Helst mögulegt í góðæri.

Dæmi um stjórnarmyndun yfir allt litrófið vinstri-hægri eru af augljósum ástæðum ekki mörg í íslenskri pólitík.

Til þess að slíkt sé hægt þurfa sameiginlegir hagsmunir tveggja "turna" að vera það miklir að það vegi upp málefnalega erfiðleika í slíku samstarfi. Einnig þarf að vera orðið nokkuð fullreynt að annað stjórnarmynstur gangi ekki upp. 

Dæmi um sameiginlega hagsmuni og / eða fullreynda aðrar möguleika er myndun "þjóðstjórnar" 1939 með þátttöku allra þingmanna nema þriggja. 

Í Evrópu var yfirvofandi stórstríð og Ísland var nær gjaldþroti en nokkru sinni fyrr. 

Þjóðstjórnin sat í fjögur ár, og eftir að hún sprakk fannst ekkert annað stjórnarmynstur í tvö ár og utanþingsstjórn sat á meðan. 

Þá tók við stjórn "yfir línuna" með því að Sjallar og sósíalistar mynduðu stjórn án næststærsta flokksins, Framsóknarflokks, og Ólafi Thors tókst að "fiffa" krata til að vera með með því að samþykkja einhverjar bestu almannatryggingar á byggðu bóli. 

Slíkt hefði verið ómögulegt fyrir Sjalla nema í mesta peningalega góðæri, sem gengið hafði yfir þjóðina. 

Gjaldeyrissjóðir landsmanna voru svo rosalega digrir erlendis að auk peninga til trygginga var fé til þess að umbylta sjávarútvegi með kaupum á nýtísku togurum fyrir bæði einarekin sjávarútvegsfyrirtæki og bæjarútgerðir. 

Ofan á þetta varð kaupmáttur langtum hærri en nokkru sinni í sögunni og á brast innflutningsæði og einkaneysla af nýrri stærð. 

Allt þetta þjónaði hagsmunum bæði verkalýðs og stóreignamanna, en gjaldeyrisforðinn þurrkaðist upp á tveimur árum og á skall mikil kjaraskerðing og vöruskömmtunarkerfi sem stóð til 1960. 

1980 var skollin á mesta alþjóðlega orkukreppa sögunnar með stórhækkun olíuverðs og verðbólgan var í nýjum hæðum. 

Þá var stjórnarkreppa leyst með því að hluti Sjálfstæðisflokksins gekk til liðs við Framsókn og Alþýðubandalag. 

Núna verður ástandinu helst líkt við 1944. Það eru ennþá peningar í spilunum, líkt og þá.

Í lokakappræðum stjórnmálaforingjanna fyrir kosningar var talað meira um peninga og nefndar fleiri og stærri milljarðatölur en heyrst hafa fyrr í slíkum umræðum.

En að vísu ríkir óvissa um kjarasamninga og spáð er minnkandi hagvexti. En það gerir stjórn á breiðum grundvelli jafnvel nauðsynlegri í hugum margra, jafnt til hægri og vinstri. 

Síðast þegar Vg var í stjórn var það brunarústastjórn með erfiðustu verkefnum sem nokkur stjórn hafði fengist við fram að því og ekki möguleiki á neinu öðru en að gera óvinsælar ráðstafanir. 

Það er óvíst að Vg muni bjóðast annað jafn gott tækifæri og nú til að vera í annars konar stjórn, sem hefur úr einhverju að spila.

Sagt er að Katrín geri kröfu um forsætisráðherrastól, en í raun er staða Sigurðar Inga Jóhannssonar sterkust ef togast verður á um forsætisráðuneytið. 

Hjörleifur Guttormsson stakk strax upp á slíkri stjórn um daginn. Það segir sína sögu.  


mbl.is Sjálfstæðisflokkur sér tvo vænlega kosti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar kolféll fyrir tíu dögum og nú á það sem sagt að vera hlutverk Vinstri grænna að endurreisa þá ríkisstjórn, sem Björt framtíð og Viðreisn stórtöpuðu á að taka þátt í og Vinstri grænir hefðu að sjálfsögðu einnig gert.

Framsóknarflokkurinn hefur ekki verið minni í hundrað ára sögu flokksins, jafn lítill og flokkurinn var í fyrrahaust þegar hann beið afhroð í alþingiskosningum, og þá á sem sagt staða Sigurðar Inga Jóhannssonar að vera "sterkust".

Þetta er nú ljóta bullið í þér, Ómar Ragnarsson, en kemur þó ekki á óvart miðað við fyrri "fréttaskýringar" þínar um innlend og erlend stjórnmál.

Og ekki kemur heldur á óvart að Hjölli Gutt þykist geta verið aftursætisbílstjóri í ríkisstjórn þar sem Sjálfstæðisflokkurinn yrði langstærstur og stjórnaði því sem hann vildi stjórna eins og hann gerði í síðustu ríkisstjórn.

Þorsteinn Briem, 8.11.2017 kl. 08:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband