.11.2017 kl. 08:02

2 identicon

"Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar," er víst ekki nægilega skýrt og því þörf á að telja upp á nokkrum blaðsíðum, og listinn er víst ennþá að lengjast, trúarbrögð, uppruna, háralit, hæð, skóstærð, kynvitund, arfgerð, skoðanir, ætterni, búsetu o.s.frv. o.s.frv. svo ekkert fari milli mála. Var "Öll" of óljóst fyrir stjórnlagaráð?

Hábeinn (IP-tala skráð) 1.11.2017 kl. 12:14

3 identicon

Hélt að einhver hefði e.t.v. verið gerður höfðinu styttri af hershöfðingjum nasista. En svo var bara átt við marmara og bronz. 

Haraldur (IP-tala skráð) 1.11.2017 kl. 12:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband