Oft ómögulegt að spá fyrirfram um gildi myndefnis.

Sagan ljósmynda- og kvikmyndagerðar geymir ótal dæmi um að að ómetanlegt myndefni hafi glatast, vegna þess hve erfitt var að sjá það fyrir, hvert gildi þess er. 

Dæmi um það er myndbandið sem sýnir Björk Guðmundsdóttur 11 ára lesa söguna um Jesúbarnið. 

Árið 1976 var ómögulegt að sjá fyrir að milljónir manna víða um heim myndu horfa á þetta myndskeið 42 árum síðar. 

Dæmin er mýmörg. Ljósmynd af kornungum dreng á Þingeyri fyrir um tæpum 70 árum með þáverandi bíl forseta Íslands í baksýn. 

Útilokað var að sjá það fyrir að síðar myndi þessi drengur gegna því embætti í 20 ár. 

Þegar sérstakur sjónvarpsþáttur með nafninu Áramótaskaup var sýndur á Gamlárskvöld á fyrsta ári íslensks sjónvarps voru stór og fyrirferðarmikil myndböndin afar dýr. 

Og fjárráðin voru svo þröng, að í ferð minni og Hauks Heiðars Ingólfssonar fyrir hönd Sjónvarpsins til Helsinki til þátttöku i norrænun sjónvarpsþætti var of dýrt að hringja heim, og þess vegna voru jólakort notuð til samskipta. 

Myndbandið með fyrsta Áramótaskaupinu var því notað með því að taka annað efni yfir Áramótaskaupið. 

Enginn gat þá séð fyrir að þessi þáttur yrði langlífasta og vinsælasta árlega sjónvarpsefnið og myndi breyta hátíðarhaldi og hegðun heillar þjóðar á hverju gamlárskvöldi. 

Fyrsta kvölddagskráin, fyrsti fréttatíminn, fyrsti skemmtiþátturinn o. s. frv. eru varðveitt en fyrsta Áramótaskaupið er því ekki til varðveitt eins og hin síðari. En það var aðeins eitt Áramótaskaup sem var fyrst, - ekkert hinna. 

Oft er horft of skammt fram í tímann við val á því hvað eigi að varðveita og hvað ekki. 

Algengast er að varðveita aðeins það efni, sem strax er sýnt, en "henda" því myndefni, sem gengur af. 

En þá gleymist oft að einmitt það sem gekk af, getur orðið merkilegasta efnið löngu síðar. 

Áður hefur verið minnst á útþurrkun frægs sjónvarpsþáttar með Halldóri Laxness og þremur öðrum skáldum, og þegar frá leið, sá ég eftir því að hafa verið sofandi yfir þeim möguleika á þessum tíma, að bjarga prívat og persónulega því ódýra segulbandi, sem geymdi dagskrána í mánuð eftir þáttinn. 

Það er alltaf tekin áhætta með því að varðveita efni, sem ekki lítur út fyrir að vera mikils virði. 

Eftir snjóflóðið á Flateyri ákvað ég að geyma í kjallarakompu undir kjallara Útvarpshússins allar 55 myndbandsspólurnar sem teknar voru fyrr vestan hina skelfilegu daga haustið 1995. 

Aldrei er að vita að eftir hálfa öld muni menn sjá þar myndbrot, sem enginn áttar sig enn á að verði merkilegt, svo sem var um myndina af litlum dreng fyrir framan bíl á Þingeyri fyrir tæpum 70 árum. 

 

 

 

 

 


mbl.is Milljónir horfðu á Björk um jólin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon




Funny Animal Pictures Of The Day 22 Pics

Húsari. (IP-tala skráð) 26.12.2017 kl. 20:27

2 identicon

Ómar. Björk var flott áður en hún varð fræg.

Og hún verður flott, eftir að hún hættir að vera fræg, ef einhver skyldi vilja henni mannorðs-svertandi illt í heimsfjölmiðlamafíunni.

Þannig er það með allt fólk.

Enginn verður meiri né minni, betri né verri, vegna opinberra frægðarvængja, né opinberrar niðurlægingar, af hálfu heimsveldisfjölmiðlanna glæpsamlega pólitísku.

Stelpan hún Björk verður alltaf sú einlæga og sterka persóna sem hún var, áður en hún flæktist inná frægðarinnar erfiðu braut. Frægðin jákvæða getur fokið út í veður og vind á einni múgæsingsfjölmiðla mannorðaftöku áróðursherferðar svipstundu.

Eftir stendur þó alltaf sama upprunalega góða kjarnastelpan Björk.

Og mögulegar trúarbragða múgæsings pólitískar mannorðmyrðandi lygar, niðurlægingar eða annar fjölmiðlaáróður breyta ekki kjarnanum í persónum.

Sem betur fer eru allir þeir sjálfir, í kjarnagrunninum innra með sér. Bæði í meðbyr og mótbyr lífsins.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 27.12.2017 kl. 01:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband