Ógleymanlegar mínútur í Teigsskógi.

Þegar vegalagning um Teigsskóg komst fyrst á dagskrá fór ég einn daginn vestur, fór á bílnum eins og langt og ég komust út eftir Þorskafirði og eyddi því sem eftir var af deginum í að ganga út eftir skóginum og til baka aftur. 

Ég undraðist þá fjölbreytni í landslagi og gróðurfari sem þessi stærsti skógur við Breiðafjörð og á Vestfjörðum býr yfir, auk þeirrar kyrrðar og friðar, sem þar ríkti svo að hljóð einstakra fugla heyrðist vel. 

Það minnti mig á sólmyrkvann 1954, þegar eftirminnilegast var hvernig allir fuglarnir í dalnum þar sem ég var í sveit, þögnuðu við rökvunina, en hófu síðan aftur söng sinn eftir að dró frá sólu. 

Þegar ég fór norður hálfri öld síðar til þess að fanga þetta sem mynd með hljóði, var það enginn vegur vegna hins mikla umferðarhávaða, sem þarna ríkis stanslaust lungann úr árinu. 

Auk þess sem fuglalífið hafði beðið mikunn hnekki við framræslu votlendisins.  

Við Þorskafjörð var ég áður búinn að fljúga lágt eftir endilöngu fyrirhuguðu vegarstæði og hafði hrifist af nesjunum við fjarðarmynnin og hólmum, smáeyjum og skerjum í hinum mikla friði og þeirri kyrrð, sem kórónaði hughrifin. 

Og fór síðar sérstakt flug til að taka lofmyndir og setja saman nokkurra mínútna myndskeið, sem ég sýndi á fundi Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða, sem þá voru endurvakin um hríð. 

En mestu hrifningu mína vakti þegar ég var kominn nokkuð áleiðis á göngu minni og sá skyndilega risastóran fugl hefja sig til flugs af kletti við sjóinn og hækka flugið í hnituðum hringjum sem hann hélt áfram hnita þegar hann var kominn langleiðina að mér. 

Þetta var hinn mikilfenglegi konungur íslenskra fugla, haförninn með sína óhemju breiðu og stóru vængi. 

Þegar ég var í flugnámi heillaði lofteðlisfræðin mig einna mest og vænglagið á haferninum er til dæmis töluvert frábrugðið vænglagi fálkans. 

Vængir arnarins eru einstaklega breiðir og þannig lagaðir, að vængflöturinn sé sem stærstur, jafnvel þótt það bitni á hraða, lipurð og steypigetu, sem er aðall fálkans, hraðskreiðustu lífveru jarðar. 

Örninn þarf hin vegar á sem mestri lyftigetu vængjanna að halda til þess að lyfta sem stærstri bráð eða hræi. 

Til útskýringar hyggst ég birta hér mynd af flugvélinni Helio Courier, sem þarf sem besta hægflugseiginleika til að hægt sé að lenda henni á stuttum og ófullkomnum lendingarbrautum til að bera sem mest á flugi.

Ég sá haförn í fyrsta sinn í Vattarfirði 1960 og það var tignarleg sjón. 

En örninn sem kom til mín og hnitaði hringa yfir mér uns hann hvarf á braut, og gaf sér nægan tíma til að heilsa mér í Teigsskógi, konunglegt flug hans, stærð og hegðun, sem og umhverfið allt, skapaði  ógleymanlega minningu. 

Ef ég man rétt, var 50 sekúndna myndskeið frá þessari göngu sýnt í lok sjónvarpsfrétta eitt kvöldið, þar á meðal einhverjar sekúndur með flugi arnarins. 

2008 setti ég nokkurra mínútna myndskeið af Teigsskógi saman til að sýna á stofnfundi endurvakinna Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða, sem létu sig hugmyndir um tvær risavaxnar olíuhreinsistöðvar vestra varða.  


mbl.is Handsamaði og hlúir að máttförnum haferni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ólafur Arnalds prófessor - Teigsskógur og vegalagning:

"Skipulag vegalagningar um Gufudalssveit er orðið langt og sorglegt drama.

Ljóst var fyrir 11 árum síðan, þegar Skipulagsstofnun hafnaði vegastæði um Teigsskóg, að leggja þyrfti veginn með öðrum hætti.

Hefði sú vinna farið strax í gang keyrðu Vestfirðingar fínan malbikaðan veg um Gufudalssveit núþegar, bara á öðrum stað.

Það er afskaplega leiður ávani ýmissa stjórnvalda, í þessu tilfelli Vegagerðarinnar, að hunsa álit annarra stjórnsýslueininga á sviði umhverfismála.

Reynt var að láta ráðherra snúa við úrskurðinum, sem hún gerði (Jónína Bjartmarz) en Héraðsdómur ógilti úrskurð ráðherra (2008).

Enn var þumbast við en árið 2009 staðfesti Hæstiréttur "Héraðsdóminn". Ögmundur Jónasson komst síðar að sömu niðurstöðu sem ráðherra vegamála.

Þessi vegalagning um Teigsskóg virðist hins vegar hafa beinlínis orðið að þráhyggju hjá Vegagerðinni eða einhverjum þar innanhúss.

Og nú á enn að hunsa álit Skipulagsstofnunar og annarra ríkisstofnana sem fara með umhverfismál af hálfu ríkisins.

Veglína Vegagerðarinnar um Teigsskóg er umhverfislegt stórslys.

Jafnframt er beitt óvönduð vinnubrögðum, að mínu mati, til að viðhalda þráhyggjunni, gert lítið úr svæðinu við Teigsskóg (málið snýst alls ekki bara um skóginn), meðal annars með vafasömum myndbirtingum.

Lítið er gert úr öðrum möguleikum en þegar rýnt er í þær röksemdir standast þær ekki mál.

Þá er fullkomlega gengið fram hjá byggðarsjónarmiðum sem lúta að því að treysta þéttbýlið á Reykhólum."

Þorsteinn Briem, 2.12.2017 kl. 21:30

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, notuð var svipuð aðferð og við það að reikna Fljótaleiðina út af borðinu fyrir norðan, - gangamunninn lækkaður úr 110 metrum niður í 40 svo að göngin yrðu nógu mikið lengri og dýrari.  

Ómar Ragnarsson, 3.12.2017 kl. 00:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband