"Hvað er að?"

"Hvað er að?" heitir eitt laga Jónasar og Jóns Múla Árnasonar, sem flutt er í söngleiknum Ellý í Borgarleikhúsinu og er gott dæmi um galdur leikhússins, þegar máttur hins beina sambands leikara og áhorfenda er best nýttur. 

Þessi orð koma í hugann þegar lesin er tengd frétt á mbl.is þar sem umsjónarmenn fjölmiðlanna, sem halda úti bloggi, lýsa einkennum þeirra sem þeir kalla "netdólga."

Þau eru býsna kunnugleg mér og fleirum síðuhöfum. 

Eftir tíu ára reynslu af því að halda úti bloggsíðu þar sem skrifaðir hafa verið meira en tíu þúsund pistlar og sennilega tvöfalt fleiri athugasemdir, er reynslan sú, að lygilega sjaldan hefur þurft að fjarlægja athugasemdir eða gestina, sem gert hafa athugasemdir. 

Hægt hefur verið að telja þessa aðgangshörðu gesti á fingrum annarrar handar. 

En þeir hafa að sama skapi verið afar illskeyttir á stundum og áhugavert fyrir sálfræðinga að kynna sér atferlið. 

Það er nokkurn veginn svona: 

Viðkomandi skrifar undir dulnefni og vegur úr launsátri, þ. e. skrifar ekkert, segi og skrifa ekkert annað en níð um bloggsíðuna, allt sem í hana er skrifað og síðuhafa. 

Hann vílar ekki fyrir sér að fullyrða og það aftur og aftur, að allt sem síðuhafi skrifar sé lygi og rangfærslur. 

Jafnvel vakað heila nótt við að setja inn sömu athugasemdirnar aftur og aftur. 

Já, þetta er makalaust, ef athugasemd er þurrkuð út skrifar "fúll á móti" hana aftur og síðan aftur og aftur þangað til að maður áttar sig á, að maður ætli ekki að eyða síðustu árum ævinnar í að þurrka út athugasemdir, sem ævinlega er troðið inn á ný. 

Engin leið er að útiloka leyniskyttuna, því að hann skiptir þá bara um dulnefni og IP-tölu og skýtur úr öðru launsátri. 

Eitt ráðið sem síðugestir af þessu tagi grípa jafnvel til, er að troða sér inn á nafni náins ættingja! 

Ef maður reynir að losna við óværuna, er taflinu snúið við: Síðuhafinn er fordæmdur fyrir ofbeldi og grófa ritskoðun. 

Síðuhafinn uppgötvar að hann er ekki lengur síðuhafi, heldur hefur óværan tekið öll völd og að annað hvort verði að lúta valdi hennar eða játa sig sigraðan og loka síðunni.

Sennilega yrði óvildarmaðurinn þá í einhverjum tímabundnum vandræðum, því að ekki er að sjá að hann láti svona á öðrum síðum. Nema að hann noti þá annað dulnefni.  

Fúll á móti virðist ganga með þá köllun að andskotast stanslaust árum saman út í eina persónu, síðuhafann, sem honum er svo mikið í nöp við, að eitt einasta jákvætt orð sést ekki hrjóta úr penna hans í síbyljueinelti hans. 

Ef reynt er að andmæla vegna þess að það að svara ekki er túlkað sem uppgjöf, og einhverjir sem ekki þekkja til, gætu tekið óvildarmanninn trúanlegan, keyrir leyniskyttan stóryrðin upp en segir afnframr að það sé síðuhafinn, sem sé með stóryrði vegna þess að hann "veit upp á sig sökina - rökþrota" svo að notað sé nýjasta orðalagið. 

Í því tilfelli var átti sök síðuhafans að vera sú, að hann væri mesti umhverfissóði jarðar og því hrikalegasti hræsnari jarðar. 

Í tengdri frétt á mbl.is kemur fram fróðlegt fyrirbæri, að óvildargesturinn safni jafnvel IP-tölum og búi til allt að tíu persónur, sem geti þá líka látið til sín taka, auk aðal hælbítsins. 

Tæknilega er því hugsanlegt að hann geti skipt sér í fleiri en einn gest með dulnefni, sem samsinni aðal óvildargestinum. Ekki þarf marga slíka til þess að hægt sé að loka hringnum með því að segja: Þeir virðast vera í meirihluta hér á síðunni, sem samsinna mér um lygar og rökþrot þín, og það sýnir best hvílíkar staðleysur þú viðhefur, þú aumi síðuhafi.  

Minnir mig á brandara sem Laddi fór með í Sumargleðinni fyrir 42 árum, þar sem hann sagði frá eltingarleik, þar sem hann var að reyna að komast undir ógnandi manni með hníf. 

Að lokum ætlaði hann að stökkva yfir lágan vegg, en datt, og lá varnarlaus á jörðinni.

"En þar sem maðurinn með hnífiinn stóð yfir mér datt mér snjallræði í hug til undankomu:  

Ég dreifði mér!"  

En vitið þið hvað hann gerði þá? 

Hann umkringdi mig!" 

Þetta fyrirbrigði, miðaldra maður, fullur af óvild, oftast mjög persónulegri, væri vafalaust athyglisvert rannsóknarefni fyrir sálfræðinga til að svara spurningunni: "Hvað er að?" 

En því miður er það ekki heldur hægt þegar leyniskytta, sem vegur úr launsátrum á í hlut. 

Og leyniskyttan hefur fyrir löngu komist að því hvað sé að, og lætur það ótæpilega í ljós að sá sem þessu valdi sé síðuhafinn, sem "viti upp á sig sökina / skömmina", og síðan heldur hælbíturinn áfram að ausa síðuhafann flestum þeim ónefnum, sem hægt er að finna.  

 

 

 


mbl.is Fréttir um konur og innflytjendur vekja hörð viðbrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Almennt talað þá hlýtur það að vera erfitt, verandi latur við upplýsingaöflun en duglegur að blogga og yfirlýsingaglaður með eindæmum, að fá yfir sig menn sem nenna að kanna gildi fullyrðinganna. Tala nú ekki um þegar þeir nota copy/paste til að svara með ónefnum og stóryrðum síðueiganda sjálfs. Síðueiganda á náttúrulega einum að leyfast að hafa uppi stóryrði og kalla þá ónefnum sem ekki eru honum sammála, aðrir eiga að haga sér sem auðmjúkir gestir og hrósa honum fyrir allt sem hann segir. Það hlýtur að vera erfitt að geta hvorki tekið né svarað rökstuddri gagnrýni og getur endað í gráti og sjálfsvorkunn. Vafalaust athyglisvert rannsóknarefni fyrir sálfræðinga til að svara spurningunni: "Hvað er að?", svona almennt talað.

Hábeinn (IP-tala skráð) 11.12.2017 kl. 09:39

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er mikill munur á stanslausum austri neikvæðra skrifa í botni árum saman annars vegar, og hins vegar á gagnrýnum skrifum á málefnalegum grunni, eins og venjulegir gestir sem kunna að hafa aðrar skoðanir en síðuhafi eða vilja koma fram með öndverðar upplýsingar viðhafa, koma fram með nánast allir sem einn, - nema þessi eini. 

Hábeinn telur að ég "geti ekki svarað" og endi í "gráti og sjálfsvorkunn." 

Hann á sennilega við pistil hér á undan, þar sem ég er að kynna fyrir áhugamönnum um minni kolefnisútblástur reynslu mína af eign á þremur ódýrum fararskjótum, rafreiðhjóli, sparneytnasta vespuhjólinu sem nær þjóðvegahraða, og minnsta rafbíl á Íslandi. Þessi reynsla gæti kannski gagnast fleirum til að ná allt að 85% minnkun á kolefnisspori. Ég er að sjálfsögðu að tala um hið venjubundna alþjóðlega viðmið, sem er persónuleg not mín hér heima en ekki erlendis eða á milli landa, þar sem um ekkert er að velja. 

Eftirfarandi gagnrýni er sett fram á síðunni, sem eigi að sanna að síðuhafinn sé mesti umhverfissóði og hræsnari í heimi: 

Síðuhafinn ferðast margar margar ferðir til útlanda og keyrir mörg þúsund kílómetra þar.  

Svar: Það er rangt að ég sé eins og jójó á milli Íslands og annarra landa. Ég fór til Frakklands til brúðkaups sonar míns og hljóp í skarð fyrir íslenskan fulltrúa á ráðstefnu. sem búið var að borga ferðakostnað fyrir. Ók á sparneytnasta bílnum, sem fannst. Jafnvel þótt þetta væri talið með í kolefnisspori mínu, nær það aldrei að verða meiri en hluti af meðalakstri mínum og annarra, sem er 15 þúsund kílómetrar. 

Ásökun / skömm: Síðuhafinn flýgur á FRÚnni sem mengar á við mörg þúsund bíla og spúir ozoneyðandi efnum í háloftunum. 

Svar: Síðuhafi flýgur 12-15 tíma á ári, sem samsvarar 1500-2000 kílómetrum á minnstu flugvél, sem hægt er að finna til kvikmyndagerðar, sem hann vinnur við, hefur ekki flogið FRÚnni í meira en þrjú ár, og þessi litla flugvél er með aðeins 100 hestafla hreyfil, fljúgandi í svipaðri hæð að meðaltali og bílar sem aka um fjallvegi landsins. 

Ásökun: Þar lygi að með notkun þeirra þriggja farartæki sem síðuhafi hefur nú undir höndum geti hann minnkað kolefnisspor sitt um 85%. Það örlar ekki á því að síðuhafi færi nein rök fyrir máli sínu, hann er rökþrota og vælandi af sjálfsvorkunn. 

Svar: Rafhjólið og minnsti rafbíll landsins eru með engan útblástur. Vespuhjólið eyðir 2,2 lítrum innanborgar og 2,5 á þjóðvegum þegar það er notað. Þessi þrjú farartæki reiknast mér taka í burtu um 85% þess kolefnisspors, sem meðaljóninn er með til meðalaksturs upp á 15 þúsund kílómetra á ári. Ég ferðast ekkert með áætlunarflugi 15 prósentin felast í notkun litlu flugvélarinnar og í formi sem svarar einnar hálendisferðar á ári á minnsta fáanlegum torfærujeppa í atvinnuskyni, hef meira að segja farið hálendisferð þegar hægt var að komast þá leið á ódýrasta, einfaldasta og minnst mengandi bílnum á markaðnum, (síðuhafinn er með atvinnuflugmannspróf og er sjálfstætt starfandi kvikmyndagerðarmaður og ljósmyndari). 

Þeir sem lesa þetta og tilgreinda síðu geta síðan sjálfir dæmt um það hver er "stóryrtur, sé rökþrota og svari engu.  

Ómar Ragnarsson, 11.12.2017 kl. 11:09

3 identicon

Sammála þér Ómar. Þessi nafnlausu skrif huglausra sála sem þora ekki að skrifa undir eigin nafndi er vonlaus barátta sem þessi miðill Morgunblaðið leggur blessun sína yfir. Ég skil ekki afhverju blog.is og heldur þessu bloggi gangandi leyfi nafnlaust níð á þessum vettvangi. Þetta er gamaldags form að leyfa nafnlausar athugasemdir, augljóslega. Enginn heitir Hábeinn. 

Axel Jón Fjeldsted (IP-tala skráð) 11.12.2017 kl. 11:25

4 identicon

Ómar gæti verið haldinn einhverskonar lesblindu, svo ekki sé farið í frekari og dýpri greiningu.

Hann sér ekki mun á spurningu og fullyrðingu.

Hann gerir engan greinarmun á almennu spjalli og persónulegum ásökunum.

Hann endursegir og breytir merkingu setninga og segir það svo skoðun þess sem skrifaði upprunalegu setninguna.

Hann segir eitt og túlkar það síðan sem eitthvað allt annað sem enginn nema hann getur séð.

Hann telur alla sem ekki skrifa undir fullu nafni og kennitölu vera einn og sama manninn.

Og sér svo ofsjónum yfir því að ég hafi vogað mér að andmæla rangfærslum hans að meðaltali sjaldnar en einu sinni í mánuði þessi 3 ár sem ég hef skrifað á síðu hans.

...Vafalaust athyglisvert rannsóknarefni fyrir sálfræðinga til að svara spurningunni: "Hvað er að?".

Hábeinn (IP-tala skráð) 11.12.2017 kl. 12:13

5 identicon

Sæll Ómar.

Þetta gengur ekki svona.

Ráðlegg þér eindregið að
breyta yfir í það form þar sem gestir
skrifa undir fullu nafni, -
þú gætir a.m.k. prófað það í nokkurn tíma
og gert síðan upp við þig
hvort þú ert sáttur við það form eða ekki.

Húsari. (IP-tala skráð) 11.12.2017 kl. 14:17

6 identicon

Mér finnst eiginlega bara fyndið að sami maður eigi þessar setningar og það í sömu athugasemdinni hér að ofan:

"Ómar gæti verið haldinn einhverskonar lesblindu, svo ekki sé farið í frekari og dýpri greiningu." og ...Vafalaust athyglisvert rannsóknarefni fyrir sálfræðinga til að svara spurningunni: "Hvað er að [Ómari]?".

Og

"Hann gerir engan greinrmun á almennu spjalli og persónulegum ásökunum."

Mér sýnist nú að það sé fyrst og fremst Hábeinn sem eigi í erfiðleikum með að gera greinarmun á almennu spjalli og persónulegum árásum.

Bjarki (IP-tala skráð) 11.12.2017 kl. 16:37

7 identicon

En Bjarki, ég á ekki setninguna sem þú einhverra hluta vegna telur við hæfi að bæta nafni Ómars inn í. Ég fékk hana hjá Ómari héðan að ofan. Hún kemur þaðan sem Ómar kallar mig netdólg, fúll á móti, leyniskyttu, óværu, óvildarmann, óvildargest, hælbít og í lokin "Þetta fyrirbrigði, miðaldra maður, fullur af óvild, oftast mjög persónulegri, væri vafalaust athyglisvert rannsóknarefni fyrir sálfræðinga til að svara spurningunni: "Hvað er að?"

Hábeinn (IP-tala skráð) 11.12.2017 kl. 17:19

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er ekki rétt, Hábeinn, ð ég kalli þig netdólg helfur vitna ég orðrétt í ummæli umsjónarmanna bloggþjónustu tveggja fjölmiðla sem nota það orð um ákveðna menn, sem þeir hafa þurft að hafa afskipti af.

Hvað snertir orðæðuna, sem til umræðu er, það er fullyrðinguna um að ég sé mesti umhverfissóði og hræsnari á byggðu bóli, geta lesendur bloggsíðunnar séð hana sjálfir um þann hluta pistilsis um bjarndýrin þar sem rætt er um persónulegt kolefnisspor mitt.  

Ómar Ragnarsson, 11.12.2017 kl. 18:20

9 identicon

Ææ, mig auman, var þetta eina uppnefni af átta ekki ætlað mér! Hvílíkt klúður! Hjá mér vaknar samt ósjálfrátt spurningin hvor okkar gerði mistök?

Fullyrðingin um að þú sért mesti umhverfissóði og hræsnari á byggðu bóli er komin frá þér sjálfum. Þú ákvaðst sjálfur að skilja spurningu sem ásökun og taka það til þín, og bætir svo við frá egin hjarta umhverfissóði og byggðu bóli, orð sem hvergi er að finna í því sem ég skrifaði.

Hábeinn (IP-tala skráð) 11.12.2017 kl. 19:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband