"Landvinningar" í austurvegi með fótknött að vopni?

Landkönnun og landvinningar norrænna víkinga beindist ekki aðeins í vesturveg til nýrrar álfu, heldur líka allt austur á sléttu Úkraínu. 

Það fór um mig straumur við að heyra hvar Íslendingar myndu leika fyrstu leiki sína á HM, Moskva, Volgograd og Rostov, vegna þess hve gefandi það yrði að koma á þessa staði, burtséð frá nýjum landvinningum í knattspyrnunni. 

Ég kom að vísu til Moskvu í febrúar 2006 vegna skrifa bókarinnar "Emmy, stríðið og jökullinn" og fannst mikið til koma að fá að standa á þeim stað í útjaðri borgarinnar, þar sem sókn Þjóðverja inn í hana var stöðvuð í desember 1941. 

Þar er minnismerki um þetta og ekki þarf að fara nema upp í ákveðnar byggingar þar til að sjá til turna Kremlar. 

Leið mín lá að vísu til smábæjarins Demyansk, sem er við svonefendar Valdaihæðir um 300 kílómetra fyrir norðvestan Moskvu, en þar var 100 þúsund manna lið Þjóðverja innilokað frá janúar til maí 1942. 

Þjóðverjar héldu uppi magnaðri loftbrú til hins innilokaða hers þessa mánuði, fluttu 16 þúsund særða út en jafnmarga hermenn inn, áður en hið innilokaða herlið gat brotist úr herkvínni. 

Þetta var fáheyrt hernaðarlegt afrek á þessum tíma en innsiglaði úrslit tímamótaorrustu áramótin eftir, þar sem Göring ætlaði að leika loftbrúna til Demyansk eftir við Stalíngrad, sem nú heitir Volgograd, en varaði sig ekki á því, að um þrefalt stærri innilokaðan her var að ræða, við mun erfiðari skilyrði og gegn hraðvaxandi flugher Rússa. 

Þegar Charles De Gaulle hershöfðingi var forseti Frakklands fór hann í opinbera heimsókn til Sovétríkjanna og kom meðal annars til Volgubakka í Volgograd og stóð þar við ána á miklum söguslóðum orrustunnar miklu. 

"Þetta hefur verið mikið afrek" hraut af vörum De Gaulle, sem hafði stýrt skriðdrekasveit á vesturvígstöðvunum og síðan gengið með Frjálsum Frökkum inn í Parísarborg sumarið 1944. 

"Já, hjá okkur" sagði gestgjafi De Gaulle. 

"Nei, ekki síður hjá Þjóðverjum, að komast alla leið hingað", svaraði De Gaulle. 

Hann vissi um stórkostlegar fórnir og afrek Sovéthersins en einnig það, að í krafti yfirburða í mannaafla og framleiðslugetu Sovétmanna, var með ólíkindum hve langt Þjóðverjar höfðu samt komist áður en þeir töpuðu mikilvægustu orrustu stríðsins.  

Mikið yrði nú stórkostlegt að komast í þessar þrjár borgir, Moskvu, Volgograd og Rostov með íslenskt víkingaklapp. 


mbl.is Argentína, Nígería, Króatía
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hef búið í Rússlandi og eins og í Reykjavík eru gömlu miðbæirnir það áhugaverðasta í til að mynda Moskvu, Sankti Pétursborg og Kænugarði, höfuðborg Úkraínu.

Mæli með því að skoða þar kirkjurnar og fara inn í Kreml.

Rússar eru ekkert öðruvísi en við Íslendingar.

Hvíta-Rússland er einnig áhugavert að skoða, til dæmis höfuðborgina Minsk, þar sem ég dvaldi í mánuð síðastliðið sumar.

Og nú bý ég í Búdapest, sem er enn áhugaverðari en þær borgir sem ég taldi upp hér að ofan, og ungverska flugfélagið Wizz Air flýgur beint á milli Keflavíkur og Búdapest.

Bý í miðborginni og gríðarstór jólamarkaður er nú á torginu við húsið sem ég bý í.

Það voru aðallega sænskir víkingar sem settust að þar sem nú er Rússland, Úkraína og Hvíta-Rússland.

Þeir blönduðust þeim sem þar bjuggu fyrir, stunduðu viðskipti og stofnuðu Garðaríki.

Hins vegar er engin ástæða til að mæra landvinninga, hvorki fyrr né síðar, sem byggjast á skefjalausu ofbeldi og mikilli fyrirlitningu á þeim sem fyrir búa í viðkomandi landi.

Þorsteinn Briem, 2.12.2017 kl. 15:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband