Myndirnar, sem voru aldrei teknar.

Ef hernám Íslands 10. maí 1940 var stærsti viðburður síðustu aldar hér á landi var eldgosið í Heimaey, sem hófst 23. janúar 1973 líklega stærsti hamfaraviðburður síðustu aldar. 

Ég var í móðurkviði þegar Bretarnir komu, en fyrir hreina tilviljun frétti ég af gosinu í Heimaey fyrstur manna á RUV og hafði af þeim sökum tök á að stökkva strax upp í FRÚna og fljúga nætursjónflug til Vestmannaeyja undir skýjum áður en veður versnaði, eina flugvélin sem fór þá leið. 

Fyrir bragðið blasti við ógleymanleg sýn þegar komið var yfir Þrídranga sem enginn annar sá, því að aðrir sem komu fljúgandi frá Reykjavík, komu í aðflugi ofar skýjum og niður í gegnum skýin á lokastefnu við flugvöllinn. 

Birtuskilyrði voru þannig að ekki voru tök á að festa þessa sýn á filmu:  Þrídrangar og vitinn þar í forgrunni, tungl gægðist sem snöggvast í gegnum litið skýjagat og varpaði draugalegum blæ á sjónsviðið, framundan var röð fiskibáta á flótta frá eyjunni með fólk standandi á sumum úti á þilfari, í baksýn Heimaey með eldvegg, sem náði frá brautarenda austur-vesturbrautarinnar og norður yfir austurenda eyjarinnar niður að sjó við innsiglinguna. 

Enn í dag þarf ég ekki annað en að lygna augunum til þess að þessi ógleymanlegasta minning ævinnar birtist enn ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. 

Einhvern tíma verður kannski hægt að tölvugera þessa mynd. 

Engan grunaði 1973 að á næsta ári á eftir ætti eftir að verða hinn fyrsti í röð hamfaraviðburða af völdum snjóflóða, sem á næsta 21 ári myndi kosta alls fimm tugi manna lífið. 

Það tók Íslendinga öll þessi ár að átta sig á því að í raun var allt þetta manntjón óhjákvæmileg afleiðing af því að reistar voru fjölmennar byggðir á stöðum þar sem slíkar byggðir höfðu ekki verið áður.  

Öll snjóflóðin féllu á svæði, þar sem ekki hafði verið húsabyggð á fyrri öldum og því engar sagnir í annálum um snjóflóð, sem þó höfðu áreiðanlega fallið þar.

1973 og 1974 urðu upphafsár þess fyrir mig að verða á vettvangi allra hamfara og stórslysa í landinu allt fram á þennan dag. 

Ungum fréttamanni var kastað út í hina djúpu laug ólýsanlegra aðstæðna, sem höfðu gríðarleg áhrif á alla þá sem lentu í slíkum aðstæðum. 

Í þá daga hafði hugtakið áfallahjálp ekki verið fundið upp og vafalaust hefði verið gott að eiga aðgang að slíku. 

Það var sérlega snúið verkefni að komast frá Reykjavík til Norðfjarðar. 

Það var brjálað veður á sjóleiðinni austur með landinu og kolófært til flugs á Austfjörðum. 

En það fannst leið til að munstra Þórólf Magnússon, síðar fluggoðsögn í dreifbýlisfluginu, á tveggja hreyfla Britten Norman-Islander vél flugfélagsins Vængja og komast yfir hálendið til Egilsstaða og fara þaðan í snjóbíl yfir til Eskifjarðar og á báti restina. 

Í Neskaupstað voru aðstæður hörmulegar, en þar sem ég ráfaði smástund einn um rústirnar, blasti við mér ógleymanlega átakanleg og áhrifamikil sjón. 

Í rústunum af húsi þar sem mæðgur fórust, ef ég man rétt, lá á einum stað mölbrotið brúðuhús og sundurtættar brúður. 

Þessi sjón sagði svo mikla harmsögu, að kannski var ekkert jafn táknrænt fyrir þann mikla harmleik, sem staðið var frammi fyrir á þessum stað.

Um hugann flaug áhrifamesta ljósmynd síðustu aldar, sem Finnbogi Rútur Valdimarsson tók við Straumfjörð á Mýrum af tæpum fjórum tugum skipbrotsmanna af skipinu Pourqouis pas? sem fórst þar fyrir utan 16. september 1936, sem var afmælisdagur móður minnar og seinnar einnig minn. 

En ég gat ekki fengið það af mér að taka jafn ofboðslega harmræna en þó einfölda mynd og sundraða leikherbergið var. 

Það þurfti lengri tíma til þess að átta sig á þvi sem lærðist síðar við endurtekin hamfarastórslys af þessu tagi, að við svona aðstæður snýst málið ekki um það hvort taka eigi mynd, heldur hvernig eigi að varðveita og hvenær, ef nokkurn tíma, að birta þá mynd, sem tekin er, kannski ekki fyrr en öld seinna, kannski aldrei að gera hana opinbera sem verðmæta heimild um stórviðburði og líf þjóðarinnar í harðbýlu landi. 

Kannski verður þessi litla mynd, sem aldrei var tekin, einhvern tíma tölvugerð og bætist við hina ógleymanlega sterku mynd Finnboga Rúts af slysinu mikla á Mýrum 1936 og tölvugerða mynd af flóttanum mikla undan eldhafinu í Heimaey 1973.  


mbl.is Snjóflóðin sem tóku 12 líf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband