Tvö yngstu gljúfrin í aldarbyrjun, en öðru þegar tortímt.

Rétt er að ítreka það sem hefur komið fram áður á þessari síðu, að yngstu gljúfur Evrópu voru í byrjun þessarar aldar tvö en ekki eitt. Bæði voru einkum mikils virði og upplifun fyrir þá sem sáu þau, að það, að horfa á Hverfisfljót og Jökulsá á Brú hamast við að sverfa þau og skapa eins og afkastamiklir listamenn. Hjalladalur.Stapar

Fyrir tæpri öld var ekkert gljúfur þar sem áin rann á innan við öld síðar um svonefnda Stapa um sérstaklega litfagurt gljúfur og einnig um Rauðuflúð og Rauðagólf, sem drógu heiti sín af litnum. 

Það var svonefnt flikruberg sem gaf gljúfrinu, klettunum, flúðinni og hinu halland steingólfi litadýrð sína. 

En 2006 var þessi stórbrotna sköpun stöðvuð og þetta gljúfur mun aldrei að eilífu birtast á ný, því að verið er í óða önn að sökkva því í þann aur, sem Jökla er nú að fylla Hjalladal með, 25 kílómetra langan og 180 metra djúpan. 

Þetta einstæða fyrirbrigði var ekki metið krónu virði þegar því var tortímt. 

Heldur ekki mesta hjallamyndun landsins eða 40 ferkílómetrar af svo vel grónu landi, að þar var beitt sauðfé í meira en 600 metra hæð yfir sjávarmáli og hreindýrin áttu þar griðland þegar mest svarf að þeim seint á 19. öld. Efst til vinstri á myndinni sést glytta í svonefndan Háls, samfellda margra metra þykka gróðurþekjuna sem Hálslón dregur nafn af, en undir honum var hjallaröð með grænum rennisléttum grundum og heitri lind. 

Þetta gljúfur er liklegra enn yngra en gljúfrið í Hverfisfljóti, en það skiptir ekki höfuðmáli, því að hið skaftfellska gljúfur er bæði jarðfræðilega og sögulega merkilegt. 

Í Skaftáreldum voru bæði Skaftárgljúfur og fyrrum gljúfur í Hverfisfljóti fyllt af nýju hrauni. 

Skaftá hefur ekki tekist enn að endurvinna sitt gljúfur en Hverfisfljót er á fullu við það. 

Við það að taka vatnið úr gljúfri Hverfisfljóts verður hinn stórvirki listamaður náttúrunnar stöðvaður við listsköpun sína, en að vísu mun eitthvað seytla um það en auðvitað miklu minna virði eftir að listamaðurinn hefur verið fjarlægður. Leirfok, Kárahnjúkar

P.S. Vegna sérlegra fáfræðiskrifa leynihöfundarins Hábeins í athugasemd bæti ég hér við loftmynd af lónstæði Hálslóns eins og það lítur út á heitustu og björtustu dögum snemmsumars, þegar hlýr hnjúkaþeir blæs úr suðri yfir þetta svæði. Hjalladalur.Stapar


mbl.is Skiptar skoðanir á virkjun Hverfisfljóts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Semsagt eyðilegging jökulár á ómetanlegu ósnortnu landi með stórfelldu rofi hefur verið stöðvuð. Óumbeðið gljúfrið mun aldrei að eilífu birtast á ný, því að verið er í óða önn að fylla það á ný. Náttúra landsins sigrar eyðingaröflin eina ferðina enn.

Gljúfrið í Hverfisfljóti er merkilegt, því að í Skaftáreldum voru bæði Skaftárgljúfur og fyrrum gljúfur í Hverfisfljóti fyllt af nýju hrauni. Djúp sárin fylltust einstöku hrauni sem er hluti af stærri heild sem hvergi finnst annarstaðar á jörðu. Við það að taka vatnið úr gljúfri Hverfisfljóts verður hinn stórvirki klettabrjótur og plógur náttúrunnar stöðvaður við iðju sína og eyðilegging hins einstæða hrauns stöðvuð.

Óbeislaðar ár sem engu eira og ryðjast yfir náttúruverðmæti eru okkar skógareldar. Djúpir skurðir, ör og sár sem seint gróa eru sköpunarverk þeirra. Sem hluti af náttúru þessa lands ber okkur að verja landið fyrir eyðingarmætti vatnsfalla.

Hábeinn (IP-tala skráð) 9.11.2017 kl. 01:29

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þessi pistill þinn, Hábeinn, er skrifaður af óvenju mikilli fáfræði um gljúfur Jökulsár á Brú. 

Meðan landið var látið í friði rann áin um þröngt gljúfur mestalla leiðina niður á undir Brú, og tók minnsta mögulega flatarmál sem hugsast gat. 

Hún komst aldrei upp úr gljúfrinu og gerði ekki hinn minnsta usla, ekkert frekar en nafna hennar á Fjöllum í gljúfrunum neðan við Dettifoss. 

Þarna voru um 60 ferkílómetrar af mestmegnis grónu landi, sem hélt algerlega velli, enda í friði frá aurburði árinnar, sem rann eins og um stokk, en það ekkert venjulegan stokk heldur stórbrotnustu gljúfur landsins. 

Hlíðar hins 180 metra djúpa Hjalladals voru með einstæðu hjallalandslagi, sem var og hafði verið óbreytt um aldir, með græna gróna stalla mestapart auk "Fljótshlíðar íslenska hálendisins" hins bogamyndaða algróna Háls, með sínum 4-5 metra þykka jarðvegi. 

Allt var þetta í algeru jafnvægi afar fjölbreytts og óvenjulegs landslags. 

Með virkjuninni er þessu breytt í 57 kílómetra leirborinni eyðimörk þegar lægst er í lóninu snemmsumars og framtíðin felst í því að í staðinn fyrir þetta fjölmbreytta landslags verða 57 ferkílómetrar af flötum foksandi. 

Fyir neðan stífluna verða hin mikilfenglegu Dimmugljúfur, mynduð á aðeins um 700 árum af afkastamesta fljóti Evrópu, að vísu áfram á sínum stað, en þurr og smám saman með samfelldri hrunurð á botninum. 

Ætla að setja inn eina loftmynd af svæðinu innan við stífluna eins og það er á hverjum af þeim hlýjustu og björtustu dögum snemmsumars, sem hnjúkaþeyrinn heiti gerir þetta svæði að nýju foksvæði.  

Ómar Ragnarsson, 10.11.2017 kl. 00:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband